Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Breytingar á meðgöngu

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Líkamlegar breytingar á meðgöngu

Meðgangan er tími mikilla breytinga, líkamlegra, andlegra og félagslegra sem krefst töluverðrar aðlögunar. Verðandi foreldrar þurfa að takast á við og aðlagast þessum breytingum á tiltölulega stuttu tímabili lífsins.

Líkamlegar breytingar verða mest áberandi. Þær verða vegna áhrifa meðgönguhormóna sem valda því að líkaminn hefur undirbúning fyrir það sem framundan er. Mikilvægt er að huga að eigin heilsu á meðgöngu þar sem þar er skeið mikilla breytinga.

Markmið líkamans með breytingunum er að hlúa að hinu vaxandi lífi. Líkaminn lagar sig að breyttu hlutverki og konan finnur stöðugt fyrir þessum umskiptum. Oft gengur vel að aðlagast þessum breytingum og verðandi móður líður vel. Það geta þó komið upp ýmsir meðgöngukvillar og hægt er að lesa nánar um þá hér.  

Lesa má um slysavarnir á meðgöngu á meðgöngu. 

Blóð og blóðrás

Vökvamagn í blóðrásarkerfinu eykst og breytingar geta orðið á blóðþrýstingi. Hjá sumum konum lækkar blóðþrýstingur en hjá öðrum getur hann hækkað.

Breytingar á blóðþrýstingi geta leitt til svima og örari hjartsláttar. Hjartað dælir meira blóðmagni í hverjum slætti út um líkamann og stór hluti blóðmagnsins fer um legvöðvann og fylgju.

Blóðþrýstingur er mældur í meðgönguvernd, hækkun á blóðþrýstingi getur verið undanfari á meðgöngueitrun

Aukið blóðflæði er í háræðum húðar og slímhúða og því geta fylgt hitakóf og stíflur í nefi. Það getur blætt frá tannholdi og blóðnasir geta komið af litlu tilefni. Væg bjúgsöfnun er algeng.

Ummál brjóstkassans stækkar og með stækkandi legi færist þindin ofar. Öndunin breytist þannig að meira loft er dregið inn í hverjum andardrætti án þess að öndunarhraðinn breytist. Þessi breyting mætir aukinni þörf líkamans fyrir súrefni vegna stækkandi legs, starfssemi fylgjunnar og vaxtar barnsins.

Konan finnur fyrir þessum breytingum og finnst stundum erfitt að fylla lungun af lofti og finnur jafnvel fyrir mæði stöku sinnum. Aukin upptaka líkamans á súrefni getur líka leitt til svima og yfirliðatilfinningar.

Brjóst

Á fyrstu vikum meðgöngu byrja þroskabreytingar í brjóstum sem konur finna mismikið fyrir.

Mjólkurkirtlarnir þroskast, broddurinn myndast og það getur lekið úr brjóstunum. Blóðflæði í brjóstunum eykst, þau stækka og þrútna og bláæðarnar verða oft sjáanlegar.

Geirvörturnar og geirvörtubaugurinn dökkna og brjóstin eru viðkvæm. Þegar líður á meðgönguna verða eymslin ekki eins áberandi.

Leg og legbönd

Það er algengt að konur finni fyrir einhverjum óþægindum svo sem vægum samdráttum í leginu, stingjum og/eða togverk í nárastað, einkum á síðari hluta meðgöngunnar. 
Togverkir í nára stafa af því að legböndin eru að lengjast, þau margfalda lengd sína á meðgöngunni og lengjast með ört vaxandi leginu. 

Togverkir geta komið við lítið álag eins og það að stíga fram úr rúmi eða standa upp úr stól. Langar göngur og kyrrstöður geta einnig aukið á togverki. Þrátt fyrir að togverkir geti verið mjög sárir eru þeir algerlega skaðlausir.

Húð, hár og neglur

Í húðinni verður aukin framleiðsla á litarefnum. Dökk lína (linea nigra) getur komið í ljós frá lífbeini að brjóstbeini. Geirvörtur og geirvörtubaugur geta dökknað ásamt húð á kynfærum. Einnig geta fæðingarblettir og freknur dökknað.

Litabreytingar geta komið fram í húð sem flekkir í andliti. Líklega er meiri hætta er á slíku verði húðin fyrir mikilli sól. Góð sólarvörn getur e.t.v. minnkað hættuna. Þessar litabreytingar ganga oftast til baka, það getur tekið mislangan tíma en flestar eru horfnar innan árs eftir fæðingu en sumar hverfa aldrei að fullu.

Húðrákir/strik í húð geta komið í ljós. Algengast er að þær komi fram á kvið, brjóstum og mjöðmum. Einnig geta húðrákir sést á mjóbaki, rasskinnum og upphandleggjum. Húðrákirnar eru rauðar á meðgöngutímanum en verða silfur- eða hvítleitar nokkrum mánuðum eftir fæðingu.

Þrátt fyrir að húðrákirnar breytist að lit og dofni eftir fæðingu, hverfa þær aldrei að fullu. Líklega eru það breytingar á hormónum sem valda þessu en erfðir eiga líka þátt. Rannsóknum ber ekki saman um hvort hægt er að koma í veg fyrir að húðrákir myndist með kremum eða smyrslum en mikil þyngdaraukning á meðgöngu virðist áhættuþáttur.

Kláði er algengur kvilli á meðgöngu. Oftast er hann vægur og meinlaus. Hann getur verið staðbundinn og komið fram í hársverði, á kviðnum, við endaþarm og kynfæri en aðallega á seinni hluta meðgöngu. Þurr húð getur gert hann verri.

Sé kláðinn mikill, um allan líkamann, undir iljum og/eða í lófum er rétt að ráðfæra sig við ljósmóður eða lækni.

Áhrif hormóna á meðgöngu geta bæði dregið úr og/eða aukið hárvöxt. Líkamshárin geta orðið grófari í andliti, handleggjum, fótleggjum, baki og kynfærum.

Höfuðhárið þykknar oft á meðgöngu vegna breytinga á vaxtar- og hvíldarskeiði háranna. Á fyrsta hálfa árinu eftir fæðingu verður svo hárlos þegar þessar breytingar ganga til baka.

Neglurnar vaxa hraðar en geta orðið mýkri og /eða stökkari og brothættari.

Samdrættir

Strax eftir getnað er legið tilbúið til þess að vernda og næra hið nýja líf. Slímhúðin í leginu þykknar og verður blóðríkari. Legið stækkar hratt og býr sig undir ört stækkandi fóstur. Það eru vægir staðbundnir samdrættir í leginu nær alla meðgönguna. Þessir samdrættir eru mismiklir og missterkir frá einum tíma til annars á meðgöngunni. Í upphafi meðgöngu eru þeir vart greinanlegir en ágerast þegar líður á meðgönguna. Þeir eru verkjalausir og óreglulegir. Þær konur sem hafa áður gengið með barn geta átt von á að finna meira fyrir samdráttum.

Samdrættir í legi eru saklausir svo lengi sem þeir eru ekki sárir eða reglulegir og það er eðlilegt að finna þá af og til yfir daginn, tíu til fimmtán samdrætti á dag og allt að fjóra á klukkustund. Samdrættir sem koma með verkjum  á 5-10 mín. fresti og hafa staðið yfir í 1-2 klst. geta leitt til breytinga á leghálsinum og jafnvel komið fæðingu af stað. Þegar samdrættir eru með þessum hætti, vaxandi að lengd og styrk eru þeir orðnir að hríðum.

Sára, reglulega samdrætti sem koma fyrir 37 vikna meðgöngu ber alltaf að taka alvarlega vegna hættu á fyrirburafæðingu.

Samdrættir halda áfram í leginu eftir fæðingu, þannig dregst legið saman, blæðing og úthreinsun minnkar. 

Slímhúð

Vegna aukins blóðflæðis sem er í háræðum húðar og slímhúðar getur komið þroti í slímhúð í nefi og munni. Slímhúðin verður viðkvæm og það getur blætt af litlu tilefni. Þroti í nefslímhúð getur valdið nefstíflum og óþægindum, líkt og kvef.

Slímhúðin á kynfærunum getur einnig breyst, hún dökknar og þrútnar.

Bragð- og lyktarskyn

Bragðskyn getur breyst þegar í upphafi meðgöngu.

Stundum finna konur óbragð í munni, járn- eða málmbragð. Einnig getur bragð breyst, það sem áður bragðaðist vel er nú jafnvel vont. Sumar konur fyllast löngun í bragð/mat sem þær eru ekki vanar að borða eða þykja góður.

Lyktarskyn verður næmara og getur haft áhrif á ógleði og/eða löngun í mat. Breyting á lyktar og bragðskyni getur leitt til þess að matarlyst breytist.

Melting

Brjóstsviði. Vegna hormónabreytinga hægist á starfsemi meltingarfæranna sem seinkar tæmingu magainnihaldsins. Loft og magasýrur berast upp í vélinda og valda brjóstsviða. Einnig getur þrýstingur á maga móðurinnar vegna stækkunar á legi og barni aukið einkenni brjóstsviða.

Hægðatregða. Það hægir á þarmahreyfingum á meðgöngu og getur það leitt til harðlífis og hægðatregðu. Hægðatregða er algengara vandamál á síðasta þriðjungi meðgöngu en getur komið á öðrum tíma

Ógleði. Allt að 90% kvenna finna fyrir ógleði og uppköstum á meðgöngu. Þungunarhormón er talið helsti orsakavaldur, ásamt breytingum á efnaskiptum, meltingu og tilfinningalegri líðan.

Algengast er að þessi einkenni vari fyrstu 12-14 vikur meðgöngunnar. Þrátt fyrir vanlíðan móður hafa rannsóknir sýnt að ógleði og væg uppköst eru ekki skaðleg fóstrinu og hefur ekki slæm áhrif á meðgönguna eða fæðinguna

Þyngdaraukning

Það er fullkomlega eðlilegt og æskilegt að þyngjast á meðgöngu. Hæfileg þyngdaraukning er talin til marks um góða líkamlega aðlögun móður og góðan fósturvöxt.

Meginástæður þyngdaraukningar eru: barnið, stækkun á legi og brjóstum, fylgjan og aukning á blóðvökva. Auk þess safnar líkaminn svolitlum fituforða á meðgöngunni.

Ráðleggingar um hæfilega þyngdaraukningu á meðgöngu taka mið af þyngd móður fyrir þungun og eru tengdar rannsóknum á heilsu móður og barns. Konum sem eru í eða undir kjörþyngd er ráðlagt að þyngjast meira en þeim sem eru yfir kjörþyngd. Flestar konur ættu samt að þyngjast eitthvað á meðgöngu.

Viðmið fyrir þyngdaraukningu á meðgöngu
Konur í kjörþyngd eða undir kjörþyngd (BMI < 25) 12,0 -18,0 kg.
Konur yfir kjörþyngd. (BMI > 25-30) 7,0 -12,0 kg.
Konur í offitu (BMI>30) ættu að fylgja einstaklingsmiðaðri ráðgjöf sem fær fá á heilsugæslunni. 

Til að reikna líkamsþyngdarstuðul (BMI) = þyngd (kg)/(hæð (m) x hæð (m)).

Nánar um mataræði á meðgöngu hér

Þvagfæri

Þvaglát. Tíð þvaglát, á nóttu sem degi, eru meðal helstu kvartana kvenna á meðgöngu. Aukin þvagframleiðsla tengist auknu vökvamagni í blóðrásarkerfinu og auknu flæði um nýrun.

Þvagleki. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á aukna tíðni þvagleka á meðgöngu. Talið er að breytingar á hormónastarfssemi geti valdið þessu, auk þess sem þrýstingur frá leginu á þvagblöðruna eykst stöðugt. Þvagleki varir oftast tímabundið.

Þvagfærasýkingar. Þær breytingar sem verða á þvagfærum kvenna á meðgöngu vegna hormónabreytinga og vegna aðlögunar að stækkandi legi, valda því að konum er hættara við að fá þvagfærasýkingar (blöðrubólgu) á meðgöngu og einkennin eru ekki alltaf ljós. Mælt er með því að öllum konum sé boðin þvagræktun á fyrri hluta meðgöngu til að greina slíka sýkingu.

Hafi kona fengið slíkar sýkingar áður er rétt að ráðfæra sig við ljósmóður eða lækni í mæðraverndinni.

 

Andleg líðan á meðgöngu

Sérhvert foreldri upplifir meðgöngu, fæðingu og það að eignast barn á sinn einstaka hátt.
Meðgangan er ánægjutími fyrir flesta þar sem eftirvænting og tilhlökkun er ríkjandi. Neikvæðar hugsanir eins og kvíði og áhyggjur geta þó gert vart við sig.

Miklar breytingar eiga sér stað í lífi verðandi foreldra og það getur verið krefjandi að takast á við þær tilfinningalegu, félagslegu, fjárhagslegu og líkamlegu breytingar sem verða á meðgöngu. Þessar nýju aðstæður hafa áhrif á samskipti parsins. Sumum reynast þær auðveldar á meðan öðrum finnst erfiðara að takast á við þær. Vangaveltur geta verið um það hvernig meðgangan, fæðingin og brjóstagjöf komi til með að ganga.

Meðgangan hefur mismunandi áhrif á konur. Mörgum líður aldrei betur, en aðrar finna meira fyrir óþægindum og vanlíðan. Fylgikvillar þungunar geta haft áhrif á andlega líðan. Ekki er óeðlilegt að verðandi móðir finni fyrir þreytu vegna líkamlegs álags og óöryggis vegna breytinga sem framundan eru.

Verðandi foreldrar verða næmari og viðkvæmari og finna jafnvel fyrir geðsveiflum. Slíkar sveiflur eru þó algengari hjá hinni þunguðu konu. Hún gæti þurft aukinn stuðning, ástúð og hlýju. Þennan stuðning getur konan annað hvort fengið hjá maka sínum eða öðrum nánum vinum eða ættingjum ef maki er ekki til staðar.

Meðgangan er einnig tími breytinga hjá maka ef til staðar er. Maki getur fundið fyrir ógleði eða aukinni matarlyst og þyngdaraukningu við að aðlagast breyttu hlutverki og finna fyrir vaxandi ábyrgð.

Oft er talað um meðgöngu sem hreiðurgerð og áhugamál pars breytast og snúa meira að innviðum sambandsins en áður.

Það er eðlilegt að finna fyrir leiða og tilfinningasveiflum af og til. 
Ef það varir lengi og hefur áhrif á daglegt líf ætti að leita sér aðstoðar hjá ljósmóður eða lækni.

Í 16 vikna skoðun í mæðravernd er gert ráð fyrir að skimað sé fyrir þunglyndi og kvíða.

Hópnámskeið fyrir verðandi mæður er í boði á heilsugæslunni þar sem farið er yfir tilfinningalega líðan og gefin leiðsögn að leiðum til að stuðla að vellíðan. 

Blendnar tilfinningar

Í flestum tilvikum vekur það gleði að fá þungun staðfesta. Hafi þungunin ekki verið ráðgerð getur hún eigi að síður verið velkomin. Stundum hefur það tekið langan tíma að verða barnshafandi og parið jafnvel gengið í gegnum langt og strangt ferli áður en það tókst. 

Óháð því hver aðdragandinn er, geta tilfinningarnar sem vakna verið miklar og óvæntar og á það bæði við um hina verðandi móður og hinn verðandi föður og/eða maka. Blanda af gleði, áhyggjum, kvíða, ánægju og tilhlökkun og sveiflur á milli þessara tilfinninga er algeng líðan og eðlileg. Efasemdir um að tíminn sé réttur til að eignast barn geta gert vart við sig. Efi um að vera tilbúin í foreldrahlutverkið og efasemdir um makann geta kviknað. Þetta eru eðlilegar tilfinningar og vangaveltur á þessum miklu tímamótum í lífinu. Meðganga og fæðing geta vakið upp áður gleymdar eða duldar tilfinningar, vonir og ótta.

Ekki er víst að verðandi foreldrar deili þessum hugsunum en það er mikilvægt að ræða líðan sína. Ef verðandi móður finnst ekki ákjósanlegt að ræða við maka eða meki er ekki til staðar má alltaf leita ráðgjafar hjá ljósmóður í meðgönguvernd.

Stundum finnst barnshafandi konum eins og ætlast sé til að þær finni eingöngu fyrir gleði og tilhlökkun alla meðgönguna. En það er ekki svo. Áhyggjur og efasemdir geta fylgt á meðgöngu ekki síður en gleði og tilhlökkun. Hvort sem um er að ræða fyrsta, annað eða þriðja barn, hefur það í för með sér breytingar á heimilinu. Til dæmis hvað varðar verkaskiptingu, útgjöld, tengsl við maka, undirbúning fæðingarinnar og umönnun nýja barnsins.

Streita

Streita er hluti af ósjálfráðum viðbrögðum líkamans, varnarkerfi sem fer í gang við álag. Streita er í eðli sínu jákvæð. Hún býr líkamann undir átök. Hann bregst við með því að hraða á hjartslætti og öndun og hækka blóðþrýsting. Vöðvaspenna eykst og ónæmiskerfið verður virkara meðal annars vegna aukins flæðis streituhormónsins adrenalíns.

Þetta ástand er líkamanum ekki hættulegt ef það varir ekki lengi í einu. Langvarandi og stöðug streita er hins vegar heilsuspillandi en þá minnkar mótstaða gegn veikindum og sjúkdómum. Svefntruflanir eru oft fyrsta merkið um streitu. Höfuðverkur, vöðvabólga í herðum og hálsi og magavandamál geta gert vart við sig. Blóðþrýstingur hækkar og aukin hætta er á hjarta- og æðasjúkdómum.

Önnur einkenni streitu

  • Þreyta að morgni, þrátt fyrir samfelldan svefn nokkrar nætur í röð.
  • Eirðarleysi og óróleiki eða skeytingarleysi um umhverfið.
  • Viðbrögð þín við hversdaglegum atburðum breytast.
  • Pirringur og óþolinmæði yfir smámunum.
  • Magaverkur, spennuhöfuðverkur eða örari hjartsláttur.
  • Einbeiting minnkar og þú verður gleymnari.

Viðvarandi streita móður á meðgöngu hefur áhrif á barnið, því streituhormónin fara yfir fylgjuna. Áhrifin á barnið eru þau sömu; óróleiki, eirðarleysi og hraðari hjartsláttur. Það er því er mikilvægt að finna leið til að draga úr streitu.

Hvað er til ráða?
Fyrsta skrefið er að viðurkenna að þú finnir fyrir streitu. Reyna að gera grein fyrir hvað það er í lífi þínu sem veldur streitunni. Gott er að skrifa það niður á blað. Skrá einnig það sem er ánægjulegt en veldur samt streitu. Þá færðu yfirlit yfir ástandið og auðveldara er að bregðast við.

  • Viðurkenna að þú hefur ekki tíma til að gera allt.
  • Forgangsraða verkefnum.
  • Endurskoða þær kröfur sem þú gerir.
  • Læra að hlusta á líkamann, hann gefur þér merki um að hægja á.
  • Æfa þig að segja nei.
  • Gera hlutina rólegar en áður.
  • Tryggja nægan svefn.
  • Regluleg hreyfing dregur úr streitu og bætir svefninn.
  • Draga úr álagi í vinnu eins og unnt er.
  • Taka reglulega pásu í vinnunni.
  • Láta þá sem þú umgengst vita að þú sért að draga úr streitu.

Í meðgönguverndinni gefst tækifæri til þess að ræða andlega líðan.

Kvíði

Allir upplifa kvíða einhvern tímann á ævinni, sumir oftar og meira en aðrir. Kvíði er eðlilegur hluti af lífinu en hann getur orðið sjúklegur. Það eru ekki alltaf skýr skil á milli eðlilegs og sjúklegs kvíða . Tilfinningar eins og spenna, óróleiki og hræðsla koma fram við kvíða. Þær geta skarast og oft er erfitt að gera sér grein fyrir hvað er ríkjandi hverju sinni.

Áföll og slys geta verið orsök kvíða. Einnig geta hversdagslegir hlutir eins og að fara í próf, að fara í atvinnuviðtal eða að halda fyrirlestur valdið kvíða.

Sjúklegur kvíði lýsir sér á flestan hátt eins og eðlilegur kvíði; spenna, óróleiki, hræðsla og skelfing. Ástæðu kvíðans eða orsök er hins vegar erfitt að finna. Þá er erfiðara að skilja, þola og meðhöndla hann.

Einkenni kvíða eru einstaklingsbundin. Auk andlegra einkenna koma oft fram líkamleg einkenni:

  • Ör hjartsláttur
  • Sviti
  • Kökkur í hálsi
  • Þurrkur í munni
  • Spenna í vöðvum
  • Ógleði
  • Öndunarerfiðleikar
  • Svimi

Kvíði er hluti af lífsnauðsynlegu varnarkerfi líkamans. Það gerir mönnum kleift að bregðast við aðsteðjandi ógn og hættu. Fleiri varnarhættir verða virkir og spenna í líkamanum eykst. Vöðvarnir spennast, hjartað slær hraðar og flæði streituhormónsins adrenalíns eykst. Þegar brugðist er við hættunni fær líkaminn útrás og spennan gengur yfir.
Þetta varnarkerfi líkamans stjórnast af ósjálfráða taugakerfinu það er þeim hluta taugakerfisins sem ekki stjórnast af vilja. Við sjúklegan kvíða er þetta varnarkerfi mjög virkt og fer af stað án aðsteðjandi ógnar eða hættu. Það er hægt að draga úr þessari virkni með sálrænum aðferðum og/eða lyfjum.

Hvað er til ráða?
Það getur verið erfitt að viðurkenna þær sterku og yfirþyrmandi tilfinningar sem geta fylgt kvíða. Stundum liggur orsök kvíðans í fortíðinni; einhverjar aðstæður eða jafnvel löngu liðinn atburður.

  • Viðurkenndu kvíðann og talaðu um líðan þína við einhvern sem þú treystir. Það er tilgangslaust að reyna að fela líðan sína, finna til sektar eða skammast sín.
  • Það getur reynst vel að draga úr álagi og streitu eins og hægt er. Það er þó mikilvægt að draga sig ekki í hlé heldur halda sig við daglega iðju eins og áður. Það getur reynst erfitt en er nauðsynlegt, bæði til að koma í veg fyrir einangrun og til að auka ekki líkur á meiri kvíða þegar aftur er haldið út í lífið.
  • Nægur svefn er mikilvægur. Hann verður oft óreglulegur við kvíða en það lagast yfirleitt með almennum ráðum við svefnvandamálum; reglulegum svefntíma, róandi aðstæðum fyrir svefn, slökun o.fl.
  • Markviss slökun hjálpar. Það eru til bækur, geisladiskar og margvíslegt efni um slökun. Þeir sem ná góðum tökum á slökun geta yfirleitt stjórnað kvíðanum og dregið úr einkennum eins og spennu og höfuðverk.
  • Reglubundin hreyfing og líkamsrækt eru til bóta. Reglulegar gönguferðir, e.t.v. með góðum vini, bæta líðan og auka getu til að takast á við vandann.
  • Dragðu úr koffeinneyslu og nikótínneyslu, því þessi efni geta gert kvíðann verri og aukið á svefnvandamál. Ekki er ráðlagt að drekka meira en sem nemur 1-2 bollum af kaffi á dag eða 3-4 bollum af tei. Veittur er stuðningur til reykleysis á meðgöngu. Hægt er að ráðfæra sig við ljósmóður í meðgönguverndinni.

Í mæðraverndinni gefst tækifæri til þess að ræða andlega líðan. 

Fæðingarkvíði

Flestar konur velta því fyrir sér hvernig fæðingin muni ganga, hvort hún verði erfið eða sársaukafull og hvernig þær munu ráða við hana. Sumar konur hafa hins vegar verulegar áhyggjur og kvíða fæðingunni eða hræðast hana. Kvíði og hræðsla geta tengst andlegri vanlíðan, reynslu eða upplifun fyrr á ævinni eða fyrri fæðingu.

Áhyggjur, kvíði eða hræðsla skyggja á tilhlökkunina vegna komu barnsins og geta einnig beinst að því hvort allt verði í lagi með barnið. Líðanin getur haft áhrif á daglegt líf og samskipti við maka.

Verðandi faðir/maki getur líka fundið fyrir kvíða fyrir fæðingunni. Maki getur haft áhyggjur af því hvernig fæðingin muni ganga og hvernig konunni og barninu muni líða.

Í mæðraverndinni gefst tækifæri til umræðna og spurninga ásamt því að ræða líðan, óskir og væntingar. Ef á þarf að halda er í boði að fá sérstakan tíma til að ræða málin, ýmist við ljósmóður og/eða fæðingarlækni. Einnig er mikilvægt að verðandi foreldrar ræði saman um líðan sína, væntingar og óskir. Upplýsingar um valkosti og bjargráð í fæðingu geta hjálpað við að taka ákvarðanir og aukið öryggistilfinningu.

Námskeið um undirbúning fæðingar er í boði hjá heilsugæslunni.

Reynsla af fyrri fæðingum getur haft áhrif á næstu meðgöngu. Erfið fæðingarreynsla getur valdið áhyggjum og kvíða. Það getur hjálpað að fara yfir þessa reynslu. Fyrsta skrefið er að leita til ljósmóður í heilsugæslu og óska eftir tíma til að fara yfir fæðinguna og meta líðan. Ljósmóðir metur síðan í samráði við foreldra, hvort þörf er á frekari meðferð og vísar þá í viðeigandi úrræði s.s. til sálfræðings, Geðheilsuteymis-fjölskylduverndar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ljáðu mér eyra á Landspítala eða heimilislæknis.

Hægt er að lesa nánar um erfiða fæðingarreynslu hér.

Andleg vanlíðan

Andleg vanlíðan kvenna á meðgöngu felur í sér algenga geðræna kvilla eins og þreytu, streitu, kvíða og þunglyndi. Þessir kvillar geta haft neikvæð áhrif á daglegt líf og lífsgæði auk þess að geta haft áhrif á heilsu, þroska fóstursins og þroskamöguleika barnsins eftir fæðingu. Andleg vanlíðan getur einnig haft neikvæð áhrif á samskipti við maka og nánustu fjölskyldu. Talið er að um 10-15% kvenna eigi við andlega vanlíðan að stríða á meðgöngu.

Ef þú svarar eftirfarandi spurningum játandi ættir þú að ræða líðan þína við ljósmóðurina í mæðraverndinni:

  • Hefur þú síðastliðinn mánuð oft fundið fyrir leiða, vonleysi eða depurð?
  • Hefur þú síðastliðinn mánuð oft fundið fyrir áhugaleysi og sjaldan fundið fyrir tilhlökkun og gleði?

Einkenni vanlíðunar eru þreyta, áhugaleysi, eirðarleysi, vanmáttarkennd, óákveðni og léleg einbeiting ásamt breytingum á matarlyst og svefni. Þreytu er lýst sem orkuleysi sem lagast ekki við hvíld eða svefn og er ekki í beinu samræmi við líkamlega vinnu eða álag.

Sektarkennd er einnig algeng og hugsanir um dauðann geta gert vart við sig. Áhyggjur og kvíði beinast oft að fósturmissi, heilbrigði barnsins og fæðingunni sjálfri.

Konur sem eiga við andleg vandamál að stríða áður en þær verða barnshafandi eru líklegri til þess að verða andlega veikar á meðgöngu og fyrsta árið eftir fæðingu en á öðrum tíma í lífi sínu. Kona sem finnur fyrir andlegri vanlíðan á meðgöngu er líkleg til að finna einnig til vanlíðunar eftir fæðingu.

Yfirþyrmandi og sífelld vanlíðan, depurð, hjálparleysi og vonleysi geta haft í för með sér þrekleysi og líkamlega verki.

Ef þú glímir við andlega vanlíðan á meðgöngu eða á fyrsta árinu eftir fæðingu ættirðu að leita þér aðstoðar/meðferðar sem fyrst.

Það er mikilvægt að þær konur sem taka geðlyf ráðfæri sig við lækni eða ljósmóður áður en þær ákveða að breyta eða hætta lyfjatöku.

Hvaða meðferð hentar mér?

Meðferð við andlegri vanlíðan á meðgöngu og á fyrsta ári eftir fæðingu getur falið í sér hópmeðferð/námskeið, viðtöl við ljósmóður, hjúkrunarfræðing, heilsugæslulækni, sálfræðing og/eða lyfjameðferð.  

Mikilvægt er að ræða kosti og galla meðferðar sem og kosti og galla þess að þiggja ekki meðferð.

Lyfjameðferð á meðgöngu getur haft áhættu í för með sér fyrir ófædda barnið. Ef lyfjameðferð er hins vegar hætt eða afþökkuð getur það leitt til alvarlegri veikinda sem geta einnig haft áhrif á ófædda barnið. Það er margt óljóst þegar rætt er um áhættu lyfjameðferðar og veikinda. Við ákvörðun um lyfjameðferð þarf að meta hversu mikil áhætta fylgir lyfjameðferðinni og hversu líklegt það er að veikindin versni séu lyf ekki notuð.

Hvíld, nægur svefn, góð næring og regluleg hreyfing bætir líðan og getur komið i veg fyrir langvarandi vanlíðan.

  • Þínar persónulegu þarfir eru mikilvægar og það þarf að taka tillit til þeirra í meðferðinni.
  • Þú hefur rétt á að fá góðar upplýsingar og taka þátt í að ákveða meðferð og meðferðaráætlun.
  • Gagnkvæm virðing þarf að vera milli þín og meðferðaraðila.
  • Upplýsingar ættu að fela í sér hvers er að vænta af meðferðinni; mögulegan árangur og áhættuþætti fyrir þig og barnið þitt.
  • Þú átt að fá tækifæri til að spyrja spurninga og geta skipt um skoðun eftir því sem líðan þín breytist eða aðstæður.
  • Þínar óskir eru alltaf mikilvægar og meðferðaraðilinn ætti að virða þær.
  • Ef þú ert ósammála meðferðinni áttu að láta vita.

Stundum getur komið upp sú staða að þeir sem standa þér næst (fjölskylda, vinir eða meðferðaraðili) eru ekki sammála þér varðandi meðferð og telja annan kost/aðra leið betri fyrir þig og barnið þitt.

Þú gætir viljað spyrja meðferðaraðilann eftirfarandi spurninga:

  • Getur þú gefið mér nánari upplýsingar um andlega vanlíðan á meðgöngu og á fyrsta ári eftir fæðingu barns?
  • Hvaða meðferðarúrræði eru í boði?
  • Getur þú gefið mér upplýsingar um ávinning og mögulega áhættu lyfjameðferðar, fyrir mig og barnið?
  • Getur þú gefið mér upplýsingar um ávinning og mögulega áhættu þess að þiggja ekki lyfjameðferð, fyrir mig og barnið?
  • Eru til stuðningshópar sem gætu hjálpað mér?
  • Eru til skriflegar upplýsingar sem geta hjálpað mér og mínum nánustu?

Ofbeldi gagnvart konum getur aukist eða hafist þegar þær eru ófrískar, það getur haft áhrif á meðgöngukvilla og því ráðlagt að leita sér aðstoðar. 

Breyting á daglegu lífsmynstri

Meðgangan er ný lífsreynsla og ýmsar spurningar og vangaveltur geta komið upp:

  • Þarf að breyta einhverju í mataræði?
  • Er í lagi að borða hvað sem er?
  • Hverju á að klæðast með breyttu vaxtarlagi?
  • Er óhætt að halda áfram að hjóla eða skokka?
  • Er í lagi að ferðast og þá hvert sem er?
  • Hvað með áfengi á meðgöngu?
  • Hvað með reykingar á meðgöngu?
  • Þarf að breyta einhverju í vinnunni til þess að öryggi verðandi móður sé tryggt?
  • Er verðandi móðir í líkamlegri áhættu á vinnustað? (T.d. lögreglustörf, vinna með hættuleg efni, vinna í miklum reyk).
  • Þarf að lagfæra núverandi húsnæði?

Almennt er ekki ástæða til að breyta lífsháttum sínum til muna. Þó er rétt að huga að heilbrigðu líferni og skoða hvort þurfi að gera einhverjar breytingar á og taka upp hollari lífshætti.

Mikil þreyta getur dregið úr félagslegri virkni og haft mikil áhrif á daglegt líf og störf. Konan finnur að hún þarf að fara fyrr að sofa en hún er vön og hefur ekki úthald eins og áður.

Breyting á vinnuframlagi getur verið nauðsyn ef um veikindi eða alvarlega fylgikvilla er að ræða. Konan getur þurft að draga úr eða hætta vinnu þegar líður á meðgönguna, að minnsta kosti tímabundið, vegna þess álags sem meðganga er. Að hætta að vinna, hvort sem er til lengri eða styttri tíma, getur verið stórt skref að taka um leið og það getur verið léttir. Það kallar á breytingu á daglegum venjum og félagslegum samskiptum.

Gott er að kynna sér réttindi í veikindum í barneignarferli.

Aðlögun að foreldrahlutverkinu

Meðgangan er undirbúningstími fyrir foreldrahlutverkið. Á meðgöngu, meðan barnið er að vaxa og þroskast, eru verðandi foreldrar jafnframt að vaxa inn í hið nýja/breytta foreldrahlutverk. 
Verðandi foreldrar sjá oft sjálfan sig og hvort annað í nýju ljósi. Sú hugmynd að makinn er að verða foreldri getur verið eitthvað sem þarf að venjast. 
Það er algengt að fólk fari að velta fyrir sér ýmsum hliðum foreldrahlutverksins. Hvernig foreldri verð ég? Hvernig foreldri vil ég verða?

Margir verðandi foreldrar hafa áhuga á því að fræðast um fæðinguna, brjóstagjöfina, umönnun, uppeldi og slysavarnir barna. Heilsugæslan býður upp á námskeið um undirbúning fæðingar, fræðslu um brjóstagjöf og námskeið um uppeldi barna. 

Hér á síðunni getur þú lesið þér til um uppeldi barna.