Slysavarnir á meðgöngu

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Fall

Fall eða hrösun er orsök 60% slysa á meðgöngu. Ófædda barnið verður sjaldnast fyrir skaða, en mikilvægt er þó fyrir barnshafandi konur að fara varlega.

Nokkur ráð til að forðast fall:

 • Forðist allt óþarfa klifur t.d. upp á húsgögn og í lausa stiga.
 • Kannið slysagildrur á heimilinu sem hægt er að falla um. Þetta geta verið lausir hlutir í gangvegi, mottur, rafmagnssnúrur og lausir munir í stigum.  
 • Haldið í handriðið þegar gengið er í stigum.
 • Hafið næturljós á gönguleiðinni vegna tíðari klósettferða að nóttu til.
 • Veljið þægilega og stöðuga skó með stömum sólum.

Öryggisbúnaður í bíl

Getur öryggisbelti skaðað ófætt barn í árekstri?

Ef beltið situr rétt á líkama konunnar er ekki hætta á því. Við rétt spennt bílbelti er konan og ófædda barnið 70% öruggara lendi þau í árekstri.

Nokkur ráð til að auka öryggi í bíl:

 • Spennið beltið rétt:
  1. Efra beltið kemur yfir öxlina og fer niður á milli brjóstanna.
  2. Neðra beltið er haft undir (kúlunni) og á það að hvíla yfir lærum eða eins neðarlega og hægt er á mjaðmakambi. Það er síðan spennt og þess gætt að það hvíli örugglega þétt að líkamanum.
 • Forðist þykkan fatnað sem kemur í veg fyrir að beltið haldist á réttum stað.
 • Færið sætið aftur bæði í farþegasæti og ökumannssæti en gætið þess að ná vel í fótabúnaðinn í ökumannssætinu.
 • Veljið farþegasætið þegar kostur er, sérstaklega þegar langt er liðið á meðgönguna.
 • Öryggispúðar eru í lagi, öryggispúðar ásamt réttri notkun á bílbelti veitir bestu vörnina.
 • Meðgöngubílbelti, eða beltahaldari, er búnaður sem hægt er að nota til að halda bílbeltinu á réttum stað á líkamanum. Meðgöngubílbelti er ekki öryggisbúnaður heldur einungis notaður til þæginda fyrir konuna.
Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.