Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Bjúgur á fótum

Kaflar
Útgáfudagur

Bjúgur (e. edema) myndast þegar vökvasöfnun verður í vefjum líkamans. Orsakir vökvasöfnunar geta verið ýmsar t.d. mataræði, kyrrseta eða fylgikvillar sjúkdóma. Oftast myndast bjúgur á rist eða ökkla en hann getur einnig komið fram í öðrum líkamshlutum eins og á kvið, höndum og í andliti. Bjúgur getur takmarkað hreyfingar í útlimum og valdið óþægindum. Ef bjúgur er viðvarandi er ráðlagt að leita læknis.

Einkenni

  • Bólginn ökkli eða fótleggur
  • Húð yfir bólgu er glansandi, teygð og mögulega rauðleit
  • Dæld myndast á húð fóta og situr eftir þegar fingri er þrýst á bólgið svæði
  • Far myndast á húð fóta eftir tímabundinn þrýsting t.d. eftir stroff á sokkum
  • Verkir í fótum
  • Þreyta í fótum
  • Kláði yfir bólgustað

Orsakir

Blóð flyst frá fótleggjum upp til hjartans með bláæðum. Í æðunum eru lokur sem koma í veg fyrir að blóðið renni til baka. Ef þessar lokur leka getur vökvi safnist upp í fótleggjum og myndað bjúg.

Þekktar orsakir fyrir bjúgsöfnun:

Bjúgur getur einnig verið aukaverkun ákveðinna lyfja og þá er bjúgur einnig þekktur fylgikvilli ákveðinna sjúkdóma.

Greining

Meta þarf útskilnað á þvagi og inntekt á vökva. Á þann hátt má meta vökvajafnvægi líkamans og ákveða hvort meðferðar sé þörf. Læknir þarf að greina orsakir vökvasöfnunar og ræðst meðferðin af þeirri niðurstöðu. Stundum eru notuð lyf til að hjálpa umfram vökva og salti að skiljast út úr líkamanum. 

Meðferð

Hversu alvarleg vökvasöfnunin er og hverjar orsakir hennar eru hefur áhrif á hvaða meðferð er beitt.

Algengar meðferðir eru:

  • Þrýstingsmeðferð með teygjubindum
  • Breytingar á mataræði: draga úr saltneyslu og fylgja fyrirmælum um vökvainntekt
  • Breytingar á hreyfingu: göngu- og fótaæfingar
  • Lyfjameðferð: þvagræsilyf
  • Vökvaskráning: mæla og skrá inntekt á vökva og útskilnað á þvagi

Hvað get ég gert?

Það er ýmislegt hægt að gera til að koma í veg fyrir vökvasöfnun til dæmis: 

  • Reglulegar gönguferðir til að auka blóðflæði í fótum
  • Fótaæfingar þegar setið er, kreppa tær og teygja úr sér við hvert tækifæri
  • Hafa hátt undir fótum í hvíld, nota skemil eða kodda undir fætur
  • Forðast kyrrstöðu með hangandi fætur
  • Forðast heit böð
  • Forðast langar stöður því þá hækkar þrýstingur er veldur bjúg í fótleggjum
  • Nota stuðningssokka á daginn
  • Nota stuðningssokka (flugsokka) í lengri bíl- og flugferðum: standa reglulega upp og ganga um
  • Huga að mataræði og forðast salt

Ráðlagt er að hafa samband við heilsugæsluna ef:

  • Bjúgur lagast ekki við það hækka undir fótum, ganga um eða minnka setu
  • Bjúgur eykst á fótum
  • Bjúgur er á öðrum fæti með verk sem ekki tengist áverka
  • Skyndilegur hiti eða roði myndast á fótlegg

Bjúgur er ekki eðlilegt ástand til lengri tíma svo ef áhyggjur vakna er ráðlagt að leita til heilsugæslunnar.

Í neyðartilfellum

Skyndilegur og mikill bjúgur á fótum getur verið merki um sjúkdómsástand sem krefst sérhæfðrar meðferðar heilbrigðisstarfsfólks. Ef viðkomandi finnur fyrir öndunar-örðugleikum eða finnur fyrir verkjum yfir brjósti, upplifir þrýsting eða þyngsli yfir brjóstkassa skal leita til bráðamóttöku eða hringja í 112.

Hér finnur þú næstu heilsugæslustöð og bráðamóttöku.