Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Skordýrabit og -stungur

Kaflar
Útgáfudagur

Bit og stungur skordýra valda litlum sárum á húð. Oftast eru bitin meinlaus en þau geta valdið óþægindum og kláða. Einstöku sinnum geta skordýrabit og -stungur valdið sýkingu í húð, alvarlegum ofnæmisviðbrögðum og smitsjúkdómum.

Skordýr sem bíta og stinga eru meðal annars geitungar, býflugur, mý, lúsmý, flær og skógarmítill.

Leiðir til að minnka líkur á skordýrabitum og -stungum.

Einkenni

Skordýrabit valda oftast rauðum bólgnum hnúðum á húðinni, kláða og óþægindum. Þetta jafnar sig oftast á nokkrum klukkustundum eða dögum en varir stundum lengur.

Sumir fá væg ofnæmisviðbrögð og þá verður stærra svæði á húðinni í kringum bitið bólgið og aumt. Þau einkenni hverfa oftast á einni viku.

Erfitt getur verið að átta sig á því hvort um bit eða stungu er að ræða en í flestum tilfellum er meðhöndlunin sú sama. Í langflestum tilfellum getur fólk sjálft meðhöndlað einkennin og ekki þörf á að leita læknisaðstoðar.

Í einstaka tilvikum geta ofnæmisviðbrögðin verið alvarlegri og jafnvel lífshættuleg.

Hvað get ég gert?

 • Fjarlægðu mítilinn eða stungubroddinn ef hann er sjáanlegur í húðinni eins fljótt og hægt er til þess að hindra frekari losun eiturs frá broddinum og draga úr hættu á sýkingu. Kynntu þér réttu handtökin við að fjarlægja mítil og stungubrodd
 • Hreinsaðu bitið með sápu og vatni
 • Kældu bólgið svæði í um 10 mínútur
 • Hafðu hærra undir höndum og fótum ef bit eru þar, ef mögulegt er, þar sem það getur dregið úr bólgumyndun
 • Ekki klóra í húðina þar sem það getur aukið líkur á sýkingum. Stutt kæling dregur úr kláða
 • Kælikrem má fá í lyfjaverslunum án lyfseðils
 • Í lagi er að prófa verkjalyf sem fást án lyfseðils í apótekum ef verkir eru til staðar
 • Mild sterakrem draga úr kláða og óþægindum. Þau fást án lyfseðils í apótekum
 • Þeir sem gjarnan fá ofnæmisviðbrögð vegna bita geta tekið ofnæmislyf sem fást án lyfseðils í apótekum til þess að minnka ofnæmisviðbrögð

Hvenær skal leita aðstoðar?

Skordýra bit geta verið þess eðlis að það þurfi aðstoð frá heilbrigðisstarfsmanni.

Ef eftirfarandi er til staðar skaltu leita til heilsugæslunnar sem fyrst:

 • Einkenni lagast ekki á nokkrum dögum eða versna
 • Bit eða stunga er í munni, hálsi eða nálægt augum
 • Einkenni húðsýkingar svo sem roði, hiti, aukin sársauki og gröftur eru til staðar
 • Þú færð hita, flensulík einkenni og bólgna eitla

Leitaðu strax á bráðamóttöku eða hringdu strax í 112 og óskaðu eftir sjúkrabíl ef eftirfarandi einkenni gera vart við sig:

 • Öndunarerfiðleikar
 • Bólga í hálsi, andliti eða munni
 • Ógleði eða uppköst
 • Hraður hjartsláttur
 • Svimi og yfirliðstilfinning
 • Erfiðleikar við að kyngja
 • Meðvitundarskerðing og meðvitundarleysi

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.

Helstu bit og stungur

Býflugna stunga

Stunga frá býflugu getur valdið roða, verk, bólgu og kláða.

Oft verður stungubroddurinn eftir þegar býflugur stinga og verður þá að fjarlægja hann eins fljótt og hægt er. 

Stundum getur stærra svæði orðið rautt, sárt og bólgið og geta einkenni verið til staðar í allt að viku. Þetta er minniháttar ofnæmisviðbrögð sem yfirleitt þarf ekki að hafa áhyggjur af.

Lítill hluti fólks getur myndað bráðaofnæmi sem er lífshættulegt ástand og veldur öndunarerfiðleikum, svima og bólgu í andliti og munni. Hringdu strax í 112 ef þú
upplifir slík einkenni.

Húð með áverka eftir býflugnastungu

Flóabit

Flóabit getur valdið litlum rauðum hnúðum á húðinni og kláða. Stundum eru hnúðarnir í línum eða klösum. Flær á köttum og hundum bíta oftast fyrir neðan hné, oftast í
kringum ökkla. Einnig er algengt að fá bit á framhandleggi ef þú hefur verið að klappa dýri.

Húð með flóabiti

Geitunga stunga

Stunga frá geitungum og vespum veldur oftast strax sviða og óþægindum. Síðar getur myndast bólga og roði á húðinni.

Bólgan og roðinn geta varað í nokkrar klukkustundir og valdið miklum óþægindum, verk og kláða.

Stundum getur stærra svæði orðið rautt, sárt og bólgið og geta einkenni verið til staðar í allt að viku. Þetta er minniháttar ofnæmisviðbrögð sem yfirleitt þarf ekki að hafa áhyggjur af.

Lítill hluti fólks getur myndað bráðaofnæmi sem er lífshættulegt ástand og veldur erfiðleikum við öndun, svima og bólgu í andliti og munni. Hringdu strax í 112 ef þú upplifir slík einkenni.

Fingur eftir geitungastungu

 

Mýbit

Mýbit valda venjulega litlum upphleyptum rauðum hnúðum sem oft eru margir saman og valda oft miklum kláða. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir bitunum mynda stundum vökvafylltar blöðrur og ofnæmisviðbrögð geta valdið bólgum og þrota. 

Húð eftir mýbit

Lúsmý

Lúsmý (e. biting midges) eru agnarsmáar mýflugur sem sjást illa með berum augum. Það leitar á fólk frá byrjun júnímánaðar og fram undir lok ágúst.

Lúsmýið skynjar koltvísýring sem berst með útöndun fólks og þannig finnur það fórnarlömb sín. Lúsmý bítur fólk bæði utandyra og innandyra og þá oftast að næturlagi. Lúsmý ræðst oftast á útlimi fólks sem standa út undan sænginni og því fá flestir bit á andlit, háls eða hendur.
Þegar lúsmý hefur fengið sinn skammt af blóðvessa yfirgefur það svæðið en fólk situr uppi með útbrot, bólur og óþægindi á stungustað.

Ráð til að draga úr líkum á skordýrabiti.