Svimi (e. dizziness) getur komið af mörgum ástæðum. Svimi lýsir sér stundum eins að umhverfið snúist, það sé erfitt að halda jafnvægi eða yfirliðstilfinning. Oftast gengur þetta ástand hratt yfir og er sjaldnast hættulegt, en getur verið óþægilegt.
Orsakir
Svimi getur verið af fjölþættum ástæðum. Dæmi um orsakir:
Aukaverkun af lyfjum. Ef þú ert á lyfjum ættir þú að ganga úr skugga um hvort svimi geti mögulega verið aukaverkun af lyfinu. Á sérlyfjaskrá má finna fylgiseðla lyfja og lesa sér til um aukaverkanir.
Steinaflakk í eyra veldur svima sem lýsir sér eins og umhverfið hringsnúist og erfitt getur verið að halda jafnvægi.
Eyrnabólga getur valdið svima, sér í lagi ef að hljóðhimna hefur sprungið. Vökvasöfnun í eyra getur einnig valdið svima.
Hjarta- og æðasjúkdómar. Algengur fylgikvilli þeirra er svimi.
Lágur blóðsykur veldur svima. Blóðsykur lækkar til dæmis hafi fólk ekki borðað í einhvern tíma.
Mígreni hrjáir bæði börn og fullorðna. Talið er að um 5 af hverjum 100 séu með sjúkdóminn. Mígreni kemur í köstum og oft fylgir ljósfælni og ógleði. Verkurinn er gjarnan í enninu eða öðrum helmingi höfuðsins. Köstin standa oftast í 1 til 6 klukkutíma en geta staðið í allt að þrjá sólarhringa.
Vökvaskortur veldur svima. Líkaminn þarf vökva til að geta starfað eðlilega.
Hvað get ég gert?
Yfirleitt nær líkaminn að laga svima en hætta er á yfirliði ef fólk bregst ekki við. Gott er að:
- Beygja höfuð niður setjast eða leggjast niður ef svimi er mikill
- Rólegar hreyfingar, standa varlega upp
- Hvílast
- Drekka vökva
- Forðast kaffi og áfengi
Hvenær skal leita aðstoðar?
- Áhyggjur af svima
- Heyrnarskerðing fylgir í kjölfarið
- Máttminnkun er í andliti eða limum
- Mikill höfuðverkur kemur í kjölfarið
- Sjónskerðing fylgir í kjölfarið
- Svimi fer ekki eða er endurtekinn
- Höfuðáverki er orsök svima