Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Drögum úr líkum á skordýrabiti

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Stungur og bit skordýra geta verið óskemmtileg og valdið óþægindum og í sumum tilvikum alvarlegum sjúkdómum. Því er gott að þekkja helstu leiðir til að koma í veg fyrir að verða bitinn eða stunginn. 

Leiðbeiningar um meðferð skordýrabita.

Fá skordýr á Íslandi bera með sér hættulega sjúkdóma. Skógarmítill finnst hér á landi á hverju sumri og berst hingað með farfuglunum. Þó tiltölulega lítill hluti stofnsins beri með sér smit er vissara að hafa varann á því skógarmítillinn getur borið með sér Lyme sjúkdóminn sem er alvarlegur sjúkdómur.

Erlendis er hins vegar meiri hætta á að smitast af alvarlegum sjúkdómum með skordýrabiti. Undirbúðu því ferðina vel ef ferðast er til framandi staða.

Aðferðir til að minnka líkur á skordýrabiti

Skordýr eru mörg og bíta við ólíkar aðstæður. Mikilvægt er að kynna sér vel hvaða dýr eru líklegust til að bíta þar sem þú ert. Oft þarf að beita mismunandi aðferðum við ólíkar tegundir. Þau skordýr sem við þekkjum best hér á landi bíta úti, nema lúsmýið, það bítur inni og helst á nóttunni. Það þarf því að koma í veg fyrir að það komist inn og verja sig að nóttu til. Hér eru nokkur ráð sem gagnast í baráttunni gegn skordýrabitum.

 • Haltu ró þinni í nálægð við geitunga og býflugur. Færðu þig rólega frá þeim og forðastu að slá eða sveifla höndum í átt til þeirra.
 • Hyldu bera húð með löngum ermum og síðbuxum.
 • Vertu í skóm utandyra og háum sokkum ef hætta er á skógarmítli.
 • Sum skordýr bíta í gegnum þunn föt þar sem þau liggja þétt að líkamanum. Gott er að spreyja skordýrafælu á fötin í þannig tilvikum.
 • Forðastu að nota ilmsterkar vörur eins og svitalyktareyði og sápur með sterkri lykt sem geta laðað til sín skordýr.
 • Fylgstu með ferðum geitunga. Ef þú hefur grun um að geitungabú geti leynst í nágrenninu gættu þá sérstakrar varúðar. Bú í görðum og húsum ætti að fjarlægja, sér í lagi þar sem börn leika. Best er að fá kunnáttufólk í það verk.
 • Farðu varlega í kringum blóm og runna í blóma, rusl, polla, rotmassa og útisvæði þar sem matar er neytt þar sem skordýr sækja gjarnan þangað.
 • Geymdu mat og drykk í lokuðum ílátum utandyra. Geitungar og býflugur geta farið ofan í opnar dósir og flöskur.
 • Lokaðu gluggum eða notaðu flugnanet ef þú vilt varna því að skordýr komist inn.
 • Þéttriðið flugnanet í glugga getur komið sér vel í baráttunni gegn lúsmýi. Það leitar inn að nóttu til og bítur inni. Netið þarf að vera með að lágmarki 600 holur á fertommu (25 x 25mm).
 • Til að verjast lúsmýi er gott að vera í náttfötum og sokkum. Sokkarnir eru þá settir yfir buxnaskálmarnar og skyrtan ofna í buxnastrenginn. Best er ef ermarnar eru þröngar og liggja þétt að húðinni. 
 • Lúsmýið er mjög lítil fluga sem getur ekki flogið í vindi því getur vifta í svefnherberginu varið fólk fyrir bitum.
 • Skordýravörn sem sett er á húð og föt getur hjálpað. Gott er að leita ráða hjá lyfjafræðingi eða starfsfólki í apótekum.

Viðbrögð við skordýrabiti

Gagnlegt er að kynna sér vel viðbrögð við skordýrabiti áður en lagt er upp í ferðir. Gott er að hafa með sér lyf og krem sem nota má við bitum. 

Ef broddur verður eftir í stungusárinu eða skógarmítill hefur komið sér fyrir í húðinni er mikilvægt að þekkja réttu leiðirnar til að ná broddinum eða mítlinum úr húðinni. Þetta er sýnt vel á myndböndunum.

Skógarmítill fjarlægður
Stungubroddur fjarlægður