Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Skógarmítill

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Skógarmítill (Tick) er liðfætla sem er algeng í löndunum í kringum okkur og berst hingað til lands í miklum mæli með farfuglunum á vorin. Skógarmítillinn nærist á blóði og sogar sig fastan í húð manna og dýra. Hann getur borið með sér bakteríur og veirur sem valda alvarlegum lífshættulegum sjúkdómum eins og lyme sjúkdómnum og mítilborna heilahimnubólgu. Almennt er talið að ekki sé hætta á sýkingu fyrr en eftir að mítillinn hefur dvalið í sólarhring í húðinni. Því er mikilvægt að vera á varðbergi og fjarlægja skógarmítilinn um leið og hans verður vart. Hafðu eftirfarandi í huga þegar þú ferðast um landsvæði þar sem skógarmítils er að vænta.

  • Kynntu þér hvort skógarmítil sé að finna á því svæði sem dvalist er á.
  • Kynna sér hvernig skógarmítill lítur út. Skoðaðu myndbandið hér að neðan.
  • Reynist skógarmítlar á svæðinu er rétt að vera útbúinn oddmjórri töng. Til eru sérstakar tangir til að taka skógarmítil úr húð en einnig má nota hvaða oddmjóa töng sem er.  Ekki er ráðlegt að taka hann með berum höndum.
  • Best er að klæðast fötum sem hylja líkamann vel, s.s. síðbuxum og langerma bol eða skyrtu, einkum ef farið er um skóg eða kjarrlendi. Nota ljós föt svo að mítlarnir sjáist betur.
  • Nota mýflugnafælandi áburð.
  • Gott er að venja sig á að skima eftir mítlum tvisvar á dag.
  • Þegar komið er af varasömu svæði þarf að skoða líkamann vel til að kanna hvort mítill hafi bitið sig fast í húðina. Athugaðu sérstaklega hársvörðinn.
  • Hafi mítill sogið sig fastan til að nærast á blóði er rétt að fara að öllu með gát þegar hann er fjarlægður. Það er best gert með því að klemma tangarodda um munnhluta mítilsins alveg upp við húðina og lyfta honum beint upp frá húðinni eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan. Forðast skal að snúa honum í sárinu. Þetta kemur í veg fyrir að innihald úr mítlinum geti spýst í sárið eða að hluti hans verði eftir.

Hafi skógarmítill bitið sig fastan við húðina er mikilvægt að fylgjast með einkennum lyme sjúkdómsins og fá viðeigandi meðferð ef vart verður einkenna. Fylgist með einkennum í 14 daga eftir bit.

Skógarmítlar á Norðurlöndum og í Sunnanverðri Evrópu geta borið með sér veiruna sem veldur blóðmauraheilabólgu. Hægt er að bólusetja gegn þeirri veiru. Ef dvalið er úti í náttúrinni í þessum löndum er ráð að kynna sér bólusetningu gegn þessum alvarlega sjúkdómi. 

Hafðu í huga að aðeins lítill hluti skógarmítla ber með sér sjúkdóma og mítillinn þarf að vera í 18 til 24 tíma í húðinni til að valda smiti.

Á netspjallinu hér á síðunni er hægt að sækja um ráðgjöf vegna ferðalaga. Ráðgjöfin byggir á fyrri bólusetningum viðkomandi ásamt upplýsingum um ferðalagið.