Tognun á ökkla verður oftast þegar fólk misstígur sig eða mikill snúningur kemur á liðinn. Við ökklann liggja liðbönd og er hlutverk þeirra að halda liðnum stöðugum. Við tognun teygist þannig á liðböndunum að þau lengjast en lengingin gengur stundum til baka á lengri eða skemmri tíma. Þessi áverki getur valdið verk og bólgu, ökklinn getur verið óstöðugur og erfitt getur verið að setja fulla þyngd á fótinn.
Einkenni
- Eymsli
- Verkur
- Bólga og mar við ökklann
- Sumum finnst erfitt að hreyfa ökklann eða setja fullan þunga á fótinn
Greining
Yfirleitt dugar lýsing á óhappinu og skoðun hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi til að greina hvort um ökklatognun sé að ræða. Framkvæmd er röntgenrannsókn ef taldar eru líkur á beináverka.
Hvað get ég gert?
Fyrsta sólarhringinn eftir tognun er mikilvægt að takmarka frekari skaða.
Kæling
Fyrst eftir áverka og allt upp í einn sólarhring er gott að kæla áverkasvæðið á 1-2 tíma fresti í 15 mínútur í senn. Hægt er að nota kælipoka eða poka með frosnum matvælum. Hafið ávallt eitthvað á milli kælipokans og húðarinnar, til dæmis viskustykki eða tusku.
Lyfting
Með því að hækka undir fæti dregur það úr bólgu á áverkasvæði. Ef legið er út af er gott að setja púða eða teppi undir fótinn, en setja fótinn upp á stól ef setið er.
Hvíld
Mikilvægt er að hvíla ökklann til að draga úr álagi á áverkasvæðinu.
Þrýstingsumbúðir
Umbúðir geta dregið úr bólgumyndun og stutt við ökklann. Algengustu umbúðir eru teygjusokkur eða teygjubindi og eiga að vera frá tám og upp á miðjan kálfa. Umbúðir eru yfirleitt hafðar í 3-7 daga meðan mesta bólgan er að hjaðna. Taka á teygjusokk af ökkla áður en farið er að sofa.
Eftirfylgd
Eftir um tvær vikur geta flestir gengið eðlilega, en liðböndin gróa á 5-6 vikum. Verkir geta þó varað í nokkrar vikur eftir áverka, en fara minnkandi.
- Hlífðu ökklanum við miklu álagi, svo sem íþróttaiðkun á þessu tímabili.
- Styrktaræfingar að sársaukamörkum draga úr líkum á endurtekinni tognun.
- Við íþróttaiðkun er æskilegt að nota ökklasokk eða teip í allt að 12 vikur eftir áverkann.
Við verkjum er hægt að taka væg verkjalyf s.s. parasetamól eða íbúprófen.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leitaðu til næstu heilsugæslu: Ef þú átt erfitt með að stíga í fótinn eða ökklinn gefur eftir þegar gengið er.
Leitaðu strax til næstu bráðamóttöku: Ef fótleggurinn er afmyndaður eða skakkur.