Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Verkir

Kaflar
Útgáfudagur

Segja má að verkir séu viðvörun þegar upp kemur ógn um raunverulega eða hugsanlega vefjaskemmd.

Gott dæmi um þetta er þegar við snertum heitan flöt með hendinni. Húðin skynjar það sem hættu á bruna og sendir skilaboð til heilans, sem aftur sendir skilaboð til handarinnar um að kippa henni burt frá hitanum. Þetta viðvörunarkerfi líkamans kemur í veg fyrir alvarlegar vefjaskemmdir.

Verkir hafa því þann mikilvæga tilgang að vernda okkur. Án þeirra værum við illa stödd. Sumir verkir eru þess eðlis að hafa ekki þennan verndandi tilgang. Þá tölum við um langvinna verki.

Nánari umfjöllun um bakverk, brjóstverk, höfuðverk og langvinna verki.

Hvað get ég gert?

Mat á verkjum - þegar orsök er óþekkt

Nokkur atriði sem geta verið hjálpleg til að meta alvarleika verkja:

 • Reyndu að átta þig á staðsetningu verkjarins. Er verkurinn dreifður eða staðbundinn?
 • Reyndu að átta þig á styrk verkjarins. Stundum eru verkir metnir á skalanum 0 til 10, þar sem 0 er enginn verkur en 10 er mesti mögulegi verkur.
 • Hvenær kom verkurinn fram og hversu lengi hefur hann verið til staðar?
 • Er verkurinn versnandi eða dvínandi?
 • Hvað gerir verkinn betri?
 • Hvað gerir verkinn verri?
 • Fylgja verknum önnur einkenni eins og hiti, ógleði, mæði, svimi?

Þú getur alltaf haft samband símleiðis við hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöð eða í síma 1700 fyrir utan opnunartíma og fengið aðstoð við mat á verkjum og ráðleggingar varðandi viðbrögð við þeim. Þú getur einnig fengið ráðleggingar á netspjallinu hér á síðunni.

Ráð heima

Ef þú þekkir orsök verkja og veist að ekki er þörf á læknisfræðilegum inngripum getur þú nýtt þér ýmis hagnýt ráð til verkjastillingar.

Hér eru dæmi um ráð sem þú getur nýtt þér heima:

 • Verkjalyf
  Óhætt er að nýta þau verkjalyf sem fást án lyfseðils í apóteki. Það er alltaf mikilvægt að þú kynnir þér vel upplýsingar á fylgiseðli lyfsins. Á fylgiseðli má t.d. finna ráðleggingar varðandi skammtastærð og aðvaranir í tengslum við lyfjanotkun. Notkun á verkjalyfjum getur verið áhættusöm fyrir einstaklinga með ákveðna langvinna sjúkdóma.
 • Kæling
  Kæling getur minnkað verki og stillt kláða. Hlutverk kælingar er að hægja á bólgumyndun og flýta á þann hátt fyrir bata. Kæling getur því virkað vel þegar um er að ræða bólgu í vöðvum eða sinum t.d. við tognun. Þegar bruni verður á húð er kæling mjög mikilvæg til að stöðva bruna og hægja á bólgum.
  Láttu vatn við stofuhita (um það bil 20°C) renna á áverkasvæðið. Þú getur einnig notað kælipoka eða kalda bakstra. Kæling er ráð sem nýta skal strax við áverka. Gott er að kæla áverkasvæðið af og til fyrsta sólarhringinn. Gæta þarf þess af ofkæla ekki og á það sérstaklega við um börn og eldra fólk.
 • Heitir bakstrar/hitapokar
  Þegar vöðvar eru stífir og bólgnir eru heitir bakstrar eða hitapokar ágætt ráð til verkjastillingar. Heitir bakstrar og hitapokar hafa það hlutverk að örva blóðflæðið um vöðvasvæðið sem hefur góð áhrif á stífleika og bólgu. Gættu þess að hafa hitann ekki of mikinn og notaðu heitan bakstur eða hitapoka eingöngu stutta stund í einu.
  Aldrei ætti að sofa með heitan bakstur eða hitapoka.
 • Hvíld og hreyfing
  Þegar skemmd hefur orðið á líkamsvef er gott að taka því rólega fyrst um sinn. Hreyfing er þó jafn mikilvæg og hvíldin í þessu samhengi. Með hreyfingu örvum við blóðflæði um allan líkamann. Með auknu blóðflæði eykst flutningur á alls kyns efnum til og frá skemmda vefnum sem verður til þess að hann grær. Hreyfing er því góð leið til að stilla verki og ná bata. Gott er að auka hreyfingu smám saman og auka virkni jafnt og þétt. Hér á skynsemin að ráða för. Finndu gott jafnvægi milli hvíldar og hreyfingar.
 • Að dreifa athyglinni
  Um leið og þú leiðir hugann að einhverju öðru en verkjunum hefur þú jákvæð áhrif á ýmis boðefni líkamans og líðan þín og upplifun verður mun betri. Allt sem fær þig til að hugsa á jákvæðan hátt og jafnvel hlæja, mun hjálpa þér að líða betur. Þú getur til dæmis hlustað á hressandi tónlist, lesið góða bók, haft skapandi viðfangsefni eða horft á fyndna kvikmynd.
 • Nudda svæðið

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu sem fyrst til heilsugæslunnar ef:

 • Þú þekkir ekki ástæðu verkjarins og/eða hann er nýtilkominn.
 • Verkurinn er mikill.
 • Verkurinn er vaxandi.
 • Þú hefur áhyggjur af verknum.
 • Þú finnur fyrir verkjum og finnur á sama tíma fyrir öðrum einkennum eins og hita, ógleði, andþyngslum, svima eða öðrum einkennum.

Leitaðu strax á næstu bráðamóttöku ef:

 • Þú finnur fyrir miklum eða versnandi verkjum í brjóstkassa eða þú telur þig vera með brjóstverk.
 • Þú finnur fyrir miklum eða versnandi verkjum í kvið.
 • Þú finnur fyrir miklum eða versnandi höfuðverk.

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.​