Bakverkur getur komið fram vegna vandamála í vöðvum, liðböndum, brjóski, beinum eða taugum. En oftast kemur verkurinn fram vegna spennu eða tognunar á vöðvum eða liðböndum í neðri hluta baks. Sá bakverkur er sjaldnast alvarlegur og hverfur yfirleitt af sjálfu sér eftir nokkurn tíma.
Hvað get ég gert?
- Taka því rólega í 2-3 daga en ekki liggja í rúminu. Halda rólegri virkni eins og að ganga en forðast langar setur, forðast að lyfta hlutum og hoppa þar til bakverkurinn hefur lagast.
- Prófa stífari dýnu og nota kodda til stuðnings t.d. undir hné á nóttunni.
- Taka inn verkjalyf sem fást án lyfseðils í apótekum.
- Leggja hitapoka á svæðið í 20 mínútur á 2-4 tíma fresti en gæta þess að sofa ekki með hitapoka.
- Leitaðu til heilsugæslunnar ef bakverkurinn er ekkert farinn að lagast á 3-4 vikum.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Leitaðu til heilsugæslunnar á næsta sólarhring ef eftirfarandi einkenni eru samhliða bakverknum:
- Verkur leiðir niður í rass eða fótlegg
- Stöðugur og mikill verkur sem lagast ekki þrátt fyrir verkjalyf.
- Tíð þvaglát eða verkur við þvaglát.
- Ef þú ert með sykursýki, veikt ónæmiskerfi eða þarft að taka steralyf að staðaldri.
- Ef þú hefur fengið krabbamein og verið að léttast undanfarið.
- Verkurinn er verri um nætur eða þegar lagst er niður.
- Blöðrur, útbrot og sársauki eru á sama stað og verkurinn.
- Þrálátur doði eða náladofi í fótlegg eða fæti.
- Langvarandi missir á stjórn á hægðum eða þvagi.
- Hiti með ógleði/uppköstum hjá körlum.
Leitaðu strax á næstu bráðamóttöku ef eitthvað af eftirfarandi einkennum eru samhliða bakverknum:
- Aukið máttleysi í fótleggjum. Erfitt að hreyfa fótleggi, fætur eða tær.
- Skyndilegur doði eða náladofi í fótlegg, fæti, nára eða við endaþarm.
- Missir skyndilega stjórn á hægðum eða þvagi.
- Ekki getað pissað í meira en 8 tíma.
- Verkur og blóð við þvaglát.
- Köld og þvöl húð.
- Verkur leiðir út í háls, axlir, kjálka eða handleggi.
- Verkur leiðir út í nára eða kynfæri.
- Hiti með ógleði/uppköstum hjá konum.
Forvarnir
Besta ráðið til að fyrirbyggja bakverk er að styrkja bakvöðvana og kviðvöðvana. Hér má finna nokkrar góðar almennar styrktaræfingar sem geta hjálpað og auðvelt er að gera heima.
Ef þig vantar frekari aðstoð getur þú leitað til læknis eða hjúkrunarfræðings á heilsugæslunni þinni og óskað eftir því að hann skrifi upp á hreyfiseðil fyrir þig.