Nýrnasteinar (e. kidney stones) eru kristallar eða útfellingar sem myndast í nýrum vegna ójafnvægis á úrgangsefnum. Þvag á að renna hindrunarlaust frá nýrum og um þvagleiðara í þvagblöðru og þaðan um þvagrás út úr líkamanum. Þegar nýrnasteinar stækka geta þeir truflað flæði þvags. Nýrnasteinar geta orsakað mikla verki í baki og síðu en jafnvel valdið sýkingu og skemmdum á nýrum. Ráðlagt er að leita til læknis eða á bráðamóttöku þegar einkenna verður vart til að fá viðeigandi meðferð.
Einkenni
Verkir sem fylgja nýrnasteinum geta verið mjög sárir. Algeng einkenni eru:
- Sárir verkir í baki eða síðu oft með leiðni niður í nára
- Ógleði og uppköst
- Hiti og kuldahrollur
- Aukin þörf fyrir þvaglát og verkur samhliða þvaglátum
- Dökkt eða blóðlitað þvag
Orsakir
Aðalhlutverk nýrna er að sía úrgangsefni og umframvökva úr blóði og senda hreint blóð aftur út í líkamann. Umframvökvi og úrgangsefni verða að þvagi sem skilst út úr líkamanum um þvagrás. Í þvagi má hins vegar finna ýmis torleyst sölt sem stundum skiljast ekki út heldur verða eftir sem kristallar. Ákveðin lífræn efni eiga að koma i veg fyrir þessar útfellingar en skortur á þeim ýtir undir ójafnvægið og nýrnasteinar myndast. Þeir geta fests í nýrum eða þvagleiðurum og stíflað flæði þvags. Að drekka of lítið af vatni og neyta of próteinríkrar fæðu eru þekktir áhættuþættir þegar horft er til nýrnasteina.
Greining
Þegar grunur vaknar um nýrnasteina eru lýsingar viðkomandi á sjúkdómseinkennum það helsta sem notast er við til að greina ástandið. Þannig er reynt að staðsetja verki nákvæmlega en oft eru teknar röntgen- eða sneiðmyndir til að staðfesta nýrnasteina. Fá upplýsingar um nákvæma staðsetningu þeirra og stærð svo unnt sé að taka ákvörðun um bestu meðferð í hverju tilviki fyrir sig.
Meðferð
Staðsetning og tegund nýrnasteina ásamt sjúkdómseinkennum hafa áhrif á hvaða meðferð gripið er til. Þær helstu eru:
- Verkjastilling
- Nýrnasteinsbrjótur: Höggbylgjur sendar á stóra steina til að brjóta þá niður svo þeir geti skilist út með þvagi
- Speglun: Farið er með speglunartæki upp þvagrás, gegnum þvagblöðru og upp um þvagleiðara til að finna nýrnasteininn en þar er hann brotinn niður eða fjarlægður.
- Skurðaðgerð: Þegar nýrnasteinar eru mjög stórir og ekki hægt að notast við aðrar meðferðir
Hvað get ég gert?
Til að fyrirbyggja nýrnasteina er mikilvægt að drekka vel af vatni og neyta hollrar fæðu. Mælt er með að neyta próteina samkvæmt ráðlögðu mataræði.
Hvernig bregðast á við í neyðarástandi?
Þegar einkenna verður vart og grunur er um nýrnasteina er ráðlagt að leita læknis eða á bráðamóttöku. Nýrnasteinakast getur verið mjög sársaukafullt og mikilvægt að leita strax læknisaðstoðar.