Viltu breyta venjum þínum?

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Margir samverkandi lífsstílsþættir hafa áhrif á heilsuna. Þetta eru þættir eins og mataræði, hreyfing, svefn, streita, tóbak og áfengi. En þetta eru einnig þættir sem eru í nokkuð föstum skorðum hjá flestum. Því getur það verið mikið átak að ætla sér að breyta venjum sínum, sér í lagi ef það á að vera til frambúðar.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Hér getur þú tekið prófið, séð hver staðan er og hvernig þú getur bætt þig.

Hefur þú trú á að þú getir það?

Helsta forspárgildið fyrir því að vel muni takast hjá þér að breyta venjum þínum er hvort þú trúir að þú getir gert það. Veldu því vandlega þær breytingar sem þú hefur trú á að þér muni takast að fylgja eftir og byrjaðu á þeim.

Kortlegðu venjur þínar

Til að átta sig á eigin lífsstíl er gott að kortleggja venjur sínar.  Hér er dæmi:

Mataræði

  • Hvernig eru aðalmáltíðir dagsins, morgunmaturinn, hádegismaturinn og kvöldmaturinn?
    • Er grænmeti og/eða ávextir í þeim öllum?
    • Velur þú ferskar afurðir, s.s. fisk og kjöt, fram yfir unnin matvæli?
    • Hvað drekkur þú með matnum? Vatn, gosdrykkir eða annað?
    • Skipuleggur þú máltíðir fyrirfram eða grípur í eitthvað á síðustu stundu?
  • Hversu mikið borðar þú? Skammtastærðir? Hversu saddur/södd ertu eftir máltíðir?
  • Hvað borðar þú milli mála?  Grænmeti, ávexti, hnetur eða sætindi?
  • Hvar borðar þú? Við matarborð? Yfir sjónvarpi eða tölvu?
  • Velur þú hreinar mjólkurvörur?
  • Velur þú heilkornavörur?

Hreyfing

  • Á leið í vinnuna? Hversu virkur er ferðamátinn þinn? Getur þú gengið, hjólað eða lagt bílnum fjær vinnustaðnum?
  • Í vinnunni? Situr þú allan daginn? Krefur vinnan þig um líkamlega einhæfa hreyfingu? Gætir þú staðið upp eða komið hreyfingu inn í vinnutímann þinn?
  • Í frítíma?  Æfingar, göngutúrar, hversu oft?

Svefn

  • Ertu úthvíld/ur þegar þú vaknar?
  • Hvenær ferðu að sofa og hvað sefur þú lengi?
  • Hverjar eru venjurnar fyrir svefninn? bók, sjónvarp, sími, tölva?

Streita

  • Eru einhverjir streituvaldandi þættir í þínu lífi sem þú vilt breyta? T.d. í vinnu eða fjölskyldulífi?

Langhlaup

Að festa nýjar venjur í sessi tekur tíma. Byrjaðu smátt og settu inn nýjar venjur sem þú auðveldlega treystir þér til að halda. Bættu síðan við eftir því sem þú treystir þér til.

Það kemur fyrir alla að gleyma sér þegar verið er að taka upp nýjar venjur. Mestu máli skiptir að ná að taka aftur upp þráðinn og halda áfram þar sem frá var horfið. Horfa síðan fram á við en ekki til baka.

Núvitund til hjálpar

Núvitund snýst um að vera meðvitaður um líðandi stundu, meðvitaður um athafnir og hugsanir og áhrif þeirra á tilfinningar. Margir nýta sér núvitund til að hjálpa sér við að breyta venjum. Lifa lífinu meðvitað og í núinu. 

Hér getur þú lesið betur um Núvitund.

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.