Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Langvinnir verkir

Kaflar
Útgáfudagur

Langvinnir verkir eru verkir sem hafa verið til staðar í þrjá mánuði eða lengur og svara illa meðferð. Langvinnir verkir hafa ekki þann verndandi tilgang sem bráðir verkir hafa.

Helstu ástæður langvinnra verkja

Langvinnir verkir geta verið af ýmsum orsökum. Þeir geta verið fylgikvillar ýmissa sjúkdóma eða orsakast af skemmdum á líkamsvef. Orsök langvinnra verkja er oft sambland ólíkra þátta.

Vefjaverkir

Í sumum tilfellum stafa langvinnir verkir af vefjaskaða eða bólgum í vefjum líkamans eins og húð, beinum, liðamótum eða vöðvum. Slitgigt er dæmi um sjúkdóm sem valdið getur langvinnum vefjaverkjum.

Taugaverkir

Áverki eða sjúkdómur í taugakerfi líkamans getur framkallað taugaverk. Sykursýki, MS (multiple sclerosis) og heilablóðfall eru dæmi um sjúkdóma sem geta valdið langvinnum taugaverkjum.

Óþekkt orsök

Oftast er orsök langvinnra verkja þekkt. Í einstaka tilvikum finnst hvorki vefjaskemmd né taugaskemmd sem útskýrt getur langvinna verki. Í slíkum tilvikum getur verið um að ræða breytingar á líkamsstarfsemi sem ekki er unnt að greina með einföldum rannsóknum eins og myndgreiningum eða blóðrannsóknum.

Vefjagigt er dæmi um sjúkdóm þar sem orsök verkja er óljós.

Að lifa með langvinnum verkjum

Þegar skemmd hefur orðið á líkamsvefjum er ekki alltaf hægt að hafa áhrif á hana.

Markmið í meðferð langvinnra verkja er að:

 • Minnka verki eins og hægt er
 • Efla almenna heilsu
 • Hámarka lífsgæði
 • Sporna gegn neikvæðum afleiðingum langvinnra verkja

Besti árangur næst ef meðferð er margþætt og sniðin að þörfum hvers og eins.

Það skiptir miklu máli að þú fáir svigrúm og stuðning til að þekkja sjúkdóm þinn, lærir hagnýt bjargráð og upplifir þig hafa stjórn á verkjum þínum í stað þess að upplifa að verkirnir stjórni þér.

Þar sem orsök verkja er stundum óljós og samspil margra þátta getur tekið tíma að finna meðferðarúrræði sem henta. Það ætti að takast með seiglu og góðum stuðningi.

Hér er hægt að finna upplýsingar um réttindi við veikindi.

Meðferð

Meðferð við langvinnum verkjum byggist meðal annars á:

Daglegt líf hvers og eins hefur mikil áhrif á líðan og verkjaupplifun. Hægt er að bæta líðan og auka lífsgæði með mörgum aðferðum.

Á Reykjalundi er starfrækt verkjateymi sem sérhæfir sig í meðferð langvinnra verkja.

Hreyfing

Hreyfing eykur blóðflæði um allan líkamann. Með auknu blóðflæði eykst súrefnisflutningur og flutningur ýmissa góðra boðefna og hormóna um allan líkamann. Með hreyfingu minnkar stífni vöðva og verkir og eymsli minnka. Hreyfing hefur auk þess jákvæð áhrif á andlega líðan og er gott mótvægi við streitu. Með tímanum mun regluleg og hæfileg hreyfing auka orku þína og bæta svefninn.

Algengt er að einstaklingar með langvinna verki upplifi ótta í tengslum við að það að hreyfa sig. Margir óttast það að verkir versni við hreyfingu og sumir hræðast að hreyfing geti á einhvern hátt valdið skaða eða aukið vefjaskemmdir. Þetta er hins vegar ekki rétt því regluleg þjálfun getur dregið úr verkjum. Það er mikilvægt að þú gefir þér tíma til að læra inn á eigin líkama eða eigin mörk og finnir hreyfingu við þitt hæfi.

Þú getur fengið hreyfiseðil hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi á heilsugæslunni ef þú þarft aðstoð við að koma á góðum hreyfivenjum.

Streitustjórnun

Streita er órjúfanlegur hluti af lífinu. Þegar við upplifum streitu losna ýmis konar streituhormón út í blóðrásina. Þessi streituhormón geta haft slæm áhrif bæði á verki og líðan.

Það er þýðingarmikið að finna leiðir til að takast á við eða takmarka streitu í lífinu. Dæmi um leiðir til að takast á við streitu eru slökun, hugleiðsla, núvitund, hreyfing og raunhæf markmiðssetning. Sýnt hefur verið fram á að dvöl í náttúrunni dragi úr framleiðslu streituhormóna. 

Svefn

Algengt er að langvinnir verkir hafa áhrif á gæði svefns. Truflun á svefni getur haft ýmis neikvæð áhrif á líðan þína, svo sem andlegt jafnvægi, skap og virkni.

Svefn og verkir geta myndað vítahring því verkir hafa neikvæð áhrif á gæði svefns á sama tíma og svefnleysi hefur neikvæð áhrif á verki. Truflun á svefni eða minnkuð gæði svefns geta lækkað verkjaþröskuld og haft letjandi áhrif á getu þína til að takast á við langvinna verki.

Góð ráð til að bæta svefninn.

Stuðningur

Stuðningur er þýðingarmikill þáttur í baráttunni við langvinna verki. Eftirfarandi þættir eru hjálplegir:

 • Settu uppbyggileg og góð samskipti í forgang.
 • Haltu áfram að sinna áhugamálum og rækta samband þitt við vini og fjölskyldu.
 • Fáðu hjálp og leitaðu eftir stuðningi hjá heilbrigðisstarfsfólki, fjölskyldu, vinum og vinnufélögum.

 

Mögulegar afleiðingar

Langvinnir verkir geta haft víðtæk áhrif á líf fólks. Þar má meðal annars nefna:

 • Truflandi áhrif á svefn.
 • Neikvæð áhrif á andlega líðan. Algengt er að erfiðar tilfinningar eins og vonleysi, depurð, kvíði og sorg geri vart við sig.
 • Neikvæð áhrif á sjálfsmyndina.
 • Einkenni eins og þreyta, magnleysi og orkuleysi.
 • Minni virkni.
 • Minni hreyfing.

Hvað get ég gert?

Taktu málin í þínar hendur, þú getur viðhaldið lífsgæðum þínum þrátt fyrir langvinna verki.

Reyndu að haga lífi þínu í samræmi við það sem þú veist að er þér fyrir bestu.

Reyndu að finna út hvað er hjálplegt og hvað ekki og fylgdu eftir þeirri meðferð sem meðferðaraðilar þínir leggja upp með.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Mikilvægt er að vera í góðum samskiptum við heilsugæsluna. Gerðu áætlun með heimilislækninum þínum um reglulega eftirfylgd á heilsugæslunni.

Þú getur haft samband við heilsugæsluna ef þig vantar stuðning til að efla heilsu, auka lífsgæði eða þig vantar hjálp til að ná betri stjórn á aðstæðum þínum.

Á heilsugæslunni starfar teymi fagfólks sem er reiðubúið að styðja þig í vegferð þinni að heilbrigðara og innihaldsríkara lífi.

Þú getur alltaf haft samband símleiðis við hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni eða í síma 1700 fyrir utan opnunartíma ef þú vilt.

Leitaðu til bráðamóttöku ef:

 • Bráð versnun verður á langvinnum verkjum og ekki næst í heilsugæsluna eða sérfræðilækni.
 • Nýtilkomnir, bráðir verkir gera vart við sig.

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.