Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Svefntruflanir

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Svefntruflanir geta verið af ýmsum toga. Tímabundið svefnleysi er algengur kvilli með tilheyrandi dagsyfju og vanlíðan næsta dag. Ástæður svefntruflana geta verið ýmiskonar t.d. áhyggjur, álag, verkir, sjúkdómar,vímuefnaneysla eða aukaverkanir lyfja. Vaktavinna, óreglulegt eða breytt lífsmunstur getur líka truflað svefn. Svefntruflanir aukast með aldrinum og eru algengar meðal kvenna á breytingaskeiði. Til að leysa vandann er nauðsynlegt að ráðast að rótum hans og reyna að finna út hvað veldur svefnleysinu og ef hægt er að ráða bót á því. Þeir sem þjást af þreytu, dagsyfju og hrjóta mikið ættu að láta kanna hvort um kæfisvefn er að ræða. Oft á tíðum er ástæðan einfaldlega óreglulegar svefnvenjur eða að fólk fer einfaldlega of seint að sofa.

Svefn er öllum nauðsynlegur og ef svefntruflanir eru viðvarandi og almenn ráð duga ekki til að bæta svefninn er rétt að hafa samband við heilsugæsluna þína og leita ráða hjá lækni þar. Einnig má benda á að hugræn atferlismeðferð er árangursrík lausn við langvarandi svefnleysi. Allt að 90% þeirra sem sækja þessa meðferð ná að bæta svefn sinn verulega og árangurinn helst til lengri tíma. Hægt er að fá meðferð við svefnleysi á netinu á Íslandi. Helstu kostir vefmeðferðar eru að hún er ódýrari, gagnast öllum óháð búsetu og fólk getur stundað meðferðina hvar og hvenær sem er.

Einkenni

Helstu einkenni svefntruflana eru:

  • Lengri tíma tekur að sofna
  • Algengara er að vakna á nóttunni
  • Erfiðara er að sofa fram eftir
  • Þreyta og dagsyfja

Algengast er að svefnþörf fullorðinna sé 7-8 klst. á sólarhring. Langir daglúrar draga úr góðum nætursvefni. 

Oft er hægt að ráða bót á svefntruflunum með einföldum ráðum sem hver og einn getur sjálfur gert.

Hegðun hefur mest áhrif á lífsgæði og líðan að erfðum undanskildum. Sjáðu hvernig staðan er hjá þér.

Smelltu hér til að meta heilsuhegðun þína