Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Breytingaskeið kvenna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Breytingaskeiðið er náttúrulegt ferli sem tekur að meðaltali 5-7 ár og flestar konur byrja á milli 45-50 ára. Á breytingaskeiði dregur úr framleiðslu á kvenhormónum, eggin hætta að þroskast og frjósemi minnkar. Þessar breytingar á hormónastarfsemi geta valdið ýmsum einkennum sem tengd eru við breytingskeiðið. Einkennin byrja yfirleitt nokkrum árum áður en blæðingum lýkur. Segja má að breytingarskeiðið sé tímabil aðlögunar þar sem líkaminn endurstillir ólík líkamskerfi að breyttu magni kynhormóna.

Það er gott að vera meðvituð um breytingar á andlegri og líkamlegri líðan til að átta sig á hvort breytingaskeiðið sé mögulega hafið. Hóptímar um breytingaskeiðið: Fögnum næsta áfanga er í boði hjá heilsugæslunni.

Margt hefur áhrif á hvernig konur upplifa þetta tímabil. Þar má nefna lifnaðarhætti, menningu og félagsstöðu ásamt erfðum. 

Líðan á breytingaskeiði er afar einstaklingsbundin. Flestar konur finna einhver einkenni, sumar mikil einkenni og aðrar lítil einkenni. Sumar konur upplifa breytingaskeiðið sem jákvæða reynslu. Þær finna meðal annars fyrir aukinni vellíðan og orku, góðri heilsu og upplifa sig hæfileikaríkari. Þær upplifa meira frjálsræði og sjá möguleika til framþróunar sem gerir þeim meðal annars kleift að standa með sjálfum sér. Enn aðrar upplifa aukið frelsi í kynlífi án blæðinga og þungunarhættu og sjá fram á rólegri og þægilegri tíma með meira jafnvægi og aukinni sálrænni vellíðan. Aðrar konur upplifa breytingaskeiðið sem neikvæða og erfiða reynslu.

Konur sem hafa jákvætt viðhorf til breytingaskeiðsins virðast eiga auðveldara með að aðlagast þeim breytingum sem þær fara í gegnum. Mikilvægt er að temja sér velvild í eigin garð og ætla sér ekki um of. Félagslegur stuðningur og skilningur frá vinum og fjölskyldu getur hjálpað konum að takast á við einkennin og meiri líkur eru á vellíðan. Gott er að ræða málin opinskátt. 

Nánar

Eggjastokkar hætta að framleiða kynhormón en líkaminn heldur áfram framleiðslu þeirra, aðallega í nýrnahettum og fituvef. Sú framleiðsla er þó einungis brot af því sem áður var framleitt í eggjastokkum. Magn kynhormóna getur verið mjög breytilegt á þessu lífsskeiði sem veldur sveiflum á einkennum.

Tíðahvörf hafa orðið þegar 12 mánuðir eru liðnir frá síðustu blæðingum. Eftir tíðahvörf kemst meira jafnvægi á kynhormóna og einkenni minnka. Það getur þó tekið fáein ár og jafnvel áratugi fyrir einstaka konur.

Snemmkomið breytingarskeið

Sumar konur fara fyrr í gegnum breytingarskeið. Ef einkenni breytingarskeiðs koma fyrir 45 ára aldur er talað um snemmkomið breytingarskeið. Ástæða er til að leita til heilsugæslunnar eða sérfræðilæknis komi einkenni um breytingarskeiðið snemma. Snemmkomin tíðahvörf auka líkur á sjúkdómum og heilsubresti á efri árum. Með hormónameðferð má draga úr þeim áhrifum. 

Hvernig veit ég?

Það eru fyrst og fremst einkennin sem segja til um hvort breytingaskeiðið er hafið. Ef einkenni breytingaskeiðsins eru truflandi er um að gera að ræða málið við fagfólk sem getur aðstoðað þig. 

Hægt er að mæla kynhormón í blóði en styrkur þeirra er svo sveiflukenndur að ekki er ráðlagt að taka blóðprufur til að meta hvort þú sért byrjuð á breytingaskeiði. Undantekning frá þessu eru konur undir 45 ára sem hafa einkenni sem bent geta til snemmkomins breytingaskeiðs.

Við hverju má ég búast?

Upplifun kvenna af breytingaskeiðinu er afar einstaklingsbundin. Einkennin eru fjölbreytt og stafa ekki af hormónabreytingum einum og sér. Lífsmáti, lífsreynsla og lífsviðhorf hafa áhrif á einkennin. Almennt er talað um að 80% kvenna finni fyrir einhverjum einkennum breytingarskeiðsins.

Andleg líðan

Andleg vanlíðan eins og kvíði og þunglyndi eru algeng bæði hjá konum og körlum á miðjum aldri. Frá kynþroska eru konur tvisvar sinnum líklegri til að þjást af þunglyndi en karlar.

Konur eru berskjaldaðri fyrir andlegum einkennum á breytingaskeiði og algengast að þær greinist með þunglyndi á þessum tíma lífsins. Einnig geta komið fram skapsveiflur sem erfitt getur reynst að hafa stjórn á. Þessar skapsveiflur bitna gjarnan á nánustu fjölskyldu og vinum. 

Minnkað sjálfstraust getur einnig komið fram, sem getur lýst sér í því að konur verða litlar í sér og treysti sér ekki til að leysa verkefni sem þær áttu áður auðvelt með.

Konur sem fá lítinn stuðning frá fjölskyldu á breytingaskeiði er hættara við þunglyndi. Því er mikilvægt að nánasta fjölskylda og vinir séu upplýstir um einkenni og líðan kvenna á þessu tímabili. Þannig má auka skilning og stuðning frá nánasta umhverfi.

Við miklar hormónasveiflur geta konur fengið einkenni kvíða og þunglyndis sem er í raun afleiðing hormónaskorts. Best er að ráðfæra sig við fagfólk finni konur einkenni kvíða og þunglyndis.

Gagnlegir hlekkir: 
5 leiðir að vellíðan
Hvað er góð geðheilsa?
Að efla jákvætt sjálfsmat
Núvitund
Hugræn atferlismeðferð

Breytingar á blæðingum

Blæðingaróregla er oft fyrsta einkennið sem konur verða varar við. Blæðingar geta orðið meiri eða minni og tíðahringurinn lengst eða styst. Eftir því sem tíðahvörfin nálgast líður lengra á milli blæðinga. Tíðahvörfin verða þegar 12 mánuðir eru liðnir frá síðustu blæðingum.

Þær konur sem hafa ekki blæðingar til dæmis eftir legnám, eða þær sem nota getnaðarvarnir sem bæla blæðingar, verða ekki varar við blæðingaróreglu.

Aðrar konur upplifa svokallaða fossblæðingu í aðdraganda tíðarhvarfa og stundum getur það orsakað blóðleysi og/eða járnskort. Í þeim tilvikum þarf að leita til læknis.

Hita- og svitakóf

Hita- og svitakóf eru algengasta einkenni breytingaskeiðsins og vara að meðaltali í um 7 ár. Við tíðahvörf eru um 80-85% kvenna með einkenni hita- og svitakófa og þar af um 30% með mikil einkenni.

Einkennin byrja oft sem áköf hitatilfinning í andliti og efri hluta líkamans. Þeim getur fylgt roði og sviti og jafnvel svimi, hjartsláttarónot, ógleði eða kvíði. Hita- og svitakóf geta varað frá nokkrum sekúndum upp í mínútur og geta verið fáein upp í fjölmörg á sólarhring. Þau geta verið félagslega hamlandi og truflað nætursvefn, sem aftur getur ýtt undir önnur einkenni eins og þreytu, skapsveiflur og minnisvanda.

Hvað er til ráða?

 • Heilbrigður lífsstíll þar sem tekið er á mataræði, hreyfingu, svefni og streitu getur dregið úr hita- og svitakófum
 • Hugræn atferlismeðferð (HAM) hefur sýnt góðan árangur 
 • Dáleiðsla og nálastungur 
 • Hormónameðferð er áhrifaríkasta meðferðin við hita- og svitakófum
Hjartsláttaróregla

Hjartsláttaróregla er með algengari einkennum breytingaskeiðs. Konur geta fundið fyrir bæði hröðum og þungum hjartslætti en einnig hægum hjartslætti eða að hjartað missi úr slög. Einkennin geta birst hvenær sem er og vara yfirleitt frá nokkrum sekúndum upp í fáeinar mínútur.

Algengasta ástæða hjartsláttaróreglu á breytingaskeiði eru sveiflur á kynhormónum. Streita og kvíði, koffín, níkótín og neysla fíkniefna getur einnig valdið óreglu í hjartslætti. Ef einkennin vara lengi eða eru mikil er ráðlegt að leita læknis. Útiloka þarf að um sjúkdóma sé að ræða.  

Húð, hár og neglur

Kynhormónið estrógen á þátt í að viðhalda heilbrigði húðar, hárs og nagla. Lækkun á estrógeni getur haft eftirfarandi áhrif: 

 • Teygjanleiki í húð minnkar og hrukkumyndun eykst
 • Sár geta verið lengur að gróa og marblettir koma við minni tilefni
 • Minni raki getur valdið húðþurrki og húðkláða
 • Litabreytingar geta komið í húðina og sumar konur fá útbrot og bólur á meðan aðrar konur losna við sínar bólur
 • Hárlos getur gert vart við sig
 • Hárvöxtur í andliti getur aukist
 • Neglur geta orðið stökkar og viðkvæmar

Hvað er til ráða?

Ef einkenni eru slæm er rétt að leita til læknis.

Kynlöngun og nánd

Kynlöngun er mismikil hjá fólki og getur oft skapað vandamál í samböndum. Ótal margt spilar inn í kynlöngun. Góð samskipti og nánd hversdagsins eru lykilatriði. Með aldrinum dregur úr kynlöngun flestra og hún hefur oft minni þýðingu en á yngri árum.

Lækkun á kynhormónum á breytingarskeiðinu hefur áhrif á kynlöngun hjá um 40% kvenna.

Ástæður geta meðal annars verið: 

 • Þurrkur í leggöngum
 • Sársauki við samfarir
 • Breytingar á sjálfsmynd
 • Erfiðleikar í samböndum
 • Að konur upplifa sig minna aðlaðandi en áður

Nánd í parasambandi er mikilvægari en einkenni breytingaskeiðsins. Því meiri nánd við maka því meiri líkur á ánægju og virkni í kynlífi. Konur sem eru kynferðislega virkar eru almennt ánægðar með sitt kynlíf á breytingaskeiði.

Í mörgum tilfellum eru pör að fara í gegnum miklar breytingar varðandi kynlöngun á þessu lífsskeiði. Því er mikilvægt fyrir þau að ræða þær væntingar sem þau hafa til kynlífs ásamt þeim breytingum sem þau finna fyrir.

Hvað er til ráða?

 • Gott getur verið að ræða opinskátt við maka sinn um þær væntingar sem þú hefur til kynlífs ásamt þeim breytingum sem þú finnur fyrir
 • Pör geta þurft að finna nýjar leiðir til að viðhalda nánd og neista
 • Ef þurrkur er í leggöngum getur sleipiefni hjálpað
 • Hormónameðferð getur gagnast konum til að viðhalda og efla kynlöngun
 • Gagnlegir hlekkir: 
  Heilbrigð sambönd
  Tölum um kynlíf
  Krydd í kynlífið
  Kynlífsraskanir
Minni og einbeiting

Margar konur upplifa erfiðleika með að einbeita sér að daglegum athöfnum og verkefnum á breytingaskeiði. Gleymska, heilaþoka og erfiðleikar með að viðhalda athygli eru algeng einkenni. Þetta getur valdið erfiðleikum í einkalífi og dregið úr afköstum í leik og starfi.

Líkt og önnur líffæri hrörnar heilinn með hækkandi aldri hjá báðum kynjum og minni og geta til að einbeita sér minnkar. Auk aldurs hafa kynhormónin áhrif á heilastarfsemi. Estrógen örvar taugaboðefni í heila sem stjórna minni og einbeitingu og testósterón eykur skerpu. Lækkun á þessum hormónum veldur byrjandi hrörnun heilans.

Konur eru tvöfalt líklegri en karlar til að fá Alzheimers sjúkdóm. Sú þróun hefst í kringum tíðahvörfin þó einkenni komi oftast ekki fram fyrr en áratugum síðar.

Hér getur þú lesið um forvarnir gegn heilabilun.

Svefn

Svefnvandamál aukast með aldrinum. Konur eru næmari fyrir svefnvandamálum og talið er að yfir 50% kvenna finni fyrir þeim á breytingaskeiði. Ástæðan er lækkun kynhormóna en einnig geta önnur einkenni breytingaskeiðs eins og nætursviti, hitakóf, hjartsláttartruflanir og streita hafa neikvæð áhrif á svefninn.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að skoða svefnvenjur sínar á breytingaskeiði og finna leiðir til að bæta svefngæði og minnka líkur á langvinnum svefnvanda. Það má til dæmis gera með því að minnka streitu, breyta lífsstíl og svefnvenjum.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) virkar vel við svefnleysi og er aðferð sem getur virkað ævilangt. Hormónameðferð getur einnig hjálpað sumum konum til að bæta svefninn. Ekki er mælt með svefnlyfjum nema í takmarkaðan tíma og þá eingöngu til að stöðva vítahring svefnleysis.

Gagnlegir hlekkir: 
Slökun
Svefnlyf
Viltu bæta svefninn
Mikilvægi svefns

Verkir

Höfuðverkur og mígreni eru fremur algeng á breytingaskeiði. Konur þjást fremur af mígreni er karlar og er ástæðan meðal annars sveiflur í kynhormónum. Þar sem estrógen sveiflast mikið á breytingaskeiði geta konur orðið varar við versnun á mígreni og tíðari mígrenisköst. Þetta á sér í lagi við um mígreni með fyrirboða.

Verkir í liðum og vöðvum eru algengir á breytingaskeiði. Kynhormón draga úr bólgum og gegna mikilvægu hlutverki fyrir liði og vefi. Því getur lækkun á þeim orsakað verki í stoðkerfi á breytingaskeiði. Svefntruflanir og svefnleysi, sér í lagi skortur á djúpsvefni getur lækkað sársaukaþröskuldinn og gert konur næmari fyrir verkjum almennt. 

Verkir í brjóstum á breytingaskeiði eru oftast vegna breytilegs styrks á estrógeni. Verkirnir eru oftast á framanverðum brjóstum. Joðskortur getur einnig verið ástæða fyrir verkjum í brjóstum. Mikilvægt er að þreifa og skoða brjóst sín reglulega til að meta mögulegar breytingar. Með sjálfsskoðun ásamt reglulegri brjóstaskimun má greina brjóstakrabbamein á byrjunarstigi sem eykur batahorfur verulega.

Hvað er til ráða?

 • Ef verkir eru til staðar er rétt að leita til læknis og greina ástæðu þeirra.
 • Hér eru góð ráð þegar fólk er með langvinna verki.
 • Hormónameðferð getur dregið úr verkjum í liðum sem eru tilkomnir vegna hormónabreytinga.