Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Þunglyndi

Kaflar
Útgáfudagur

Þunglyndi er algeng geðröskun sem lýsir sér þannig að depurð eða leiði varir í lengri tíma. Þunglyndi er meira en einfaldlega að finna fyrir óhamingju, leiða eða pirringi en einkenni þunglyndis geta haft mikil áhrif á daglegt líf og lífsgæði.

Öll finnum við öðru hvoru fyrir depurð eða leiða og það er eðlilegt að vera stundum áhugalaus, orkulaus eða finna fyrir minni ánægju, jafnvel í nokkra daga í senn. Slík einkenni líða yfirleitt fljótt hjá og þarfnast ekki sérstakrar meðferðar. Sjá hér fimm leiðir að vellíðan.

Stutt samantekt um þunglyndi

Einkenni þunglyndis eru í eðli sínu svipuð og tímabundinni depurð en einkenni þunglyndis eru stöðugt til staðar í nokkrar vikur eða mánuði. Einkennin eru það hamlandi að þau hafa áhrif á getu til að sinna daglegu lífi og skyldum svo sem vinnu, félagslífi, eigin þörfum og fjölskyldulífi.

Fólk sem finnur fyrir þunglyndi getur fundið fyrir sorg eða vonleysi og misst áhugann á hlutum sem áður veittu ánægju. Þunglyndi getur haft áhrif á einbeitingu og úthald.

Ef fólk finnur fyrir depurð sem varir stöðugt, meirihluta dagsins, í tvær vikur eða lengur getur verið að um sé að ræða þunglyndi. Þá er ráðlagt að leita til fagaðila, eins og til heimilislæknis.

Sum upplifa hugsanir um að vilja ekki vera til, um sjálfsvíg eða sjálfsskaða. Slíkar hugsanir eru í sjálfu sér ekki hættulegar eða óeðlilegar en þær geta verið óþægilegar og það getur verið gott að fá aðstoð til þess að takast á við slíkar hugsanir.

Talið er að um það bil 5% fullorðinna takist á við þunglyndi hverju sinni. Þunglyndi er ekki merki um veikleika og það er ekki auðvelt að „hrista það bara af sér“. Þunglyndi er algeng geðröskun og öll geta upplifað þunglyndi, líka börn.

Góðu fréttirnar eru að það eru til mjög áhrifaríkar aðferðir til þess að takast á við þunglyndi og með réttum viðbrögðum og viðeigandi stuðningi geta flest náð fullum bata.

Einkenni

Þunglyndi birtist á mismunandi hátt og það upplifa ekki öll sömu einkenni. Megin einkenni klínísks þunglyndis eru viðvarandi depurð eða leiði nánast stöðugt í tvær vikur eða lengur en einnig skortur á ánægju og áhuga á því sem áður veitti ánægju.

Til viðbótar við depurð og áhugaleysi eða ánægjuskort geta þau sem upplifa þunglyndi fundið fyrir breytingum á líðan og líkamlegum einkennum, hugsunum og hegðun.

Líðan

  • Eirðarleysi
  • Minni áhugahvöt og minni gleði
  • Pirringur og lægra þol gagnvart áreiti og/eða öðru fólki, reiði
  • Tárast, grátur
  • Svartsýni
  • Tilgangsleysi og tómleikatilfinning
  • Vonleysi og hjálparleysi

Líkamleg einkenni

  • Breytingar á tíðahring
  • Eirðarleysi, einbeitingarskortur eða minnistruflanir
  • Hægari hreyfingar
  • Minni/meiri matarlyst, þyngdarbreytingar og/eða meltingartruflanir
  • Minni kynlöngun
  • Orkuleysi eða líkamleg þreyta sem lagast ekki þrátt fyrir svefn
  • Svefnvandi. Erfiðleikar við að sofna, vakna snemma, sofa of stutt eða sofa mikið
  • Verkir

Hegðun

  • Einangrun. Forðast vini eða fjölskyldu. Taka minni þátt í félagslegum athöfnum
  • Erfiðleikar við að sinna daglegum athöfnum eins og að fara í sturtu eða bursta tennur
  • Erfiðleikar við að sinna heimilisverkum, starfi eða fjölskyldulífi
  • Minni virkni eða minni hreyfing
  • Rifja endurtekið upp atvik úr fortíðinni eða hugsa neikvætt um framtíðina. Þessi hegðun er oft kölluð að grufla eða jórtra
  • Sinna ekki áhugamálum, frestun

Hugsanir

  • Erfiðleikar við ákvarðanatöku
  • Hugsanir um dauðann, sjálfsvíg eða sjálfsskaða
  • Kvíði og áhyggjur
  • Lágt sjálfsmat. Sjálfsgagnrýni, sektarkennd. Samanburður við aðra
  • Neikvæðar hugsanir um framtíðina/lífið
Einkenni þunglyndis hjá börnum og ungmennum

Börn og ungmenni geta líka upplifað einkenni þunglyndis. 

Það er mikilvægt að fá snemma aðstoð ef þú telur að barnið þitt sé að glíma við einkenni þunglyndis. Því lengur sem einkennin vara því líklegra er að þau hafi hamlandi áhrif á líf og lífsgæði barnsins þíns og leiði til meiri langvarandi vanda.  

Einkenni þunglyndis hjá börnum fela oft í sér:  

  • Áhugaleysi fyrir því sem áður veitti ánægju
  • Leiða eða depurð sem líður ekki hjá
  • Stöðugan pirring eða reiði
  • Stöðug þreyta og orkuleysi sem á sér ekki aðra skýringu 

Barnið þitt gæti líka:  

  • Átt erfitt með svefn eða sofið meira en venjulega
  • Átt erfitt með að slaka á  
  • Átt erfitt með að einbeita sér
  • Átt erfitt með ákvarðanatöku
  • Borðað meira eða minna en venjulega
  • Haft minni samskipti við vini og fjölskyldu
  • Haft hugsanir um dauðann, sjálfsskaða eða sjálfsvíg
  • Fundið fyrir tómleikatilfinningu  
  • Fundið fyrir doða eða skort á tilfinningum
  • Stundað sjálfsskaða eins og að skera í húðina eða taka ofskammt af lyfjum
  • Skort sjálfstraust  
  • Talað um að finna fyrir samviskubiti eða skorti á sjálfsvirði
  • Upplifað breytingar á þyngdVerið sinnulaust eða daufara en venjulega

Sum börn finna líka fyrir kvíða og sum finna fyrir líkamlegum einkennum eins og höfuðverkjum eða magapínu. Erfiðleikar í skólaumhverfinu eða breytingar á hegðun geta verið vísbending um að börn og ungmenni séu að glíma við þunglyndi.  

Eldri börn gætu misnotað áfengi eða vímuefni.  

Greining á vanda og alvarleikastig

Einkenni þunglyndis geta aukist smám saman en það getur verið erfitt að taka eftir því að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Stundum þarf ábendingu frá vin eða fjölskyldumeðlim til þess að átta sig á því að vandinn er orðinn meira en tímabundin vanlíðan eða eðlilegar sveiflur í líðan.

Fagaðilar meta alvarleika þunglyndis eftir fjölda einkenna, lengd þess tíma sem þau hafa verið til staðar og hömlun þeirra á daglegt líf. Væg einkenni hafa áhrif á getu til að sinna athöfnum daglegs lífs en miðlungs einkenni hafa veruleg áhrif á getu til að sinna athöfnum daglegs lífs eins og að mæta í vinnu, sinna eigin umhirðu, heimili og fjölskyldu. Ef einkennin eru orðin alvarleg eru þau svo hamlandi að ekki er hægt að sinna athöfnum daglegs lífs og sum geta upplifað geðrofseinkenni. Sum upplifa aðeins eina þunglyndislotu en önnur upplifa endurteknar þunglyndislotur.

Ítarlegt geðgreiningarviðtal er notað til þess að meta einkenni og alvarleika þunglyndis. Í slíku viðtali er spurt margra spurninga, bæði um einkenni þunglyndis en einnig um aðstæður og einkenni annarra geðraskana til þess að tryggja að greiningin sé rétt. Rétt greining er mikilvæg til þess að auka líkur á viðeigandi meðferð. Oft eru lagðir fyrir spurningalistar til að skima fyrir einkennum þunglyndis en niðurstöður slíkra skimunarlista nægja ekki til greiningar.

Fæðingarþunglyndi

Stundum upplifa foreldrar eða umönnunaraðilar einkenni þunglyndis á fyrsta aldursári barns. Þunglyndið lýsir sér eins en er kallað fæðingarþunglyndi þegar það kemur eftir fæðingu. Meðferðin er sú sama og við þunglyndi.

Þau sem hafa áður upplifað fæðingarþunglyndi munu ekki endilega upplifa fæðingarþunglyndi með næsta barni.

Geðhvörf

Í þessari geðröskun koma sveiflurnar í tímabilum, með tímabilum þunglyndis og tímabilum oflætis. Einkenni þunglyndisins eru svipuð og almennt í þunglyndi. Sjá hér upplýsingar um geðhvarfateymi landspítalans.

Sorg

Það getur verið erfitt að skera úr á milli sorgar og þunglyndis þar sem þau deila sumum einkennum.

Sorg er eðlilegt viðbragð við missi en þunglyndi er geðröskun. Það er eðlilegt að vera sorgmæddur eða dapur eftir missi og einkennin líða yfirleitt hjá af sjálfu sér með tímanum. Yfirleitt er ekki þörf fyrir stuðning fagaðila til þess að takast á við eðlilegt sorgarferli. 

Stundum getur sorg leitt til þunglyndis. Ef einkennin eru enn jafn hamlandi meira en ári eftir fráfall ástvinar getur verið gott að ræða við fagaðila til að meta vandann.

Eftir skyndilegt dauðsfall eins og sjálfsvíg eða slys upplifa sum áfallastreitu.

Upplýsingar á ensku

Skammdegisþunglyndi: Sum upplifa aukin einkenni þunglyndis á veturna. Sjá meiri upplýsingar á ensku hér.

Röskun á tíðarblæðingum: Sum upplifa aukin einkenni depurðar fyrir blæðingar. Sjá meiri upplýsingar hér.

Ástæður fyrir þunglyndi

Streituvaldandi atburðir og aðstæður

Það tekur tíma að takast á við streituvaldandi atburði og slíkir atburðir geta eðlilega haft áhrif á líðan.

Það er engin ein ástæða fyrir þunglyndi og mismunandi þættir geta ýtt undir aukningu á einkennum depurðar. Fyrir sum geta erfiðir eða streituvaldandi atburðir eins og dauðsfall, skilnaður, veikindi, starfsmissir eða fjárhagsáhyggjur leitt til þunglyndis.  

Sumar rannsóknir benda til þess að líkur á þunglyndi aukist með aldrinum og að þunglyndi sé algengara hjá þeim sem búa við lélegri félags- og fjárhagsstöðu. Breytingar á hlutverki eins og við starfslok og minni félagsleg samskipti sem leiða til einmanaleika geta einnig haft áhrif á líðan.  

Margir álagsatburðir eða mismunandi þættir sem eiga sér stað á sama tíma geta ýtt undir aukin einkenni depurðar og mörg lýsa neikvæðum spíral atburða sem leiða til þunglyndis. Eðlileg einkenni við álagsaðstæður eins og depurð eftir sambandsslit geta þróast yfir í þunglyndi ef fleiri álagsatburðir eða óhjálpleg hegðun eins og einangrun eða aukin áfengisneysla bætast við. Að sama skapi getur skortur á stuðningi á meðgöngu og eftir fæðingu barns aukið líkur á að upplifa einkenni þunglyndis.

 

Líkamlegir þættir

Talið er að gen geti haft áhrif á líkur á því að upplifa þunglyndi og því er fjölskyldusaga um þunglyndi talinn vera áhættuþáttur. Hinsvegar þarf yfirleitt meira til eins og streituvaldandi atburði til þess að þróa með sér þunglyndi og fjölskyldusaga þýðir ekki að þú munir upplifa þunglyndi.

Sumar konur eru sérstaklega viðkvæmar fyrir þunglyndi eftir meðgöngu vegna breytinga á hormónum og líkamlegra breytinga. Svefnleysi og aukið álag eftir fæðingu geta ýtt undir einkenni þunglyndis hjá umönnunaraðilum ungra barna.

Á fyrstu árum breytingarskeiðsins geta komið fram einkenni eins og leiði og sveiflur í líðan sem geta ýtt undir þróun á einkennum þunglyndis. Sjá hér upplýsingar um breytingarskeiðið.

Einkenni þunglyndis geta einnig fylgt langvarandi eða lífshættulegum veikindum eins og hjartasjúkdómum eða krabbameini. Langvarandi verkjavandi, höfuðáverkar og aðrir líkamlegir þættir geta haft áhrif á einkenni þunglyndis.

Í sumum tilfellum ráðleggur heimilislæknir blóðprufu til að útiloka ójafnvægi eða vítamínskort sem getur orsakað einkenni sem svipar til einkenna þunglyndis. Sjá hér upplýsingar um járnskort og vanvirkan skjaldkirtil.

Afhverju upplifir barn þunglyndi

Það sem eykur líkur á að barn eða ungmenni upplifi einkenni þunglyndis geta verið:  

  • Einelti eða stríðni
  • Erfiðleikar í fjölskylduumhverfi 
  • Fjölskyldusaga um þunglyndi eða annan geðheilbrigðisvanda
  • Líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt ofbeldi 

Stundum ýta ákveðnir atburðir undir einkenni þunglyndis eins og skilnaður foreldra, dauðsfall eða erfiðleikar í skólanum eða í samskiptum við önnur börn. Oft eru það margir atburðir sem saman ýta undir að barnið fari að upplifa þunglyndi.  

Að takast á við depurð og þunglyndi

Ef einkenni þunglyndis eru stöðug meirihluta dagsins, alla daga í tvær vikur eða lengur er mælt með því að leita til fagaðila á heilsugæslu sem getur metið alvarleika og hömlun einkenna.

Við greiningu á geðrænum vanda er yfirleitt spurt um núverandi og fyrri sögu um líkamlega og andlega heilsu, félagsaðstæður, lífsstíl og streituvaldandi aðstæður. Spurt er um einkenni algengra geðraskana og annars geðheilbrigðisvanda, ásamt áhrifum einkenna á getu til að sinna daglegu lífi. Það getur verið að fagaðilinn leggi fyrir spurningalista um líðan og í sumum tilfellum ráðleggur heimilislæknir blóðprufu til að útiloka aðrar orsakir fyrir einkennunum.

Samtal við fagaðila er trúnaðarmál og það er mikilvægt að segja rétt frá til þess að auka líkur á viðeigandi þjónustu við þínum vanda. Trúnaður er ekki brotinn nema ef talið er að notandi eða annað fólk geti orðið fyrir skaða.

Að takast á við væg, nýtilkomin og aðstæðubundin einkenni depurðar

Virk vöktun

Ef einkennin eru væg, nýtilkomin eða aðstæðubundin getur verið að fagaðilinn byrji á því sem kallast virk vöktun en þá er annar tími bókaður eftir tvær til fjórar vikur til þess að fylgjast með þróun einkenna. Skjólstæðingurinn gæti fengið ráðgjöf eða afhent lesefni varðandi það sem hægt er að gera til þess að takast á við þessi einkenni, til dæmis varðandi lífsstílsbreytingar eða sjálfshjálparefni.

Lífsstílsbreytingar

Mælt er með því að huga að breytingu á lífsstíl eins og að tryggja reglulega hreyfingu, fjölbreytt og hollt mataræði, draga úr áfengis- og vímuefnaneyslu, ásamt því að tryggja nægan svefn. Einnig er mælt með því að viðhalda virkni og auka félagslegar athafnir.  

Hreyfing

Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing eykur orku, bætir svefngæði og dregur úr einkennum depurðar og kvíða. Mörg upplifa aukið sjálfstraust og meiri áhugahvöt.

Regluleg hreyfing getur verið hluti af því að auka virkni og samskipti ásamt því að dreifa athyglinni frá vanlíðan. Hægt er að fá aðstoð við að koma af stað og viðhalda reglulegri hreyfingu með hreyfiseðli sem hægt er að fá á heilsugæslu  

Áfengi, vímuefni og nikótín

Það getur verið freistandi að takast á við vanlíðan með því að neyta vímuefna, áfengis eða nota nikótín. Þótt það virðist hjálpa til að byrja með getur slík neysla aukið vanlíðan til lengri tíma litið.

Sérstaklega er mælt með því að varast kannabis neyslu þar sem rannsóknir benda til þess að það sé sterk tenging á milli neyslu kannabis og einkenna þunglyndis.

Hægt er að ræða við heimilislækni og einnig hægt að leita til SÁÁ.

Streituvaldandi aðstæður

Ef verkefnin eru of mörg eða vanlíðan orsakast af streituvaldandi aðstæðum er vert að huga að því að minnka álagið og tryggja að sé gefinn tími til að huga að eigin heilsu, áhugamálum og líðan. Sjá hér upplýsingar um hvernig er hægt að bregðast við streitu 

Í sumum tilfellum getur verið hjálplegt að ræða við stuðningsaðila eins og maka, aðra fjölskyldumeðlimi, vini eða vinnufélaga til þess að skoða hvað hægt sé að gera til að tryggja umhverfi sem styður við jafnvægi í líðan á þessu tímabili.

Gott er að hafa streitustigann í huga og læra að nota streitufötuna til þess að létta á álagi og viðhalda jafnvægi í líðan. Sjá hér ráð til þess að takast á við streitu í starfi og upplýsingar um einkenni kulnunar.

Ofbeldi

Hægt er að finna upplýsingar og ráð varðandi ofbeldi á vef heilsuveru og vef 112. Hægt er að hafa samband við netspjall 1717 og einnig er hægt að leita til Bjarkarhlíðar.

Þunglyndi og tengsl við starfsumhverfi og starfsgetu

Ef starfsaðstæður ýta undir einkenni þunglyndis eða einkennin hafa áhrif á getu til að sinna starfi getur verið að taka þurfi leyfi til þess að jafna sig. Í sumum tilfellum skrifar læknir veikindavottorð og stundum er þörf á starfsendurhæfingu.

Sjá einnig upplýsingar um réttindi við veikindi

Takast á við depurð og þunglyndi barna og ungmenna

Ef talið er að barn geti verið að glíma við depurðareinkenni er mikilvægt að ræða við það. Æskilegt er að komast að því hvað er að angra barnið og hvernig því líður.  

Það er mikilvægt að taka barnið alvarlega, sama hvað málið snýst um og hvað umönnunaraðilanum finnst um það. Það er ekki víst að öðrum finnist það vera stórt vandamál en barnið gæti upplifað það sem slíkt.  Ef barnið vill ekki ræða málið er gott að upplýsa það að það geti leitað til umönnunaraðila ef það þarf á því að halda. Gott er að hvetja barnið til þess að ræða við einhvern sem það treystir, eins og annan fjölskyldumeðlim, vin eða einhvern í skólanum.    

Það gæti verið hjálplegt að ræða við aðra sem þekkja barnið eins og aðra umönnunaraðila eða fjölskyldumeðlimi. Það getur verið gott að ræða við skóla barnsins til þess að komast að því hvort áhyggjur hafi vaknað þar. Æskilegt er að sé til staðar gott samstarf á milli skóla og fjölskyldu til þess að tryggja að barnið fái þann stuðning þar sem það þarf.  

Ef barnið lýsir þunglyndi er hægt að prófa að:  

Skoða ráðleggingar við þunglyndi hjá fullorðnum þar sem sömu ráð eiga við hjá börnum.  

Ef einelti er að ýta undir þunglyndi er mikilvægt að takast á við það í samvinnu við það umhverfi þar sem eineltið á sér stað.  

Mikilvægt er að huga m.a. að því að barnið:  

Meðferð

Ekki er þörf á sértækri meðferð við eðlilegum sveiflum í líðan en væg einkenni líða yfirleitt hjá af sjálfu sér. Stundum getur verið hjálplegt að lesa sér til um einkenni og prófa sig áfram með aðferðir sem eru árangursríkar til þess að viðhalda jafnvægi í líðan eins og að gera lífsstílsbreytingar.

Hægt er að fá sjálfshjálparbækur sem byggjast á hugrænni atferlismeðferð en það getur verið hjálplegt að skoða mynstur hegðunar og hugsana sem geta verið að ýta undir depurð. Sjá slíkt lesefni og æfingar á vef Reykjalundar.

Við vægum til miðlungsalvarlegum einkennum þunglyndis er mælt með samtalsaðferðum eins og hugrænni atferlismeðferð (HAM) eða lyfjagjöf. Mat og meðferð fer fram á Heilsugæslu. Einnig er hægt að leita til fagaðila á stofu.  

HAM getur verið mjög áhrifarík við einkennum þunglyndis. Hugræn atferlismeðferð við vægum einkennum þunglyndis fer oft fram í formi sjálfshjálparmeðferðar með stuðningi eins og hópmeðferð, rafrænni sjálfshjálparmeðferð eða leiddri sjálfshjálparmeðferð. Fjöldi tíma er yfirleitt 6-8 skipti og meðferðin byggist á fræðsluefni og verkefnum. Mælt er með um 8 viðtölum við vægum vanda ef veitt er einstaklingsmeðferð við vægum til miðlungsalvarlegum einkennum með HAM. 

Meðferð við miðlungsalvarlegum og alvarlegum einkennum þunglyndis. Ef einkennin eru orðin meira hamlandi er mælt með samtalsmeðferð eins og hugrænni atferlismeðferð, lyfjagjöf eða hvor tveggjasamtímis.

Stundum er þörf á meðferð í þverfaglegu teymi til lengri tíma. Meðferð við alvarlegri vanda getur farið fram í geðheilsuteymi heilsugæslunnar eða innan þjónustu spítalanna. Hægt er að fá ráðleggingar varðandi meðferð og tilvísun í viðeigandi þjónustu á heilsugæslustöðvum. 

Lyf við þunglyndi:

Í sumum tilfellum er notuð lyfjameðferð. Það getur tekið allt að 12 vikur þar til meðferð með lyfjum ber árangur. Yfirleitt er mælt með því að taka lyf í a.m.k. eitt ár. Stundum er hægt að hætta lyfjameðferð eftir árið en sumir þurfa að halda áfram að taka lyfin í mörg ár til að viðhalda árangri.   

Mælt er með því að hætta ekki að taka lyf án þess að eiga samtal við lækni þar sem það getur valdið óþægilegum aukaverkunum að hætta skyndilega að taka lyf. Yfirleitt er lyfjameðferð tröppuð út rólega til að draga úr líkum á aukaverkunum. Einnig getur verið þörf fyrir að auka aftur skammtinn ef einkennin koma aftur.   

Mögulegar aukaverkanir af SSRI lyfjum geta verið:  

Flestar aukaverkanir líða hjá á nokkrum vikum þegar líkaminn venst lyfjunum. Mikilvægt er að upplýsa lækninn um þungun þegar lyfjagjöf er rædd.  

Sumir kjósa að taka bæði lyf og fara í samtalsmeðferð. 

Meðferð barna með þunglyndi

Meðferði barna og ungmenna við þunglyndi er aðlöguð að aldri og einkennum barnsins og felur yfirleitt í sér aðstoð og samvinnu við umönnunaraðila. Það getur verið að umönnunaraðili fái þjálfun og sjálfshjálparefni til þess að nota á milli tíma. 

Ef einkennin eru væg getur verið byrjað á að fylgjast með þróun einkenna. Ef vandinn líður ekki hjá er mælt með samtalsmeðferð eins og hugrænni atferlismeðferð í hóp eða á rafrænu formi. Við miðlungs til alvarlegum einkennum hjá börnum er mælt með einstaklingsmeðferð eins og hugrænni atferlismeðferð. Í sumum tilfellum er veitt lyfjameðferð og stundum er mælt með stuðningi eins og fjölskyldumeðferð.  

Meðferðin getur falið í sér samstarf við ytri aðila eins og skóla, félagsþjónustu eða önnur úrræði. Stundum er meira viðeigandi að vísa í aðra þjónustu eins geðheilsuteymi og þegar einkennin eru alvarlegri getur verið vísað í sérhæfða þjónustu eins og á spítalanum.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Við bráðum alvarlegum vanda er hægt að leita beint til geðdeildar LSH, hringja í 112 eða hafa samband við 112.is Einnig er hægt að hafa samband við 112 í 112 appinu.

Mælt er með því að leita aðstoðar ef einkenni þunglyndis eru til staðar í tvær vikur eða lengur og hafa hamlandi áhrif á getu til að sinna athöfnum daglegs lífs. Þá er meðal annars hægt að leita til heilsugæslunnar eða til fagaðila á stofu. 

Á heilsugæslu á að fara fram mat á geðrænum vanda og meðferð við algengum geðrænum vanda eins og félagsfælni. Við grun um þunglyndi gæti verið vísað áfram til sálfræðings á heilsugæslustöðinni sem getur gert ítarlegt mat á vanda og veitt sértæka meðferð við þunglyndi. Ef sálfræðiþjónustu er óskað skal hafa samband við þá heilsugæslustöð sem notandi er skráður á.   

Finna næstu heilsugæslu hér.