Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Vanvirkur skjaldkirtill

Kaflar
Útgáfudagur

Skjaldkirtill (e. thyroid gland) er lítill kirtill sem er staðsettur neðarlega í framanverðum hálsi. Skjaldkirtillinn er innkirtill og seytir hormónum beint í blóðrásina. Skjaldkirtillinn framleiðir tvo hormón sem stjórna efnaskiptum líkamans sem eru T4 (týroxín) og T3 (þríjoðótýronín), einnig framleiðir kirtillinn Calsitónín sem tekur þátt í efnaskiptum beina.

Það kallast vanvirkur skjaldkirtill (e. hypothyroidism) þegar kirtillinn seytir ekki nægilegu magni hormóna til að mæta þörfum líkamans.

Starfsemi

Hlutverk skjaldkirtilshormóna T4 og T3 er að stjórna efnaskiptum, vexti og viðhaldi alls líkamans. Hormónin fá frumur líkamans til að vinna hraðar sem krefst orku. Einnig gegna hormónin hlutverki við að stjórna:

  • Hækkun eða lækkun á líkamshita  
  • Tíðni og styrkleika á hjartslætti  
  • Hraðanum sem það tekur næringu að fara í gegnum meltingarveginn
  • Heilaþroska (hjá börnum)  
  • Vexti (hjá börnum) 
  • Virkni taugakerfisins 
Nánari upplýsingar

Þegar fólki er kalt þá sendir líkaminn boð til heilans. Heilinn seytir TSH sem er stýrihormón skjaldkirtils. Við það losar skjaldkirtillinn T4 út í blóðrásina sem fær frumur líkamans til að vinna hraðar og hækka líkamshita.  

Einkenni

Einkenni eru svipuð annarra sjúkdóma og þróast venjulega hægt svo greining tekur oft mörg ár. Í byrjun eru einkenni oftast ekki áberandi eins og þreyta og þyngdaraukning. En þegar efnaskiptin halda áfram að hægja á sér þá fara að koma fram frekari einkenni eins og:

  • Þreyta
  • Þyngdaraukning
  • Þunglyndi
  • Kuldatilfinning
  • Hægðatregða
  • Bjúgur
  • Þurr húð
  • Brothætt hár og neglur
  • Hæsi
  • Hugartregða
  • Minnisskerðing
  • Hægur hjartsláttur
  • Hjá konum á barneignaraldri eru miklar tíðablæðingar og skert frjósemi algeng.

Almennt séð hafa börn og ungmenni sömu einkenni og fullorðnir en einnig geta þau fundið fyrir:

  • Lélegum vexti, eru lágvaxin
  • Seinkuðum vexti á fullorðinstönnum
  • Seinkuðum kynþroska
  • Minni andlegum þroska

Orsök

Flest tilfelli stafa annað hvort af því að ónæmiskerfið ræðst á skjaldkirtilinn eða af skemmdum vegna meðferðar t.d. vegna skjaldkirtilskrabbameins. Joðskortur getur einnig verið orsök vanvirkni í skjaldkirtli.

Greining

Greiningin er staðfest með blóðprufu þar sem skjaldkirtilshormón og stýrihormón þeirra eru mæld í blóði. Saga og skoðun skiptir einnig miklu máli og stundum þreifast stækkaður skjaldkirtill við líkamsskoðun.

Meðferð

Meðferðin fer fram í lyfjagjöf í töfluformi. Yfirleitt er meðferðin ævilöng.

Joð og skjaldkirtill

Joð er snefilefni sem gegnir lykilhlutverki í myndum skjaldkirtilshormóna. Líkaminn getur ekki framleitt Joð svo fólk verður að fá það úr mataræðinu. Joð er helst að finna í feitum fisk, sjávarafurðum, mjólkurafurðum og eggjum. Einnig er hægt að kaupa joðbætt salt.

Meðganga og joð

Rannsókn frá árinu 2019 sýndi joðskort í fyrsta skipti á Íslandi og má það tengja við breytt mataræði, minni mjólkur- og fiskneysla. Nægjanlegt joð magn á meðgöngu er mikilvægt fyrir fósturþroska og þroska barnsins eftir fæðingu þess.

Ráðlagður dagskammtur (RDS) af joði er 150 míkrógrömm á dag fyrir fullorðna en 175 míkrógrömm fyrir barnshafandi konur og 200 míkrógrömm fyrir konur með barn á brjósti.