Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hugræn atferlismeðferð

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur


Hugræn atferlismeðferð, sem oftast er kölluð HAM, er meðferð sem virkar vel til að takast á við heilsuvanda eins og þunglyndi, kvíða, áföll, eyrnasuð, átröskun, þráláta verki, áfengis- og vímuefnaneyslu, svefnvanda og fleira.

Skoðum nánar hvernig HAM virkar:

  • Tengslin milli tilfinninga, hugsana og hegðunar eru skoðuð. Þegar okkur líður illa tengjum við það gjarnan einhverju sem hefur gerst eða er að fara að gerast t.d. að finna fyrir kvíða áður en farið er í próf.
  • Nánar er farið yfir það hvað gerist í huganum þegar við finnum fyrir kvíða eða depurð.
  • Hvaða viðhorf við erum með og hvað við sjáum fyrir okkur þegar okkur líður illa.
  • Við hugsum um hugsanir okkar og skoðum viðhorf okkar til þess sem hefur gerst.
  • Atferlishluti HAM felst í því að skoða hvernig brugðist er við erfiðum hlutum, þ.e. hvernig við hegðum okkur og athugað hvort hægt sé að bregðast öðruvísi við til að bæta líðan. 

Tökum dæmi
Tveir vinir, Maggi og Siggi eru saman í skemmtigarði og sjá risastóran rússíbana. Siggi hleypur að rússíbananum til að komast sem fyrst í röðina og horfir stóreygur á rússíbanann. Maggi labbar mjög rólega að röðinni og horfir niðurlútur fram fyrir sig á meðan hann er í röðinni. Hvernig ætli Sigga líði á meðan hann bíður? Hvernig ætli Magga líði?

Líklegast er Siggi mjög spenntur að fara í rússibanann en Maggi mjög hræddur við það. Þeir eru báðir að fara að gera það sama en tilfinningar þeirra eru mjög ólíkar. Af hverju ætli það sé? Hvað ætli sé að fara í gegnum huga þeirra á meðan þeir bíða, hvað ætli Siggi sé að hugsa og sjá fyrir sér? Hvað ætli Maggi sé að hugsa og sjá fyrir sér?

Líklegast sér Siggi fyrir sér hvað þetta eigi eftir að vera skemmtilegt og að hann eigi eftir að hlæja og öskra af spennu. En Maggi sér kannski fyrir sér að það gæti eitthvað hræðilegt gerst, t.d. að hann myndi æla á hina sem eru í rússíbananum. Í rauninni er það ekki rússíbaninn sem hefur áhrif á líðan þeirra, heldur þessar ólíku hugsanir sem koma upp, oft kallaðar óboðnar hugsanir, því þær koma hvort sem við viljum það eða ekki.

Í HAM eru óboðnar hugsanir skoðaðar og athugað hvort að það sé önnur leið til að líta á málinn en sú sem okkur datt fyrst í hug. Í tilfelli Magga væri t.d. skoðað hvað hafi gerst síðast þegar hann fór í rússíbana, hvað gerist hjá öðrum þegar þeir fara í rússíbana og annað í þeim dúr. Einnig er skoðað hvort hann hætti við að fara eða hvort hann lét verða af því að fara og fannst kannski skemmtilegra en hann hélt fyrst.

Hugræn athyglismeðferð
Hugræn athyglismeðferð