Ef fólki líður eins og það væri betra ef það værir dáið er mikilvægt að segja einhverjum frá því.
Það er hægt að fá aðstoð strax ef þörf er á.
Ef þarf aðstoð strax
Í neyð hringja í 1-1-2
Bráðamóttaka geðdeildar er staðsett á Hringbraut og er opin frá kl. 12-19 á virkum dögum og kl. 13-17 á frídögum. Sími bráðamóttöku geðdeildar er 543-4050 á opnunartíma. Hægt er að leita þangað með áríðandi mál af geðrænu toga án þess að eiga pantaðan tíma. Á öðrum tímum er móttakan á bráðamóttöku í Fossvogi.
Sjá upplýsingar um bráðamóttöku geðdeildar hér.
Hægt er að leita til heilsugæslu á opnunartíma en hér má finna næstu heilsugæslustöð.
Ráðgjöf
Ýmis hjálparsamtök veita ókeypis ráðgjöf og stuðning, bæði fyrir fólk með sjálfsvígshugsanir og aðstandendur.
Píeta samtökin:
- Sími 552-2218
- Opið allan sólarhringinn
Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Boðið er upp á viðtöl og stuðningshópa fyrir 18 ára og eldri.
Bergið headspace:
- Sími 571-5580
Bergið er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri. Þar er boðið upp á ráðgjöf og fræðslu sem er aðlöguð að hverjum og einum. Ekkert vandamál er of lítið eða of stórt.
Hjálparsími Rauða krossins:
- Sími 1717
Hjálparsíminn er alltaf opinn, trúnaði og nafnleynd er heitið og hann er ókeypis.
Netspjall:
Ef þú vilt ekki tala við einhvern í síma geturðu haft samband í gegnum netspjall.
Samtal við einhvern traustan
Gott er að tala við vini eða fjölskyldumeðlimi og segja þeim hvað er í gangi. Flestum líður betur eftir að hafa sagt einhverjum frá því hvað þau eru að glíma við. Hvort sem það er vinur, ættingi, kennari, vinnufélagi eða annar traustur aðili. Þau gætu veitt stuðning og hjálpað til við að tryggja öryggi ykkar.
Það er engin rétt eða röng leið til þess að segja frá hugsunum um að vilja ekki vera til eða sjálfsvígshugsunum. Það sem skiptir máli er að hefja samtalið.
Hugsanir um dauðann eða sjálfsvíg
Margt fólk upplifir hugsanir um dauðann eða sjálfsvíg einhvern tímann á lífsleiðinni. Hugsanir eins og að vilja losna við vanlíðan, vilja frysta tímann eða geta ýtt á pásu þegar álagið er mikið eða vanlíðan mikil. Það er eðlilegt að vilja líða betur.
Stundum koma hugsanir um dauðann eftir áföll eða streituvaldandi tímabil en stundum geta svona hugsanir komið upp úr þurru. Það er mikilvægt að hafa í huga að það er eðlilegt að fá allskonar hugsanir og það þarf ekki að bregðast við hugsunum á einhvern ákveðinn hátt.
Hugsanir um að vilja ekki vera til eða um sjálfsvíg geta bent til vanlíðan á þessu augnabliki og gott er að muna að slíkar hugsanir líða yfirleitt hjá með tímanum.
Ráð til að takast á við mikla vanlíðan
- Reyna að hugsa ekki um framtíðina á þessu augnabliki
- Leggðu áherslu á að taka eitt skref í einu og komast í gegnum daginn
- Líðanin gæti verið allt öðruvísi á morgun
- Forðast áfengis- og vímuefnanotkun
- Tala við einhvern og segja frá líðaninni
- Komast á öruggan stað, eins og til fjölskyldumeðlims eða vinafólks
- Vera í kringum fólk
- Skipta um umhverfi
Það er mismunandi hvað hjálpar okkur að ná meira jafnvægi í líðan en sumum finnst hjálplegt að gera eitthvað sem hefur áður veitt ánægju eða vakið upp góðar eða andstæðar tilfinningar. Sem dæmi mætti nefna:
- Hlusta á lag sem gleður
- Stunda hreyfingu
- Horfa á gamanmynd
- Skoða myndir af einhverju sem vekur upp góða líðan, eins og af dýrum
Áhyggjur af öðrum
Ef áhyggjur eru af öðrum, skal reyna að hefja samtal við viðkomandi. Gott er að nota opnar spurningar eins og ,,hvernig líður þér?" eða ,,hvernig líður þér varðandi ...?"
Sumum líður eins og þau þurfi að finna lausn á vanda viðkomandi en það mikilvægasta sem þau geta gert er að hlusta.
Hægt er að benda á hvar sé hægt að fá hjálp við að meta vandann og ræða hvort þörf sé á frekari stuðningi eða meðferð í heilbrigðiskerfinu.
Viðvörunarmerki
Eftirfarandi getur verið vísbending um aukna hættu á sjálfsvígi ef viðkomandi:
- Er hvatvís eða hegðar sér á hvatvísan hátt
- Hefur aðgengi að leið til þess að svipta sig lífi
- Hefur gert áætlun um hvernig þau ætli að taka líf sitt
- Hefur fyrri sögu um sjálfsvígstilraun
- Hefur verið náin einhverjum sem hefur gert tilraun til eða látist úr sjálfsvígi
- Sér fyrir sér ímyndir um dauðann eða líf eftir dauðann
Ef þessi viðvörunarmerki gera vart við sig eða áhyggjur eru af því að einhver nákominn sé að hugsa um að taka sitt eigið líf er mikilvægt að ræða við viðkomandi og bjóða aðstoð til þess að komast í viðeigandi stuðning hjá fagaðila.