Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Krydd í kynlífið

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Margir þekkja þá tilfinningu að kynlífið sé dauft og vanabundið. Lífið fellur svo auðveldlega í ákveðið far en sumir hafa þörf fyrir eða gaman af kryddi í tilveruna. Aðstæður okkar geta líka breyst og þörf fyrir breytingar.

Öll erum við mismunandi og það sem hentar einum kann að vera alveg ómögulegt fyrir þann næsta. Mikilvægasta kynfærið er heilinn og hvernig þú hugsar hlutina. Ef þú vilt fá meira út úr kynlífinu með maka þínum gæti eitthvert þessara ráða gagnast ykkur. 

Virkjum alla skynjun

Gott kynlíf verður betra og auðugra ef við nýtum öll skilningarvitin. Ilmur af kerti, nuddolíu eða ilmvatni getur gert mikið fyrir upplifunina. Tónlist, dempuð ljós eða kertaljós eru einnig til þess fallin að skapa erótíska stemmningu. Að hlusta á hjartslátt makans eða andardrátt hans gerir okkur meðvitaðri um hvort annað. Sumum finnst spennandi að blanda saman kynlífi og mat til dæmis með því að gefa hvort öðru eitthvað gómsætt  eins og jarðarber. 

Nudd

Nudd getur aukið mjög á kynferðislegan unað til dæmis sem hluti af forleik. Að nudda maka sinn og þiggja nudd er góð leið til að koma sér út úr hugsunum um amstur dagsins og fara að huga að núinu og ykkur sjálfum. 

Einfalt paranudd þarf ekki endilega að leiða til kynlífs en það hjálpar pörum að skynja líkama hvors annars, er slakandi og kallar fram vellíðan. Til að forðast misskilning er mikilvægt að tala saman um það fyrirfram hvert nuddið á að leiða. 

Tilhlökkunarefni

Ákveðið í sameiningu ákveðinn tíma, til dæmis viku, þar sem þið ástundið kynlíf án þess að fá fullnægingu. Í byrjun eru aðeins kossar og faðmlög leyfileg. Færið ykkur svo smám saman yfir í strokur, sjálfsfróun og/eða munnmök, án fullnægingar. Í vikulokin er komið að því að leyfa sér fullnæginguna ásamt því kynlífi sem þið kjósið. Þessi vika hjálpar ykkur að læra á þær fjölmörgu tilfinningar sem við getum gefið og þegið í kynlífinu.

Lestu bók

Til er fjöldinn allur af bókum sem ritaðar hafa verið um kynlíf og geta gefið þér hugmyndir til að bæta kynlíf þitt. Það gildir einu hver kynhneigð þín er, aldur, kyn eða smekkur þú getur fundið eitthvað við þitt hæfi ef ekki á íslensku þá alveg örugglega á ensku. Ef þú hefur aldrei keypt þér bók um kynlíf af hverju ekki að gera það núna? Kynlíf er mikilvægur hluti af lífinu og um að gera kynna sér það.

Sjálfsfróun

Sjálfsfróun í einrúmi eða með maka þínum getur reynst mikill ávinningur fyrir kynlífið. Að kanna eigin líkama og þekkja næmu svæðin hans gerir þér auðveldara að leiðbeina maka þínum í kynlífi ykkar.  Par sem ekki vill eða getur haft samfarir getur fróað hvert öðru og átt unaðslegt kynlíf með því móti. Ræddu þetta við maka þinn.

Deilið kynórum og þrám

Flestir hafa sína kynóra, smekk og þrár en mismunandi er hvort við deilum þeim með maka okkar eða ekki. Það að deilda kynórum með maka sínum getur hjálpar honum að vita hvað kveikir neistann. Það er ótrúlega ólíkt sem kveikir í fólki þegar kemur að kynlífi það getur verið allt frá fitli við eyrnasnepla niður í tær og allt þar á milli. Tilhugsun um fjallaferðir, sundlaugar eða fjötra. Ræðið málin og nýtið ykkur kynórana til að krydda kynlífið. Það merkir þó ekki að markmiðið sé að upplifa þá í bókstaflegri merkingu. Það finnst kannski sumum æsandi tilhugsun að hafa kynmök á almannafæri en það er ekki þar með sagt að þeir geri það.

Leiktæki ástarlífsins

Til er fjöldinn allur af leiktækjum sem kryddað geta kynlífið ef þú og maki þinn eruð tilbúin í að prófa. Mikið úrval slíkra tækja er til og auðvelt að kaupa þau á netinu eða í verslunum. Með smá leit á vefnum finnur þú það sem þú þarft ef þú slærð inn „hjálpartæki ástarlífsins“. Að nota hjálpartæki ástarlífsins getur aukið unað og gert kynlífið skemmtilegra. Hafir þú ekki notað slík leiktæki væri ráð að ræða það við maka þinn og ef þið hafið áhuga á að prófa getið þið valið það sem þið teljið henta ykkur það gæti verið að þið komist að því að slík tæki geta aukið á kynferðislegan unað og spenning. 

Lestu meira um leiktæki ástarlífsins hér.

Okkar á milli

Tilvera flestra para er þannig að dagurinn er í vinnunni og kvöldin heima. Á heimilum þar sem eru börn er tíminn á milli 5 og háttatíma barnanna oft eini tími foreldra með börnunum yfir daginn og þá þarf að hugsa um þau. Að kvöldi þegar börnin eru komin í háttinn hefur enginn tími farið í að hugsa um makann. Þessu geta kannski einhverjir breytt til dæmis með huggulegum hádegishittingi stöku sinnum eða með því að senda sms, snapp eða tölvupóst til makans, ekki af því að nauðsyn krefur heldur af því að þig langar til að setja ljúfa setningu, mynd eða minningu í huga hans. Sagt er að karlar hugsi um kynlíf 18 sinnum á dag og konur um 10 sinnum á dag. Þegar kynlífinu skítur upp í kollinn væri ekki úr vegi að láta makann vita af því svona stundum í það minnsta. Að vera í slíkum tengslum við maka sinn skapar eftirvæntingu og skilar sér í auðugra kynlífi. Það er samt ekki klókt að senda maka sínum kynferðisleg skilaboð í gegnum vinnupóstinn. Þú veist að vinnuveitandinn hefur leyfi til að lesa vinnupósta. 

Slakaðu á

Kynlíf í ástarsambandi getur verið fallegast og besta upplifun sem til er. Stundum kemur kynlífið okkur á óvart. Þegar við búumst ekki við neinu sérstöku þá gerist eitthvað og kynlífið verður stórkostlegt. Það má því reyna að slaka bara á með maka sínum og sjá hvað gerist.

Verum hrein

Kynlíf snýst um náin kynni og hreinlæti er eitthvað sem allir ættu að huga að. Sýndu þér og maka þínum þá virðingu að þrífa kynfæri þín daglega. Nýr ilmur getur virkað ótrúlega vel á kynlífið. Sjá nánar um hreinlæti kynfæra karla og kvenna