Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hreinlæti kynfæra kvenna

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Hreinlæti er mikilvægt þegar kemur að kynfærum eins og öðrum stöðum líkamans. Hvernig við sinnum kynfærunum hefur áhrif á ýmsar sýkingar og heilbrigði kynfæranna. Hér er meðal annars um að ræða þvagfærasýkingar (blöðrubólgu) og sveppasýkingar í leggöngum. Hér eru góð ráð:

  • Ekki nota innlegg í buxurnar daglega
  • Ekki nota ilmklúta og ilmsprey á kynfærin
  • Ekki nota þröng föt, leyfa svæðinu að lofta
  • Gæta þess að byrja að framan og þurrka aftur að endaþarmi þegar þú þurrkar þér að neðan
  • Pissa fyrir og eftir samfarir
  • Velja nærbuxur úr bómull
  • Þvo kynfærin með vatni eða með mildri sápu sem hefur lágt sýrustig

Varðveitum bakteríuflóruna í leggöngunum

Í leggöngunum er mikil flóra verndandi baktería. Þessar bakteríur eru nauðsynlegar til að viðhalda heilbrigði legganganna. Þessar verndandi bakteríur viðhalda sýrustiginu í leggöngunum og draga verulega úr líkum á því að sjúkdómsvaldandi bakteríur nái fótfestu í leggöngunum. Með því að þvo leggöngin raskast þessi bakteríuflóra sér í lagi ef notuð er sterk sápa. Sápan drepur verndandi bakteríurnar en sjúkdómsvaldandi bakteríur og sveppir eiga þá greiðari leið í slímhúðina. Leggöngin hafa frá náttúrunnar hendi sjálfhreinsibúnað ef svo má segja og engin þörf á að þvo þau sérstaklega þau sjá algerlega um það sjálf.

Kynsjúkdómar

Sumar bakteríur og veirur eru klókari en aðrar og fara auðveldlega í gegnum slímhúð legganganna sama hversu heilbrigð hún er. Þetta eru bakteríur og veirur sem valda kynsjúkdómum. Eina leiðin til að forðast það smit er að nota smokk við samfarir.

Eru innleggin hreinleg?

Hreinar nærbuxur eru jafn hreinlegar og innlegg, en með því að sleppa innleggi má líka sleppa við þá kvilla sem oft fylgja þeim til dæmis sveppasýkingu. Innleggin koma í veg fyrir að nógu vel lofti um kynfæri og halda að raka sem sveppir þurfa til að vaxa. 

Til eru fjölnota innlegg og tíðarnærbuxur úr lífrænum bómul sem er ákjósanlegur og ódýrari kostur .