Leiðir að minni saltneyslu

Íslendingar neyta meira af salti en ráðlagt er – en margir vita ekki af því. Mælt er með að fullorðnir neyti ekki meira en sem nemur 6 grömmum af salti á dag.

Af hverju að huga að saltneyslu?

Með því að minnka saltneyslu má draga úr hækkun blóðþrýstings, en háþrýstingur er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Mest eru áhrifin hjá þeim sem eru með of háan blóðþrýsting og hjá þeim sem eru yfir kjörþyngd en einnig má með því að minnka saltneyslu draga úr þeirri blóðþrýstingshækkun sem yfirleitt fylgir hækkandi aldri.

Hvaðan fáum við salt?

Mest af saltinu er dulið í tilbúnum matvörum. Um 75% af salti kemur úr tilbúnum matvælum. Það kemur að stærstum hluta úr kjötvörum, brauðum, ostum, sósum og súpum. Matvælaframleiðendur gætu með vandaðri framleiðslu þar sem dregið er úr saltnotkun haft mikil áhrif í þá átt að draga úr saltneyslu en svo geta neytendur einnig tekið til sinna ráða.

Ráð til að draga úr saltneyslu

  • Velja lítið unnin matvæli – tilbúnir réttir, pakkasúpur og -sósur eru yfirleitt saltrík.
  • Takmarka notkun salts við matargerð og borðhald – fjöldi annarra krydda getur kitlað bragðlaukana, t.d. ýmis jurtakrydd. Vert er að taka það fram að tegund salts skiptir ekki máli, NaCl úr hvaða salti sem er getur hækkað blóðþrýsting. Athugið að margar kryddblöndur eru saltríkar.
  • Minnka smátt og smátt saltnotkun og venja bragðlaukana við minna salt, en það er hægt að gera án þess að það komi niður á bragðupplifun.
  • Lesa á umbúðir og vanda valið við innkaupin.
  • Velja vörur merktar skráargatinu.

Skráargatið. Einfalt að velja hollara

Skoðaðu saltið

Þessi grein var skrifuð þann 02. nóvember 2016

Síðast uppfært 16. ágúst 2019