Hár blóðþrýstingur

Hár blóðþrýstingur eða háþrýstingur er ástand sem eykur líkur á hjartaáfalli, heilablóðfalli og nýrnasjúkdómum. 

Einkenni

Háþrýstingur er oft einkennalaus og getur fólk haft háþrýsting árum saman án þess að taka eftir því. Ástandið getur samt verið alvarlegt og koma einkenni jafnvel ekki fram fyrr en háþrýstingurinn er farinn að skaða önnur líffæri. Helstu einkenni geta þá verið:

 • Sjóntruflanir
 • Höfuðverkur, einkum á morgnana
 • Mæði

Blóðþrýstingsgildi

Tvær tölur eru notaðar til að skýra blóðþrýsting, t.d. 140/90. Hærri talan segir til um þrýstinginn í slagæðunum þegar hjartað dregst saman, en lægri talan er þrýstingurinn í slagæðunum þegar hjartað er í slökun.

Taflan hér að neðan sýnir viðmið fyrir blóðþrýsting:

Hvernig má lækka blóðþrýstinginn?

Ef læknirinn þinn hefur mælt með blóðþrýstingslækkandi lyfjum þá er mikilvægt að taka þau reglulega. Ef lyfin valda aukaverkunum, þá skaltu ræða það við lækninn þinn, því hann gæti viljað breyta skammtinum eða breyta um lyf.

Regluleg inntaka á blóðþrýstingslækkandi lyfjum getur komið í veg fyrir að þú fáir hjartaáfall eða heilablóðfall og þar með bjargað lífi þínu.

Hvað get ég gert?

Þú getur haft áhrif á blóðþrýstinginn þinn með því að:

 • Létta þig - ef þú ert í yfirvigt.
 • Velja fituminni fæðu og meira af grænmeti og ávöxtum.
 • Minnka saltneyslu.
 • Hreyfa þig 30 mín á dag, flesta daga.
 • Minnka áfengisdrykkju (ef þú drekkur meira en 2 glös á dag).

Hér finnur þú ráð til að aðstoða þig við að breyta venjum þínum.

Gott ráð er að fá sér blóðþrýstingsmæli til að fylgjast með blóðþrýstingnum heima. Ef þú fylgist reglulega með eigin blóðþrýstingi gengur betur að hafa áhrif á hann til lækkunar.

Blóðþrýstingsmæling heima:

 • Blóðþrýstingsmælar fást í apótekum og ýmsum heilsuvörubúðum.
 • Sestu niður og hvíldu þig í 5 mínútur áður en mæling hefst.
 • Gættu þess að það séu í það minnsta 30 mínútur liðnar frá síðustu máltíð, æfingu, baði, reykingum eða áfengis neyslu.
 • Fylgdu leiðbeiningum mælisins um staðsetningu mælisins á hendinni og mældu.
 • Skráðu mælinguna.
 • Mældu síðan blóðþrýstinginn reglulega, ávallt á sama tíma dagsins.
 • Skráðu hjá þér mælingarnar þínar og komdu með þær í næstu heimsókn á heilsugæsluna.

Samskipti við heilsugæsluna

Hafðu samband fljótlega við heilsugæsluna ef reglulegar blóðþrýstingsmælingar þínar eru yfir 140/90

Hafðu samband strax við heilsugæsluna ef blóðþrýstingsmælingar þínar eru í kringum 180/120

Hafðu strax samband við heilsugæsluna þína ef blóðþrýstingsmælingar þínar eru yfir 140/90 og þú finnur fyrir eftirfarandi einkennum:

 • Sjóntruflanir
 • Höfuðverkur, einkum á morgnana
 • Ógleði, uppköst
 • Sljóleiki eða skert meðvitund
 • Erfiðleikar með tal
 • Erfiðleikar með öndun
 • Verkir í brjósti, baki eða síðu
 • Brúnt eða blóðugt þvag

Finndu næstu heilsugæslustöð.

Þessi grein var skrifuð þann 09. janúar 2017

Síðast uppfært 18. júlí 2019