Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Tóbak og meðganga

Kaflar
Útgáfudagur

Þegar von er á barni gefst gott tækifæri til að endurskoða daglegar venjur og huga að heilbrigðu líferni með velferð og heilsu barnsins í huga. Allir verðandi foreldrar óska þess að ófætt barn þeirra verði heilbrigt og hraust en heilbrigt líferni stuðlar að vellíðan foreldra á meðgöngunni. Verðandi móður gengur betur að hætta tóbaksnotkun og halda bindindi ef maki notar ekki tóbak eða reykir.  

Ávinningurinn af því að hætta tóbaksnotkun á meðgöngu

 • Ófædda barnið fær meira súrefni vegna þess að blóðflæði um fylgjuna til barnsins eykst. Meiri líkur eru á að fæðingarþyngd barnsins verði eðlileg. 
 • Minni líkur eru á því að barnið fæðist fyrir tímann. 
 • Barnið er betur búið undir fæðinguna ef móðirin notar ekki tóbak. Blóðflæði til barnsins verður betra og það fær meira súrefni.
 • Eftir fæðingu er líklegra að barnið komist heim af fæðingardeildinni á sama tíma og móðirin. Meiri líkur eru á að lungnastarfsemin verði eðlileg og minni hætta er á því að barnið verði fyrirburi. Barnið verður hraustara og værara þannig að líkur eru á að foreldrarnir fái betri svefn og hvíld.
 • Hætta á vöggudauða minnkar sé reykingum á meðgöngu hætt.
 • Barnið fær síður ofnæmi, astma eða önnur lungnavandamál.
 • Ávinningurinn fyrir verðandi foreldra er einnig mikill. Verðandi mæður hafa lýst léttinum sem fylgir því að hætta tóbaksnotkun og þær upplifa betri tengsl við ófædda barnið. Þær finna fyrir jákvæðari tilfinningum og hafa minni áhyggjur af meðgöngunni. Flestir verðandi foreldrar vilja einnig vera góðar fyrirmyndir fyrir barnið sitt.
 • Við tóbaksbindindi eru meiri líkur á að meðgangan verði eðlileg og þar með ánægjulegri upplifun fyrir báða foreldra.
 • Þegar reykingum er hætt er reykingalyktin á bak og burt, fjármunir sparast og framtíðin virðist bjartari. 

Áhættan sem felst í tóbaksnotkun á meðgöngu

 • Börn mæðra sem nota tóbak á meðgöngu verða fyrir vaxtarskerðingu vegna þess að súrefnisflæði til barnsins er skert. Vaxtarskerðingin verður að miklu leyti í mikilvægustu líffærum barnsins m.a. heila og beinum en tekur annars til flestallra líffæra. Mælingar á höfuðmáli, búk og lengd barnsins sýna að þau fæðast að meðaltali með minna höfuð (minni heila), eru léttari og styttri en börn þeirra sem ekki nota tóbak. Talið er að tóbaksnotkun á meðgöngu séu orsök 20-30% af öllum léttburafæðingum.
 • Konur sem nota tóbak á meðgöngu eru í meiri hættu á að fæða fyrir tímann, fá fylgjulos eða blæðingu á meðgöngu. Það hefur áhrif á lífslíkur barnsins og þroska þess. Talið er að tóbaksnotkun á meðgöngu sé orsök 10-15% fyrirburafæðinga.
 • Meiri líkur eru á vöggudauða ef móðir reykir á meðgöngu og ef reykt er í umhverfi ungbarns.
 • Tóbaksnotkun á meðgöngu fylgir oft sektarkennd og vanlíðan.

Óbeinar reykingar

Áhættan sem fylgir reykingum á meðgöngu er vel þekkt hvort sem um beinar reykingar er að ræða eða óbeinar. Reykurinn sem stígur upp af glóð sígarettu annarrar manneskju er líka hættulegur fyrir barnshafandi konur. Ef kona hættir áður en hún verður barnshafandi eða meðan á meðgöngu stendur minnkar hættan á ofangreindum heilsufarsvandamálum. Verðandi foreldrar ættu alltaf að vega og meta áhættuna sem þau taka með reykingum á móti ávinningnum af því að hætta. Vilji þau búa barni sínu bestu skilyrði ættu þau ekki að reykja.

Hvar má fá stuðning

 • Í mæðraverndinni er hægt að fá stuðning til reykleysis hjá ljósmóður eða heimilislækni.
 • Hægt er að fá meðferð og stuðning við að hætta tóbaksnotkun á netspjalli hér á síðunni og í síma 5131700.
 • Hér á síðunni eru líka góð ráð.

Ljósmóðir í síma 513-1700 alla virka daga milli 10-12

Nýtt líf án tóbaks - langt
Nýtt líf án tóbaks - nýburalæknir
Nýtt líf án tóbaks- ljósmóðir
Nýtt líf án tóbaks - fæðingarlæknir
Nýtt líf án tóbaks - stutt