Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Á meðgöngu

Kaflar
Útgáfudagur

Áfengi og önnur vímuefni fara auðveldlega yfir fylgju og geta haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir barnið. Barnshafandi konur ættu hvorki að neyta áfengis né annarra vímuefna.

Ef þú átt erfitt með að hætta neyslu áfengis eða vímuefna án aðstoðar, ættirðu að leita ráða hjá ljósmóður eða lækni sem fyrst.

Ljósmóðir í síma 513-1700 alla virka daga milli 10-12

Áfengi

Áhrif áfengis á fóstur hafa mikið verið rannsökuð og skaðsemi þess kemur sífellt betur í ljós. Áfengisneysla á meðgöngu eykur líkur á fósturlátum, fyrirburafæðingum og andvana fæðingum.

Mikil áfengisneysla getur valdið alvarlegum skaða sem kallast FAS - Fetal Alcohol Syndrome – heilkenni fósturskaða af völdum áfengis. Einkenni þessa heilkennis eru líkamleg vansköpun, vaxtarskerðing og röskun á starfsemi miðtaugakerfisins.

Minna magn áfengis getur valdið ýmsum taugasálfræðilegum einkennum sem koma fram í athyglisbresti, litlum félagsþroska, ofvirkni, námsörðugleikum og málhömlunum. Rannsóknir benda til þess að jafnvel lítið magn áfengis á meðgöngu geti valdið einhverjum af framangreindum taugasálfræðilegum einkennum.

Ölvunardrykkja (það eru 5 drykkir eða meira) á meðgöngu eykur líkur á námsörðugleikum og athyglisbresti hjá börnunum.

Ölvunardrykkja snemma á meðgöngu og á þriðja tímabili meðgöngu er sérstaklega varhugaverð.

Kannabis- marijuana

Æ fleiri rannsóknir sýna fram á að kannabisneysla á meðgöngu getur hamlað eðlilegum þroska taugakerfis fóstursins og getur það komið fram á margvíslegan hátt. Reykingar og notkun tóbaks með kannabis og/eða marijuana neyslu getur aukið þessi áhrif.

Börnin geta átt við svefnvanda að stríða; þau vakna oftar, vaka lengur og eru óróleg í svefni. Þetta á bæði við ungabörn og börn á forskólaaldri.

Á forskólaaldri eiga þau erfiðara með að leysa verkefni sem krefjast athygli og minnis. Á grunnskólaaldri er athyglisbrestur algengari hjá þessum hópi barna.

Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á hærri tíðni þunglyndis og kvíða á unglingsárunum.

Kókaín

Kókaín getur bæði haft skaðleg áhrif á fóstur og breytt eðlilegum gangi meðgöngunnar.

Verulega hærri tíðni er á fósturlátum, fylgjulosi, fyrirburafæðingum og andvana fæðingum hjá þeim konum sem neyta kókaíns á meðgöngu.

Rannsóknir benda til þess að það dragi úr vexti og þroska barna í móðurkviði. Þá er höfuðmál þeirra undir meðaltali við fæðingu.

Á forskólaaldri eru börnin líklegri til að hafa skertan vitsmunaþroska, minni málþroska og málskilning og fínhreyfiþroski þeirra er skertur.

Á grunnskólaaldri geta þau átt við einbeitingarskort og hegðunarvandamál að stríða og námsörðugleikar eru algengari hjá þeim.

Amfetamín

Rannsóknir hafa sýnt fram á að amfetamínneysla á meðgöngu getur valdið vaxtarskerðingu hjá fóstri.

Við fæðingu eru börnin smá og með höfuðmál undir meðallagi.

Einnig eru þau líklegri til að eiga við hegðunarvandamál að stríða, vera á eftir í hreyfiþroska og eiga í erfiðleikum með nám.

E-taflan - Ecstacy

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum E-töflu á fóstur.

Þó hefur verið sýnt fram á tengsl sköpulagsgalla fósturs og inntöku E-töflu á fyrsta þriðjungi meðgöngu, meðal annars ýmsir hjartagallar og klumpufótur.

E-tafla inniheldur að hluta til samskonar efni og amfetamín og þess vegna má gera ráð fyrir að áhrif þess á fóstur séu svipuð.