Bráð þvagfærasýking eða blöðrubólga (e. cystitis) er sýking af völdum baktería sem hafa komist upp þvagrásina og í þvagblöðruna. Hún er algeng meðal kvenna og getur verið óþægileg en er oftast skaðlaus. Þvagfærasýking er algengari hjá konum eftir breytingaskeið vegna minnkandi framleiðslu á kvenhormóninu estrogen.
30% kvenna læknast af sjálfu sér án meðferðar á einni viku. Blöðrubólgur fara sjaldnast yfir í sýkingar í nýrum.
Einkenni
Helstu einkenni bráðrar þvagfærasýkingar/blöðrubólgu eru:
- Sviði við þvaglát
- Bráð þörf á að hafa þvaglát
- Tíð þvaglát
Hvað get ég gert?
- Drekktu vel.
- Forðastu koffín-drykki og áfengi.
- Hafðu þvaglát fyrir og eftir samfarir.
- Gættu þess að byrja að framan og þurrka aftur að endaþarmi þegar þú þurrkar þér að neðan.
- Veldu nærbuxur úr bómull.
- Þvoðu kynfærin eingöngu með vatni, ekki sápu.
- Ekki nota ilmklúta og ilmsprey á kynfærin.
Hjálpar trönuberjasafi?
Engar rannsóknir hafa getað sýnt fram á að trönuberjasafi lækni eða fyrirbyggi blöðrubólgu. En ef þú vilt prófa trönuberjasafann í þessum tilgangi, skaðar hann líklega ekki heldur.
Hvenær skal leita aðstoðar?
Ef þú ert með tvö af þremur ofangreindum einkennum ertu líklega með bráða þvagfærasýkingu.
Ef einkennin eru væg, getur þú freistað þess að blöðrubólgan lagist af sjálfu sér. Eins getur þú leitað til heilsugæslunnar og fengið lyfseðil í lyfjagáttina sem þú getur síðan leyst út ef einkennin versna.
Hafðu strax samband við hjúkrunarfræðing á heilsugæslustöð ef þú ert með einkenni þvagfærasýkingar og eitthvað af eftirfarandi:
- Ert barnshafandi
- Hiti yfir 38°C eða verkur í síðu/baki
- Nýlega fengið meðferð við þvagfærasýkingu
- Grunar að þú getir verið með kynsjúkdóm
- Nýlega verið inniliggjandi á sjúkrahúsi
- Nýlega verið erlendis
Í þessum tilfellum ertu e.t.v. beðin um að skila þvagsýni (miðbunuþvag, helst morgunþvag) því það er sent í ræktun til frekari rannsóknar. Hægt er að koma með þvagsýni á dagvakt heilsugæslunnar á opnunartíma.