Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Á ferðum erlendis

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Flest viljum við njóta ferðalaga án þess að þurfa að takast á við veikindi. Til að minnka líkur á veikindum þarf ferðalagið að fá vandaðan undirbúning. Þetta á sérstaklega við um ferðir á framandi slóðir þar sem sjúkdómar sem ekki þekkjast á Íslandi eru landlægir. Undirbúningur fer eftir því hvert skal halda. 

Hreinlæti

Ein árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir sýkingar er handþvottur. Hendurnar eru allan daginn í snertingu við hluti sem geta borið smit og þó flestar örverur valdi ekki sjúkdómum leynast inn á milli örverur og sníkjudýr sem valda sýkingum.

  • Gott að vera með lítinn sprittbrúsa eða sótthreinsiklúta meðferðis sem hægt er að grípa til ef aðgengi að sápu og vatni er takmarkað.

Drykkjarvatn

Ávallt skal ganga úr skugga um hvort óhætt sé að drekka kranavatn í því landi sem dvalið er. Algengt er að kranavatn sé ekki neysluhæft. Getur þar verið um að ræða mengun vegna efna, einfrumunga, baktería og veira.

Á ferðum úti í náttúrunni þarf að kanna hvort óhætt sé að drekka vatn úr ám og lækjum. Á svæðum þar sem vatn er sýnilega óhreint eða hætta er á efnamengun ætti að bera með sér allt drykkjarvatn sé þess nokkur kostur.

  • Drekka öruggt drykkjarvatn úr flöskum
  • Ekki ætti að borða ís eða nota ísmola

Dæmi um smitsjúkdóma sem geta borist með megnuðu vatni er: Kólera, Lifrarbólga A, nóróveira, taugaveiki og mænusótt.

Matarsýkingar

Hætta á matarsýkingum er meiri í löndum utan Norðurlandanna, Vestur og Suður Evrópu, Kanada, Bandaríkjanna, Ástralíu og Japan. Í þessum löndum er í lagi að neyta alls almenns matar ef viðhaft er sama hreinlæti og almennt ætti að gera hér á landi.

Í löndum Austur Evrópu, Asíu, Suður-Ameríku og Afríku ætti ekki að borða hrátt grænmeti eða ávexti með hýðinu.

  • Öruggast er að afhýða sjálfur ávexti og grænmeti
  • Almennt ætti ekki að borða hráan mat eða endurhitaðan
  • Öruggastur er nýsoðinn matur

Dæmi um smitsjúkdóma sem geta borist með sýktum mat: Lifrarbólga A, nóróveira, salmonella, taugaveiki og mænusótt.

Bit

Stungur og bit skordýra geta verið óskemmtileg og valdið óþægindum og í sumum tilvikum alvarlegum sjúkdómum. Því er gott að þekkja helstu leiðir til að koma í veg fyrir að verða bitinn eða stunginn. Skordýr sem bíta og stinga eru meðal annars geitungar, býflugur, mý, moskítóflugur, lúsmý, flær og skógarmítill.

Á ferðalagi í löndum þar sem hundaæði er landlægt gæti verið ráðlagt að fara í bólusetningu. Ef ekkert rof er á húð eftir bit er engin smithætta. Hins vegar ef bit kemur frá mögulega sýktum einstaklingi gæti verið boðið upp á blóðprufu til að athuga með lifrarbólgu- eða HIV smit.

  • Kynna sér viðbrögð við dýra- og mannabiti
  • Halda fjarlægð við og klappa ekki ókunnugum dýrum
  • Reyni dýr að hrifsa eitthvað, til dæmis vatnsflösku, er betra að sleppa takinu því dýrið gæti klórað eða bitið
  • Ef börn eru með í för þarf að kenna þeim að segja frá ef þau eru bitin eða klóruð af dýri

Bólusetningar

Almennt má segja að ef ferðast er til Norðurlandanna, Vestur og Suður Evrópu, Kanada, Bandaríkjanna og Japan þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af alvarlegum sjúkdómum. Rétt er þó að ganga úr skugga um hvort barnabólusetningar eru gildar. Mælt er með því að fá örvunarskammt gegn barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og lömunarveiki á 10 ára fresti.

  • Sé ætlunin að fara á vit náttúrunnar gæti þurft að huga að öðrum bólusetningum.
  • Ef ætlunin er að ferðast til landa utan þessara svæða sem talin eru upp hér að ofan er ráðlegt að huga að því hvort ástæða er til bólusetninga fyrir ferðalagið.
  • Á vef Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er að finna ítarlegar upplýsingum um útbreiðslu þeirra sjúkdóma sem unnt er að bólusetja gegn.
  • Einnig er notendavænt vefsvæði Centers for Disease Control and Prevention sem ferðalangar geta skoðað og slegið inn viðeigandi upplýsingar til þess að finna út hvaða bólusetninga er þörf.
  • Á netspjallinu hér á síðunni er hægt að sækja um ráðgjöf vegna ferðalaga. Ráðgjöfin byggir á fyrri bólusetningum viðkomandi ásamt upplýsingum um ferðalagið.