Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Stífkrampi

Kaflar
Útgáfudagur

Stífkrampi (e. tetanus) er alvarleg sýking sem orsakast af bakteríu sem nefnist Clostridium tetani. Baktería þessi er til staðar víða í náttúrunni, svo sem í jarðvegi og húsdýraskít en hún finnst í þörmum manna og dýra (sem eru grasætur) án þess að valda þar skaða. Þegar bakterían berst í sár framleiðir hún eitur sem leggst á miðtaugakerfi manna, veldur stífleika og krömpum sem geta verið lífshættulegir.

Einkenni

Fyrstu einkenni sýkingar geta verið:

  • Hiti
  • Sviti
  • Hraður púls
  • Pirringur
  • Staðbundnir verkir í vöðvum næst sárinu

Einnig getur sést stífleiki í kjálka, samdráttur í andlitsvöðvum, erfiðleikar við að kyngja og öndun. Kramparnir og stífleikinn geta breiðst út um allan líkamann s.s. til kvið- og bakvöðva og valdið öndunar- og hjartastoppi.

Smitleiðir

Smit verður vegna óhreininda sem komast í stungusár eða opin sár. Bakterían býr um sig í sárinu og fer að framleiða eitur sem berst með blóðrásinni um líkamann og leggst einkum á miðtaugakerfið og vöðva. Frá því að smit verður geta liðið allt frá einum degi upp í einn mánuð fyrir einkenni að koma fram en algengast er að þau komi fram eftir 6-8 daga. Smit berst ekki á milli manna.

Greining

Sjúkdómurinn er yfirleitt greindur af sögu og einkennum. Hægt er einnig að greina bakteríuna í stroki frá sárinu.

Meðferð

Til er móteitur sem virkar ef nægilega fljótt er gripið til þess. Önnur meðferð er sárameðferð, sýklalyf og lyf við krömpum. Alvarleg sýking af völdum stífkrampa krefst innlagnar á sjúkrahús.

Forvarnir

Stífkrampi er nánast óþekktur hérlendis enda veitir bólusetning gegn honum öfluga vörn.

Sýkingar af völdum bakteríunnar eru sjaldgæfar í þeim löndum þar sem bólusetning gegn henni er almenn en í þeim löndum sem ekki er bólusett er dánartíðni há.

Fyrirkomulag barnabólusetninga.

Almennt eru aukaverkanir af barnabólusetningum vægar. 

Almennt er mælt með endurbólusetningu ef liðin eru meira en 10 ár frá síðustu bólusetningu. 

Mælt er með örvunarskammti fyrir fólk sem fær óhreinindi í sár ef meira en 5 ár eru liðin frá síðustu bólusetningu og ef fólk veit ekki hvenær síðasta bólusetning var. 

Finna næstu heilsugæslustöð eða bráðamóttöku hér.