Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Stífkrampi

Kaflar
Útgáfudagur

Stífkrampi (e. tetanus) er alvarleg sýking sem orsakast af bakteríu sem nefnist Clostridium tetani. Baktería þessi er til staðar víða í náttúrunni, svo sem í jarðvegi og húsdýraskít en hún finnst í þörmum manna og dýra (sem eru grasætur) án þess að valda þar skaða. Þegar bakterían berst í sár framleiðir hún eitur sem leggst á miðtaugakerfi manna, veldur stífleika og krömpum sem geta verið lífshættulegir.

Einkenni

Fyrstu einkenni sýkingar geta verið:

  • Hiti
  • Sviti
  • Hraður púls
  • Pirringur
  • Staðbundnir verkir í vöðvum næst sárinu

Einnig getur sést stífleiki í kjálka, samdráttur í andlitsvöðvum, erfiðleikar við að kyngja og öndun. Kramparnir og stífleikinn geta breiðst út um allan líkamann s.s. til kvið- og bakvöðva og valdið öndunar- og hjartastoppi.

Smitleiðir og meðgöngutími

Smit verður vegna óhreininda sem komast í stungusár eða opin sár. Bakterían býr um sig í sárinu og fer að framleiða eitur sem berst með blóðrásinni um líkamann og leggst einkum á miðtaugakerfið og vöðva. Frá því að smit verður geta liðið allt frá einum degi upp í einn mánuð fyrir einkenni að koma fram en algengast er að þau komi fram eftir 6-8 daga. Smit berst ekki á milli manna.

Greining

Sjúkdómurinn er yfirleitt greindur af sögu og einkennum. Hægt er einnig að greina bakteríuna í stroki frá sárinu.

Meðferð

Til er móteitur sem virkar ef nægilega fljótt er gripið til þess. Önnur meðferð er sárameðferð, sýklalyf og lyf við krömpum. Alvarleg sýking af völdum stífkrampa krefst innlagnar á sjúkrahús.

Forvarnir

Eina örugga vörnin er bólusetning. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4ra og 14 ára aldur. Þar sem að verndandi áhrif bólusetningar endist ekki ævilangt þá er mælt með endurbólusetningu ef liðin eru meira en 10 ár frá síðustu bólusetningu hjá einstaklingi sem fær óhreinindi í sár.

 Fyrirkomulag barnabólusetninga.

Upplýsingar um bólusetningar barna. 

Sýkingar af völdum bakteríunnar eru sjaldgæfar í þeim löndum þar sem bólusetning gegn henni er almenn en í þeim löndum sem ekki er bólusett er dánartíðni há.

Finna næstu heilsugæslustöð eða bráðamóttöku hér.

Bóluefni

Bólusetning gegn stífkrampa er hluti af barnabólusetningu.

Bóluefni gegn barnaveiki, kíghósta, stífkrampa, mænusótt og haemophilus influenzae Hib (e. Diphtheria, Pertussis, Tetanus, Poliomyelitis, Haemophilus influenzae) er í einni og sömu sprautunni.

Bólusefnið heitir Pentavac og er gefið við þriggja, fimm og tólf mánaða aldur.

Örvunarbólusetning er fyrst gefin við 4 ára aldur með bóluefninu Booztrix og aftur við 14 ára aldur með bóluefninu Booztrix polio eða Repevax.

Ráðlagt er að fá örvunarbólusetningu með bóluefninu Booztrix polio eða Repevax á 10 ára fresti eftir 14 ára aldur. 

Frábendingar: Bóluefnið á aðeins að gefa í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing ef: 

  • Grunur um ofnæmi fyrir bóluefninu eða einhverju innihaldsefni þess t.d. glútaraldehýði, neomycíni, streptomycíni eða polyxímíni B
  • Hár hiti eða bráðan sjúkdóm (t.d. eymsli í hálsi, hósta, kvef eða flensu)
  • Fólk er í ónæmisbælandi meðferð
  • Fólk hefur áður fengið alvarlegar aukaverkanir af bólusetningu 
  • Fólk er með virkan heilasjúkdóm
  • Skert ónæmiskerfi
  • Blóðflagnafæð eða blæðingarsjúkdómur er til staðar

Aukaverkanir: Almennt vægar. Börn geta í einstaka tilfellum fengið hita og jafnvel útbrot einhverjum dögum eftir bólusetningu. Þá getur stungustaður verið aumur og jafnvel rauður og þrútinn í nokkra daga.

Ef grunur um alvarleg ofnæmisviðbrögð skal leita tafarlaust til læknis.