Hiti hjá börnum

Almennt er talað um að börn séu komin með hita ef líkamshiti þeirra fer yfir 38°C, en mörkin eru mismunandi eftir því hvernig hitinn er mældur.

Eftirfarandi viðmið eru notuð fyrir mismunandi mæla:

 • Endaþarmsmælir, eyrnamælir: hiti ef mælirinn sýnir >38°C
 • Munnmælir: hiti ef mælirinn sýnir >37,8°C
 • Holhandarmælir: hiti ef mælirinn sýnir >37,2°C

Holhandar-, eyrna- og ennismælar eru auðveldari í notkun heldur en endaþarms- og munnmælar en þeir eru ekki eins nákvæmir. Yfirleitt er hægt að nota munnmæla hjá börnum þegar þau hafa náð 4 ára aldri. En endaþarmsmælingin er talin nákvæmust. Áreiðanlegasta hitamælingin fæst ef börn eru í hvíld.

Helstu ástæður hita hjá börnum?

Algengustu ástæður fyrir hita hjá börnum eru:

 • Kvef eða flensa
 • Öndunarfærasýking
 • Magapest

Börn geta líka fengið hita í kjölfar bólusetningar.

Hvað get ég gert?

 • Fylgist með hitanum á 2-4 tíma fresti.
 • Haldið vökva að barninu. Börn eru oft lystarlaus þegar þau eru með hita. Leggið því meiri áherslu á að barnið drekki heldur en borði.
 • Gefið hitalækkandi lyf á 4-6 tíma fresti ef barninu líður illa. Til dæmis paracet eða panodil junior eftir aldi og þyngd barnsins. Skammtastærð miðast við þyngd barnsins og er 10-15 mg paracetamol á hvert kg líkamsþyngdar í senn, 1-4 sinnum á dag. Hiti er eðlilegt varnarviðbragð líkamans og því er óþarfi að gefa hitalækkandi lyf ef barninu líður ekki illa með hitanum.  
 • Skapið rólegt og notalegt umhverfi fyrir barnið og leyfið því að hvílast þegar það vill, án þess þó að þvinga það til að hvílast.
 • Hafið barnið í léttum og þægilegum fatnaði og notið lak í stað sængur.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslunnar ef eftirfarandi einkenni koma fram:

 • Hiti hefur varað í 3 sólarhringa og lækkar lítið við hitalækkandi lyf eða engin sýnileg ástæða er fyrir hitanum.
 • Gult hor/slím hefur verið samhliða hitanum í yfir 3 sólarhringa.
 • Barn er með langvinnan sjúkdóm, s.s. sykursýki, flogaveiki.
 • Barninu finnst sárt að pissa.
 • Blæðing, útferð eða verkir í leggöngum.
 • Uppköst, niðurgangur eða verkir í maga.
 • Verkur í eyrum, eða hálsi.
 • Barnið er með útbrot.

Finndu næstu heilsugæslustöð.

Leitaðu til bráðamóttöku ef eftirfarandi einkenni koma fram:

 • Barnið á erfitt með andardrátt.
 • Húð eða varir eru bláleitar.
 • Getur ekki kyngt, slefar mikið.
 • Fjólubláir eða blóðlitaðir litlir punktar eða doppur á húð barnsins.
 • Mikill höfuðverkur eða mikill magaverkur.
 • Krampar
 • Útbrot, rauð tunga og stækkaðir eitlar á hálsi.
 • Barnið virðist mjög veikt, mjög slappt eða mjög pirrað.

Leitaðu til bráðamóttöku ef hitinn (endaþarmsmæling) fer yfir eftirfarandi mörk:

 • Hiti er yfir 38°C hjá börnum yngri en 3 mánaða.
 • Hiti nær 40°C hjá börnum 2-6 mánaða, eða þau eru með niðurgang eða uppköst.
 • Hiti er yfir 40°C og lækkar lítið þrátt fyrir hitalækkandi lyf.

Leitaðu til bráðamóttöku ef merki eru um að barnið er að þorna:

 • Minnkuð þvaglát, mjög dökkt þvag.
 • Sokkin augu.
 • Þurr munnur og varir.
 • Grátur án tára.

Finndu næstu bráðamóttöku.

 

Þessi grein var skrifuð þann 24. maí 2017

Síðast uppfært 08. september 2020