Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hitakrampi hjá börnum

Kaflar
Útgáfudagur

Hitakrampi (e. heat cramps) geta komið í kjölfar sótthita hjá börnum. Stuttir hitakrampar eru yfirleitt hættulausir og valda barninu ekki skaða. Það er óhuggulegt að sjá hitakrampa í fyrsta skipti og alltaf skal þá leita til læknis og/eða hringja á sjúkrabíl. Einnig skal leita læknis þegar krampi stendur yfir í meira en fimm mínútur eða ef endurteknir krampar eiga sér stað.

Einkenni

 • Hitakrampar eru algengastir þegar hiti hækkar hratt í upphafi veikinda
 • Oft byrjar hitakrampinn á kokhljóði sem verður vegna samdráttar í vöðvum
 • Skyndileg skerðing á meðvitund
 • Augu renna upp á við
 • Barnið stífnar upp og/eða taktfastir kippir fara um líkamann
 • Öndun verður grunn og óregluleg
 • Blámi eða fölvi á vörum og kringum munninn
 • Flestir hitakrampar standa í hálfa til þrjár mínútur en geta staðið lengur
 • Sótthiti yfir 38˚C eftir krampa
 • Börn verða oftast mjög þreytt eftir að krampa lýkur og sofna oftast, en svara áreiti

Algengi

Um 5% barna fá hitakrampa a.m.k. einu sinni. Yfirleitt eru þetta börn á aldrinum 1-3 ára. Eftir fyrsta hitakrampa eru 30% líkur á endurtekningu

Orsök

Orsök hitakrampa er sótthiti, oftast af völdum umgangspesta. Ekki er vitað af hverju sum börn fá hitakrampa en önnur ekki. Hitakrampi hjá heilbrigðu barni hefur ekki áhrif á þroska.

Hvað get ég gert?

 • Vera róleg, barnið er ekki í lífshættu.
 • Taka tímann, hversu lengi varir krampinn?
 • Leggja barnið niður og á hliðina, þar sem það meiðir sig ekki á neinu. Einnig til að hugsanleg uppköst og munnvatn renni út úr munni þess en ekki ofan í kok.
 • Fylgjast með framvindu krampans, þ.e. hvar er barnið stíft, hvar eru kippir, hvernig eru augu og litarháttur barns. Tala rólega til barnsins meðan krampinn stendur yfir.
 • Þegar krampinn hættir, reynið að lækka hita hjá barninu og láta því líða vel t.d. með því að hafa það einungis á nærfötum og gefa því hitalækkandi lyf.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til bráðamóttöku ef: 

 • Ef barnið hefur ekki fengið hitakrampa áður
 • Hitakrampi varir ennþá eftir fimm mínútur
 • Annar krampi byrjar fljótlega eftir að sá fyrsti hættir
 • Barnið er ekki með fulla meðvitund fyrir krampa 
 • Barnið er ekki með fulla meðvitund einni klukkustund eftir krampa
 • Þig grunar að sótthitinn hjá barninu geti verið vegna alvarlegra veikinda, t.d. ef þig grunar að barnið sé með alvarlega sýkingu eins og heilahimnubólgu

Finna næstu heilsugæslustöð eða bráðamóttöku hér.