Kíghósti er alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum einkum á fyrstu mánuðum ævinnar en hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn sem langvarandi og þrálátur hósti. Sýkingin stafar af bakteríu sem framleiðir eiturefni sem veldur slæmum hóstaköstum.
Smitleiðir og meðgöngutími
Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra). Meðgöngutími sjúkdómsins er yfirleitt um 2-3 vikur.
Einkenni
- vægt kvef
- vaxandi hósti
- slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar.
Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Síðari einkenni eru:
- hnerri
- nefrennsli
- hiti
Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur.
Ungum börnum er sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum sýkingarinnar sem geta verið öndunarstopp, krampar, lungnabólga, truflun á heilastarfsemi og dauði.
Greining
Sjúkdóminn má staðfesta með ræktun frá nefi.
Meðferð
Meðferð fer eftir hversu mikill sjúkdómurinn er. Sýklalyf gera lítið gagn, nema mjög snemma á sjúkdómsferlinum. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntekt og næringu. Lítil börn með kíghósta þurfa iðulega að dveljast langtímum á sjúkrahúsi.
Forvarnir
Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja þau ung því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í um 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Víða erlendis hefur verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu fullorðinna en hér á landi hefur einungis verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu heilbrigðisstarfsmanna.