Kíghósti er alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum einkum á fyrstu mánuðum ævinnar en hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn sem langvarandi og þrálátur hósti. Sýkingin stafar af bakteríu sem framleiðir eiturefni sem veldur slæmum hóstaköstum.
Einkenni
- Vægt kvef
- Vaxandi hósti
- Slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar
Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Síðari einkenni eru:
- Hnerri
- Nefrennsli
- Hiti
Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur.
Ungum börnum er sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum sýkingarinnar sem geta verið öndunarstopp, krampar, lungnabólga, truflun á heilastarfsemi og dauði.
Smitleiðir og meðgöngutími
Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra). Meðgöngutími sjúkdómsins er yfirleitt um 2-3 vikur.
Greining
Sjúkdóminn má staðfesta með ræktun frá nefi.
Meðferð
Meðferð fer eftir hversu mikill sjúkdómurinn er. Sýklalyf gera lítið gagn, nema mjög snemma á sjúkdómsferlinum. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntekt og næringu. Lítil börn með kíghósta þurfa iðulega að dveljast langtímum á sjúkrahúsi.
Finna næstu heilsugæslustöð hér.
Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja þau ung því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í um 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Víða erlendis hefur verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu fullorðinna en hér á landi hefur einungis verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu heilbrigðisstarfsmanna.