Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kíghósti

Kaflar
Útgáfudagur

Kíghósti (e. pertussis) er öndunarfærasýking sem orsakast af bakteríunni bordetella pertussis. Hann er algengastur hjá börnum, einkum á fyrstu mánuðum ævinnar. Hjá unglingum og fullorðnum birtist sjúkdómurinn sem langvarandi og þrálátur hósti. Sýkingin stafar af bakteríu sem framleiðir eiturefni sem veldur slæmum hóstaköstum. Bólusett er gegn kíghósta í barnabólusetningum. 

Einkenni

 • Vægt kvef
 • Vaxandi hósti
 • Slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar

Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Síðari einkenni eru:

 • Hnerri
 • Nefrennsli
 • Hiti

Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur.

Smitleiðir og meðgöngutími

Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra). Meðgöngutími sjúkdómsins er yfirleitt um 2-3 vikur.

Greining

Sjúkdóminn má staðfesta með ræktun frá nefi.

Fylgikvillar

Ungum börnum er sérlega hætt við alvarlegum fylgikvillum sýkingarinnar sem geta verið:

 • Öndunarstopp
 • Krampar
 • Lungnabólga
 • Truflun á heilastarfsemi 

Kíghósti er ekki jafn alvarlegur hjá eldri börnum og fullorðnum en mikill hósti getur haft í för með sér:

 • Eyrnabólgu
 • Kviðslit
 • Verki í rifbeinum
 • Þvagleka við mikinn hósta

Meðferð

 • Í flestum tilfellum þarf ekki sérstaka meðferð, flestir hér á landi eru bólusettir gegn kíghósta
 • Meðferð snýr helst að því að taka inn verkjalyf og drekka vel af vökva
 • Börn undir 6 mánaða fá oftast meðferð inni á sjúkrahúsi
 • Í sumum tilfellum eru gefin sýklalyf til að drepa niður bakteríuna en þau minnka sjaldnast einkennin. Lyfin eru þá gefin til að minnka líkur á smithættu og virka aðeins ef gefin eru innan þriggja vikna frá því að hósti byrjaði. 

Hvað get ég gert?

 • Heit gufa getur hjálpað. Skrúfa frá heita vatninu inná baðherbergi, loka hurðinni og sitja þar í 20-30 mínútur.
 • Hækka undir höfðalaginu á nóttinni
 • Heitir drykkir geta hjálpað
 • Næg vökvainntekt 
 • Næg hvíld
 • Forðast áreiti eins og reykingar og sterk lyktarefni
 • Hóstasaft gerir lítið gagn gegn kíghósta 

Til að koma í veg fyrir útbreiðslu smita þurfa einstaklingar með kíghósta að draga eins og kostur er úr umgengni við ungbörn og nota skurðstofumaska ef leita þarf til heilbrigðisþjónustu. 

Finna næstu heilsugæslustöð hér.

Forvarnir

Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn.

Börn eru bólusett ung því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur.

Bóluefnið verndar í um 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni nema farið er í örvunarbólusetningu á 10 ára fresti. 

Byrjað var að bjóða upp á bólusetningu fyrir verðandi mæður árið 2019. Þegar bólusett er á öðrum eða þriðja þriðjungi meðgöngu myndast verndandi mótefni sem fylgjan flytur til barnsins. Mótefnin geta varið barnið strax frá fæðingu og ver barnið þar til barnabólusetningar taka við.Oftast er bólusett við 28. til 32. viku. 

Fyrirkomulag barnabólusetninga.

Bóluefni

Bólusetning gegn kíghósta er hluti af barnabólusetningu.

Bóluefni gegn barnaveiki, kíghósta, stífkrampa, mænusótt og haemophilus influenzae Hib (e. Diphtheria, Pertussis, Tetanus, Poliomyelitis, Haemophilus influenzae) er í einni og sömu sprautunni.

Hvenær gefið: Bólusefnið heitir Pentavac og er gefið við þriggja, fimm og tólf mánaða aldur.

Örvunarbólusetning er fyrst gefin við 4 ára aldur með bóluefninu Booztrix og aftur við 14 ára aldur með bóluefninu Booztrix polio eða Repevax.

Ráðlagt er að fá örvunarbólusetningu með bóluefninu Booztrix polio eða Repevax á 10 ára fresti eftir 14 ára aldur. 

Frábendingar: Bóluefnið á aðeins að gefa í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing ef: 

 • Grunur um ofnæmi fyrir bóluefninu eða einhverju innihaldsefni þess t.d. glútaraldehýði, neomycíni, streptomycíni eða polyxímíni B
 • Hár hiti eða bráðan sjúkdóm (t.d. eymsli í hálsi, hósta, kvef eða flensu)
 • Fólk er í ónæmisbælandi meðferð
 • Fólk hefur áður fengið alvarlegar aukaverkanir af bólusetningu 
 • Fólk er með virkan heilasjúkdóm
 • Skert ónæmiskerfi
 • Blóðflagnafæð eða blæðingarsjúkdómur er til staðar

Aukaverkanir: Almennt vægar. Börn geta í einstaka tilfellum fengið hita og jafnvel útbrot einhverjum dögum eftir bólusetningu. Þá getur stungustaður verið aumur og jafnvel rauður og þrútinn í nokkra daga.

Ef grunur um alvarleg ofnæmisviðbrögð skal leita tafarlaust til læknis.