Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Lungnabólga

Kaflar
Útgáfudagur

Lungnabólga (e. pneumonia) er sýking og getur komið fram í öðru eða báðum lungum. Oftast er hún af völdum baktería en getur líka verið vegna veiru- eða sveppasýkinga. Á endum berkjanna í lungunum eru klasar af litlum loftblöðrum sem fyllast af vökva við lungnabólgu og veldur skertri öndun. Veirur eru algeng orsök lungnabólgu hjá ungum börnum til dæmis RS veira. Lungnabólga af völdum sveppa leggst helst á fólk með skert ónæmiskerfi. Hætta á lungnabólgu eykst ef fólki svelgist á eða aðskotahlutur fer í lungu.

Lungnabólga er alvarlegur sjúkdómur, þau sem veikjast geta orðið mjög þungt haldin og verið lengi að jafna sig. 

Einkenni

Einkenni lungnabólgu geta komið á einum til tveimur sólarhringum en þau geta líka gert vart við sig á nokkrum dögum.

Dæmigerð einkenni eru:

  • Hósti, getur verið þurr eða með þykku gulu, grænu eða brúnu slími
  • Hraður hjartsláttur
  • Mæði og andþyngsli
  • Hiti og hrollur
  • Lystarleysi
  • Verkur í brjóstkassa sem versnar við öndun eða hósta
  • Slappleiki og þreyta
  • Höfuðverkur
  • Ógleði eða uppköst
  • Óáttun, sérstaklega meðal eldra fólks.

Hjá börnum eru hiti og hósti algengustu einkennin en hröð öndun og öndunarerfiðleikar geta einnig verið vísbending um lungnabólgu.

Nýburar og mjög ung börn eiga oft erfitt með að nærast og hvílast, ef þau veikjast af lungnabólgu.

Eldra fólk getur verið hitalaust, órólegt og/eða óáttað, getur ekki séð um sig sjálf og þarf stundum að leggjast inn á sjúkrahús.

Greining

Læknar greina lungnabólgu með því að spyrja um sjúkrasögu og sjúkdómseinkenni. Þau hlusta lungun með hlustpípu bæði að framan og aftan. Þau gæt einnig hlustað brjóstkassann með því að banka hann því vökvafyllt lungu óma öðruvísi en þau heilbrigðu. Í sumum tilfellum þarf nánari skoðun, röntgen mynd, blóðrannsókn, hrákasýni eða aðrar rannsóknir.

Það getur verið erfitt að greina lungnabólgu því stundum geta einkenni annarra sjúkdóma jafnframt verið til staðar eins og t.d. astma og berkjubólgu.

Meðferð

Meðferð byggist á að lækna sýkinguna og koma í veg fyrir fylgikvilla.

  • Væga lungnabólgu má yfirleitt meðhöndla heima með sýklalyfjum, hvíld og vökva. Mikilvægt er að taka lyfin eftir fyrirmælum læknis.
  • Alvarlegri tilfelli þurfa meðferð á sjúkrahúsi með sýklalyfjum og vökvagjöf í æð í nokkra daga.
  • Ef aðskotahlutur er í lunga þarf að fjarlægja hann með berkjuspeglun.

Að meðferð lokinni ættu einkenni að lagast, en tíminn sem það tekur fer eftir aldri, alvarleika lungnabólgunnar og eðli einkennanna. Þau eru misfljót að hverfa og sumir eru lengi að ná sér.

Eftir:

• Eina viku – ætti hiti að vera horfinn
• Fjórar vikur – ætti brjóstverkur og slímmyndun að hafa minnkað verulega
• Sex vikur – ætti hósti og mæði að hafa minnkað verulega
• Þrjá mánuði – Flest einkenni að hafa gengið til baka en þú gætir ennþá fundið fyrir þreytu

Hvað get ég gert?

  • Taka sýklalyf samkvæmt fyrirmælum læknis. Mikilvægt er að klára lyfjaskammtinn.
  • Nota góðgerla til að minnka líkur á magavandamálum tengdum sýklalyfjatöku. Dæmi um góðgerla: Acidophilus, LGG+ og AB mjólk.
  • Hvíld - Líkamanum veitir ekki af allri orku í að berjast við sýkinguna.
  • Drekka vel - Það hjálpar til við slímlosun og útskilnað og kemur í veg fyrir ofþornun.
  • Volgt vatn með engifer, hunangi og sítrónu mýkir háls og getur minnkað óþægindi við hósta.
  • Verkjalyf sem fást án lyfseðils í apótekum, eins og til dæmis paracetamól, geta minnkað verki og lækkað hita.
  • Forðast reykingar - Ef þú reykir er mikilvægt að hætta. Reykingar skemma lungun. Ráð til þess að hætta að reykja.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til næstu heilsugæslu ef eitthvað af eftirfarandi kemur fram:

  • Einkenni minnka ekki eftir þrjá til fjóra daga á sýklalyfjum
  • Einkennin aukast
  • Áhyggjur af líðan þinni

Leitaðu til bráðamóttöku ef eitthvað af eftirfarandi kemur fram:

  • Alvarleg ofnæmiseinkenni eins og andþyngsli, bólga í andliti, vörum, tungu eða koki.
  • Einkenni eins og hröð öndun, brjóstverkur eða óáttun.
  • Áhyggjur af líðan þinni og þú nærð ekki í heilsugæsluna.

Alltaf er hægt að hringja í vaktsímann 1700 þar sem hjúkrunarfræðingar svara allan sólarhringinn.

Finna næstu heilsugæslu eða bráðamóttöku.

Áhættuhópar

Þótt lungnabólga sé oftast af völdum baktería, sem geta borist á milli fólks er hún ekki sjúkdómur, sem smitast auðveldlega. Ónæmiskerfið ræður í flestum tilvikum við smitið. Eftirfarandi hópar eru í aukinni áhættu.

  • Ung börn
  • Fólk eldra en 65 ára
  • Reykingafólk
  • Vannærðir
  • Fólk með langvinna sjúkdóma eins og til dæmis sykursýki, hjartabilun
  • Fólk með lungnasjúkdóma eins og astma, eða lungnateppu
  • Fólk með veiklað ónæmiskerfi
  • Ónæmisbældir
  • Fólk sem hefur skert hóstaviðbragð til dæmis af völdum heilablóðfalls, áfengisneyslu, slævandi lyfja eða skertrar hreyfigetu
  • Fólk sem hefur nýlega verið með veirusýkingu eins og kvef eða inflúensu

Forvarnir

Hreinlæti

Hreinlæti hindrar útbreiðslu sýkla og því er mikilvægt að tileinka sér það meðal annars með því að:

  • Halda fyrir munn og nef með vasaklút/pappír við hósta eða hnerra
  • Ef hóstað í pappír skal henda honum strax eftir notkun
  • Handþvottur
Verndandi þættir

Þau sem lifa heilbrigðu líferni eru ólíklegri til að veikjast af lungnabólgu. Þú ættir því að huga að hreyfingu, næringu og hvíld.

Reykingar

Þau, sem reykja eru í meiri hættu á að fá lungnabólgu en aðrir og því er mikilvægt að hætta að reykja og forðast óbeinar reykingar. Hér finnur þú góð ráð í baráttunni við að hætta að reykja.

Bólusetning

Bólusetning gegn inflúensu og pneumókokkum getur varið fólk gegn lungnabólgu af þeirra völdum. Hún er framkvæmd á heilsugæslustöðvum.

Inflúensa bæði veldur og leiðir til lungnabólgu. Bólusetning gegn inflúensu er góð leið til að draga úr líkum á lungnabólgu en hana þarf að endurtaka á hverju ári.

Bólusett er að hausti og finna má upplýsingar um fyrirkomulagið á vefsíðum heilsugæslustöðva.

Mælt er með að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:

  • Allir 60 ára og eldri
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum sjúkdómum
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum
  • Þungaðar konur