Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Hósti

Kaflar
Útgáfudagur

Hósti er eðlilegt viðbragð líkamans til að hreinsa öndunarveginn, bæði af slími og aðskotahlutum sem við höfum andað að okkur. Það er því eðlilegt að hósta annað slagið, en stundum getur hósti verið einkenni um sjúkdóm.

Stundum er talað um blautan hósta, þegar slím kemur upp með hóstanum, og þurran hósta sem er án slíms.

Helstu ástæður hósta

  • Sýking í öndunarvegi, eins og t.d. kvef eða berkjubólga.
  • Slím sem lekur úr nefholi niður öndunarveg, getur gerst við kvef, ofnæmi eða ef sýking er í kinnholum.
  • Sjúkdómar í lungum eins og astmi og langvinn lungnateppa.
  • Bakflæði, en þá lekur magasýran upp í vélindað.
  • Aukaverkun af blóðþrýstingslyfi sem nefnist ACE-blokkari.
  • Reykingar, leiðbeiningar um að hætta að reykja.

Hvað get ég gert?

  • Drekka 6-8 glös af vatni á dag.
  • Heit gufa getur hjálpað. Prófa að skrúfa frá heita vatninu inná baðherbergi, loka hurðinni og sitja þar í 20-30 mínútur.
  • Hækka undir höfðalaginu á nóttinni.
  • Heitir drykkir geta hjálpað.
  • Forðastu áreiti eins og reykingar og sterk lyktarefni.
  • Að fara út í kalt loft getur hjálpað.
  • Hóstamixtúrur er hægt að kaupa í apóteki og geta þær stundum hjálpað.
  • Slímlosandi freyðitöflur hjálpa til að leysa upp þykkt sím.

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslunnar á næsta sólarhring ef:

  • Hiti (>38°C) í yfir þrjá sólarhringa og engin batamerki.
  • Uppgangur á grænu, gulu eða brúnu slími í yfir þrjá sólarhringa.
  • Hóstinn versnar eða lagast ekki á 10 dögum.
  • Hóstinn er svo slæmur að þú kastar upp í hóstaköstunum.
  • Barn er með geltandi, þurran hósta sem lagast ekki við gufu eða kalt loft.
  • Þrálátur hósti í meira en 3 vikur.

Leitaðu strax á bráðamóttöku ef hóstanum fylgja eftirfarandi einkenni:

  • Erfiðleikar við að anda, eða hvæs hljóð við öndun.
  • Bláar varir.
  • Blóðugur uppgangur með hóstanum.
  • Barn sem er yngra en 6 mánaða með hraða öndun og mikinn hósta.
  • Barn er mjög slappt að sjá.

Finna næstu bráðamóttöku eða heilsugæslustöð.