Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Vannæring

Kaflar
Útgáfudagur

Hætta er á vannæringu þegar líkaminn fær ekki næga orku, prótein eða önnur næringarefni til að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsstarfsemi. Þetta leiðir til þess að forði líkamans minnkar og starfsemi hans truflast. Vannæring dregur úr andlegri og líkamlegri getu einstaklingsins og er oft undirliggjandi þáttur í færnitapi hjá eldra fólki. Vannæring getur verið til staðar óháð holdarfari.

Einkenni

  • Einbeitingarleysi
  • Endurtekin veikindi og/eða sýkingar
  • Hægðatregða og aðrar meltingartruflanir
  • Kulvísi
  • Lystarleysi
  • Sár gróa hægt
  • Slappleiki
  • Vöðvarýrnun
  • Þurr og sprungin húð. Roði á álagssvæðum og þrýstingssár
  • Þyngdartap

Orsakir

Vannæring getur verið afleiðing af einsleitu mataræði eða vegna vandamála við upptöku næringarefna úr fæðu.

Líkamlegar- og félagslegar orsakir:

  • Áfengis- og/eða vímuefnafíkn
  • Áföll og sorg
  • Breytt bragð- og lyktarskyn
  • Félagsleg einangrun
  • Kyngingarerfiðleikar
  • Lágar tekjur eða fátækt
  • Líkamleg fötlun eða önnur skerðing sem gerir það að verkum að erfitt er að hreyfa sig, elda eða versla í matinn
  • Takmörkuð þekking á næringu eða matreiðslu
  • Tennur í lélegu ástandi eða tanngervi sem passa ekki rétt geta valdið sársauka við að tyggja

Heilsutengdar orsakir:

  • Aukaverkanir lyfja t.d. vegna lystarleysi, ógleði og meltingartruflana, einnig vegna fjöllyfjameðferðar eldra fólks
  • Átröskun
  • Geðræn veikindi, t.d. þunglyndi, kvíði, streita eða geðklofi geta haft áhrif á skap og löngun til að borða
  • Heilabilun getur valdið því að einstaklingur vanrækir líðan sína og gleymir að borða
  • Langvarandi sjúkdómar sem valda lystarleysi, ógleði, uppköstum og/eða meltingartruflunum
  • Sjúkdómar sem trufla getu til að melta mat eða taka upp næringarefni, t.d. Crohns-sjúkdómur eða sáraristilbólga
  • Þegar líkaminn þarf á aukinni orku að halda t.d. eftir aðgerð eða bruna

Hvað get ég gert?

  • Auka próteinríkt fæði
  • Bera matinn fallega fram
  • Borða með öðrum gefur meira en góða næringu. Getur t.d. dregið úr einmannaleika og kvíða
  • Fá heimsendan mat eða aðstoð við matarinnkaup
  • Drekka næringardrykki á milli máltíða
  • Eiga tilbúnar litlar máltíðir til að nota sem millimál
  • Hafa áferð fæðunnar þannig að auðvelt er að tyggja og kyngja henni
  • Hreyfing og ferskt loft getur aukið matarlyst
  • Matvörur þurfa að vera í opnanlegum umbúðum, t.d. safi og mjólk
  • Taka inn fæðubótarefni

Meðferð við vannæringu fer eftir undirliggjandi orsök og ástandi einstaklings. Ef grunur er á vannæringu skal hafa samband við næstu heilsugæslu.

Finna næstu heilsugæslu hér.

Ráðlagt mataræði fyrir fólk frá 2 ára aldri

Ráðlagt mataræði fyrir fólk 60+