Pneumókokkasýking

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Pneumókokkar (Streptococcus pneumoniae) eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómum einkum hjá ungum börnum og fullorðnum einstaklingum yfir 60 ára. Bakterían finnst í slímhúðum í nefi og hálsi hjá frískum einstaklingum í öllum aldurshópum einkum ungum börnum án þess að valda sjúkdómseinkennum. Bakteríurnar geta tekið sig upp, dreift sér um líkamann og valdið sjúkdómum.

Algengustu sýkingar af völdum pneumókokka eru bráðar og þrálátar miðeyrnabólgur, kinnholusýkingar og lungnabólgur hjá ungum börnum. Hættulegustu sýkingarnar eru heilahimnubólga og blóðsýkingar sem geta komið fram sem aðskildir sjúkdómar eða samhliða og kallast þá ífarandi sýkingar. Í dag eru pneumókokkar algengasta orsök heilahimnubólgu af völdum baktería.

Faraldsfræði
Sjúkdómar af völdum pneumókokka hafa verið viðvarandi heilsufarsvandamál hér á landi. Svo virðist sem tíðni alvarlegra sýkinga af völdum þessara baktería sé hærri hér á landi en í mörgum nálægum löndum. Ífarandi pneumókokkasýkingar hafa verið nokkuð stöðugar sl. 10 ár en að jafnaði greinast um 50 einstaklingar á ári með alvarlega sýkingu, þar af eru um 10 börn undir 5 ára aldri og síðan eru það einkum fullorðnir einstaklingar sem komnir eru yfir sextugt sem sýkjast. Ífarandi sýkingar eru sjaldgæfar meðal barna og fullorðinna í öðrum aldurshópum. Eftir að almenn bólusetning gegn pneumókokkum var tekin inn í barnabólusetningar á árinu 2011 hefur ífarandi sýkingum hjá börnum fækkað. Dánartíðni af völdum þessara sjúkdóma er um 10% hér á landi.

Smitleiðir og meðgöngutími
Bakterían smitast á milli manna með úða frá öndunarvegum. Talið er að einungis 1-3 dagar líði frá smiti þar til sjúkdómseinkenni koma fram.

Einkenni sjúkdómsins
Sýkingar af völdum pneumókokka koma oft í kjölfar kvefpesta eða flensu og líkjast einkennin því oft sýkingum af völdum annarra baktería eða veira. Algengar sýkingar af völdum pneumókokka eru sýkingar í miðeyra, bólgur í kinnholum, í slímhúðum augna og lungnabólga. Einkenni heilahimnubólgu eða blóðsýkingar geta komið mjög snöggt með háum hita, hnakkastífleika, óróleika og sljóleika, í kjölfarið geta komið fram krampar, minnkuð meðvitund og lost. Þetta skal alltaf hafa í huga hjá börnum undir 3 ára aldri með óútskýrðan hita og áberandi veikindi.

Greining
Greina má pneumókokka í smásjá og með ræktun sýna.

Meðferð
Nauðsynlegt er að meðhöndla sjúklinga með alvarlega pneumókokkasýkingu með sýklalyfjum sem fyrst á sjúkrahúsi. Til eru 91 tegund pneumókokka og eru flestar þeirra næmar fyrir penicillíni, en sýklalyfjaónæmi hefur farið vaxandi hér á landi á undanförnum árum. Mikilvægt er að fara að læknisráði við töku sýklalyfja og klára þann skammt sem lagt er upp með.

Forvarnir
Bólusetning gegn sjúkdómnum er öflugasta forvörnin. Með því að bólusetja gegn hættulegustu stofnum bakteríunnar má koma í veg fyrir allt að 90% sjúkdóma af völdum pneumókokka hjá börnum yngri en fimm ára. Einnig má ætla að bólusetning dragi úr bráðum og þrálátum miðeyrnabólgum hjá börnum um allt að 30% og lungnabólgum hjá sama aldurshópi um allt að 37%. Þá er þess vænst að árleg sýklalyfjanotkun hjá þessum hópi minnki um allt að fjórðung en það myndi draga úr hættunni á útbreiðslu sýklalyfjaónæmra pneumókokka. Frá árinu 2011 eru börn hér á landi bólusett gegn pneumókokkum við 3, 5 og 12 mánaða aldur. Einnig er mælt með því að allir einstaklingar sem orðnir eru 60 ára fái bólusetningu við pneumókokkum.

Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.