Eyrnabólga

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Myndin sýnir líffæri eyransEyrnabólga er sýking í miðeyra, sem staðsett er bakvið hljóðhimnuna. Sýkingin er af völdum veira eða baktería sem komast inn í miðeyrað frá nefopi í gegnum kokhlust.

Algengt er að börn fái eyrnabólgu og þá í tengslum við kvef. Kokhlustin liggur milli miðeyrans og nefkoksins. Hún heldur réttum þrýstingi í miðeyranu og um hana fer vökvi sem myndast í miðeyranu niður í kok. Vegna kvefs eða ofnæmis getur kokhlustin stíflast og miðeyrað fyllst af vökva sem myndar kjöraðstæður fyrir veirur og bakteríur að dafna. Við það myndast þrýstingur á hljóðhimnuna sem veldur sársauka.

Eyrnabólga er ekki smitandi. Kvef smitast hins vegar auðveldlega á milli fólks og það eykur líkur á eyrnabólgu. Til þess að minnka líkur á smiti er mikilvægt að huga vel að persónulegum smitvörnum eins og handþvotti.

Einkenni

Dæmigerð einkenni:

  • Verkur og þrýstingur í eyra
  • Pirringur, tog/nudd í eyra og óværð hjá ungum börnum

Einnig geta fylgt:

  • Hiti yfir 38°C
  • Minnkuð heyrn
  • Minnkuð matarlyst
  • Uppköst eða niðurgangur
  • Útferð úr eyra sem getur verið merki um að hljóðhimnan hafi sprungið, grær fljótt en svimi eða ógleði geta fylgt því ásamt suði í eyra
  • Jafnvægisleysi

Hvað get ég gert?

Eyrnabólga gengur oftast yfir af sjálfu sér á 2-5 dögum og því er ekki þörf á sýklalyfjagjöf nema hjá börnum yngri en 1 árs og þeim sem hafa mjög slæm einkenni.

  • Verkjalyf á 4-6 tíma fresti. Börnum er hægt að gefa paracetamól. Athuga að skammtastærð miðast við líkamsþyngd barnsins (10-15 mg paracetamol á hvert kg líkamsþyngdar).
  • Volgur þvottapoki við eyra getur linað sársauka
  • Eyrnasprey eða dropar geta minnkað einkenni
  • Hækka undir höfðalagi í rúmi, t.d. setja nokkur samanbrotin handklæði undir dýnuna
  • Bað eða sturta getur bætt líðan
  • Saltvatn/nefsprey getur létt á þrýstingi
  • Drekka vatn reglulega yfir daginn
  • Hreinsa útferð ef kemur úr eyra
  • Halda barni heima þar til það er orðið hitalaust og líður vel

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leitaðu til heilsugæslunnar ef: 

  • Einkenni eru ekki batnandi eftir þrjá daga
  • Barn er yngra en 1 árs eða eldra en 12 ára
  • Barn er mikið veikt með háan hita og mikla verki
  • Ef barnið er með einkenni í báðum eyrum
  • Vökvi lekur úr eyra
  • Bólga er í kringum eyrað
  • Barn er að fá tíðar eyrnabólgur

Við skoðun í eyra greinir læknir á milli hvort að um sé að ræða bráða eyrnabólgu eða eyrnabólgu með vökva í miðeyra. Bráða eyrnabólgu þarf stundum meðhöndlað með sýklalyfjum en eyrnabólga með vökva í miðeyra sjaldnast.

Vökvi getur oft verið til staðar í eyra eftir að sýking hefur læknast. Því er mikilvægt að fylgjast með heyrn yngri barna sem fá tíðar eyrnabólgur vegna hættu á hægum málþroska. Við endurteknar eyrnabólgur eða langvinnan vökva í miðeyra getur verið þörf á ástungu eða rörum í eyra og þá gefur heimilislæknir tilvísun til háls, nef og eyrnalæknis til mats.

Finna næstu heilsugæslu hér.

Áhættuhópar

Börn eru í meiri hættu á að fá eyrnabólgu því kokhlustin hjá þeim er styttri og láréttari en hjá fullorðnum og því er greiðari leið fyrir veirur og bakteríur að komast í miðeyrað.

Eftirfarandi eykur líkur á miðeyrnabólgu:

  • Kvef
  • Bólga í skútum eins og kinnholubólga
  • Stórir nefkirtlar
  • Meðfætt skarð í góm
  • Veiklað ónæmiskerfi

Forvarnir

  • Reykja ekki á heimili þar sem barn er því reykingar auka líkur á eyrnabólgu
  • Bólusetning gegn pneumókokkum sem gefin er við 3ja, 5, og 12 mánaða aldur dregur m.a. úr eyrnabólgu hjá börnum
  • Huga vel að persónulegum smitvörnum eins og handþvotti til að minnka líkur á kvefsýkingum.
Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.