Sýking í ennis- og kinnholum

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Sýking getur komið í ennis- og kinnholum vegna veiru-, bakteríu- eða sveppasýkingar. Veirusýking er algengasti orsakavaldurinn og ástandið læknast vanalega án meðferðar á 2-3 vikum.

Nánar

Það eru fjögur pör af holum, einnig kallað skútar staðsettar í andlitinu. Þessar holur framleiða slím sem hreinsar og rakamettar loftið sem við öndum að okkur. Slímið berst í nef- og munnholið gegnum lítil op. Ef þessi op stíflast t.d. í kjölfar kvefs eða ofnæmis þá fyllast hólfin af vökva og úr verður hagstætt umhverfi fyrir bakteríur og veirur til að taka sér bólfestu.    

Einkenni

 • Verkur, bólga eða eymsli í kinnum, augum eða enni
 • Stífla í nefi
 • Skert lyktarskyn
 • Gult eða grænt slím úr nefi
 • Höfuðverkur
 • Hár hiti
 • Tannverkur
 • Andremma

Ungabörn geta einnig verið örg við að drekka ef nef er stíflað og þau leitast til að anda með munninum.

Orsakir

Algengasta orsökin er kvef, en einnig geta aðrar veirur, bakteríur eða sveppir orsakað sýkingu í ennis- og kinnholum. Ofnæmi veldur bólgum í slímhúð sem getur einnig leitt til sýkingar. Þeir sem eru með skert ónæmiskerfi eru líklegri en aðrir til að fá sveppasýkingu í holunum.

Meðferð

Í flestum tilfellum lagast bólgurnar af sjálfu sér á undir 10 dögum. Ef einkenni vara lengur en 10 daga og nefrennsli er litað og verkur í andliti þarf að leita til læknis og fara í skoðun.

Sýklalyf duga aðeins á sýkingu af völdum baktería.

Finna næstu heilsugæslu hér.

Hvað get ég gert?

 • Drekka vatn (6-8 glös á dag)
 • Leggja heitt, rakt þvottastykki yfir andlit
 • Anda að sér heitri vatnsgufu
 • Skola nefgöng með saltvatni eða nefsprey
 • Hækka undir höfðalagi á nóttu
 • Taka inn ofnæmislyf ef orsök er ofnæmi
 • Forðast reykingar
Var þetta efni hjálplegt?
Markmið vefsins er að veita upplýsingar um öll mál er varða heilsu. Allar ábendingar til að bæta vefinn eru vel þegnar.