Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Niðurgangur hjá börnum

Kaflar
Útgáfudagur

Hve oft ættu börn að hafa hægðir?

Á fyrstu viku ævinnar hafa flest börn hægðir fjórum sinnum á dag eða oftar. Hægðirnar eru mjúkar og blautar og sum börn geta haft hægðir upp í 10 sinnum á dag. Á fyrstu þremur mánuðunum hafa sum börn hægðir tvisvar á dag eða oftar en önnur hafa hægðir einu sinni í viku. Um tveggja ára aldurinn hafa flest börn hægðir daglega, þær eru mjúkar en formaðar.

Hvert barn er einstakt, sum hafa hægðir eftir hverja máltíð, önnur hafa hægðir annan hvern dag.

Algengustu ástæður niðurgangs hjá börnum

 • Veirusýking, önnur einkenni samhliða niðurganginum geta verið hiti (yfir 38°C), uppköst, magakrampar, lystarleysi og höfuðverkur. 
  Hér eru gagnlegar leiðbeiningar ef taka þarf saursýni hjá barni.
 • Aukaverkun sýklalyfja, oftast vægur niðurgangur.

Æskilegur matur þegar barn er með niðurgang

 • Vatn, drekka vel af vatni því mikill vökvi tapast með niðurganginum
 • Magurt kjöt
 • Hrísgrjón, kartöflur og brauð
 • Jógúrt
 • Ávexti og grænmeti
 • Mjólk (nema að barnið sé með mjólkuróþol)
 • Sykursaltvatnslausn, hægt er að kaupa hana í duftformi í apótekum. Til eru sykursaltfreyðitöflur með appelsínubragði fyrir börn eldri en 3ja ára sem eru leystar upp í vatni samkvæmt leiðbeiningum

Gefa skal sykursaltvatnsblönduna eftir hver uppköst/niðurgang en einnig þess á milli. Eftir hver uppköst/niðurgang þurfa börn sem eru léttari en 10 kg að fá 60-120ml en börn þyngri en 10 kg þurfa að fá 120-240ml. Ef barnið þambar vökvann og ælir strax í kjölfarið þá skal gefa sopa og sopa í einu en bjóða mjög oft að drekka þannig að nægri vökvainntöku sé náð.Samhliða sykursaltvatnsblöndu á alltaf að halda áfram með brjósta- og þurrmjólkurgjöf, eftir því sem við á.

Óæskilegur matur þegar barn er með niðurgang

 • Fituríkan mat, því það er erfiðara fyrir líkamann að melta hann
 • Sykraða drykki
 • Íþróttadrykki (s.s. Gatorade) því þeir innihalda of mikinn sykur og steinefni sem eru óhentug fyrir niðurganginn
 • Lyf til að stöðva niðurgang, þau eru ekki ætluð börnum

Leita til heilsugæslunnar ef:

 • Niðurgangurinn er blóðugur
 • Niðurgangur hefur staðið yfir í meira en viku
 • Barnið er yngra en 12 mánaða og hefur ekkert borðað né drukkið í nokkra klukkutíma
 • Barnið er með mikinn magaverk, eða magaverk sem kemur og fer
 • Barnið er ólíkt sjálfu sér
 • Barnið er þróttlaust og slappt og svarar þér lítið sem ekkert
 • Barnið er orðið þurrt, s.s.
  • Þurr munnur, og/eða þorsti
  • Ekki pissað eða bleytt bleyju í 4-6 klst hjá börnum undir tveggja ára aldri, en 6-8 klst hjá börnum yfir tveggja ára
  • Engin tár þegar barnið grætur

Finna næstu heilsugæslustöð hér.