Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Heyrnarskerðing

Kaflar
Útgáfudagur

Heyrnarskerðing getur bæði verið meðfædd og áunnin, komið skyndilega eða aukist hægt og bítandi með árunum. Í sumum tilvikum getur verið um tímabundna heyrnarskerðingu að ræða, t.d. við eyrnabólgu eða þegar hlustin er stífluð af merg.

Algengara er þó að heyrnarskerðing sé vaxandi með aldri og er stærsti áhættuþátturinn, auk aldurs, eru erfðir. Aðrir áhættuþættir eru hávaði, sýkingar og áverkar. Í byrjun reynist erfiðara að heyra lág hljóð og einnig erfitt að greina talað mál. Hávaðaþol verður oft lélegt og suð í eyrum getur verið fylgifiskur. Alltaf ætti að leita til læknis sem fyrst ef áhyggjur eru um að heyrn sé að tapast.

Tegundir heyrnaskerðingar

Heyrnarskerðingu er hægt að skipta upp í eftirfarandi flokka eftir því hvar skerðingin á sér stað.

  • Leiðnitap (e. conductive hearing loss) kallast það þegar eitthvað hindrar það að hljóðbylgjur berast inn til innra eyrans, t.d. eyrnamergur sem stíflar hlustina eða vökvi í eyranu eins og kemur oft fyrir hjá börnum
  • Skyntaugatap (e. sensorineural hearing loss) er hin eiginlega heyrnarskerðing, þ.e. minnkun á starfsemi innra eyrans eða kuðungsins sem er hið eiginlega heyrnarlíffæri líkamans. Frumur kuðungsins myndast í fósturlífi og hafa þær frumur ekki hæfileikann til að endurnýja sig ef einhver skaði verður á þeim. Ef skaði verður á heyrnarfrumunum er í langflestum tilfellum um óafturkræfan missi að ræða.

Helstu ástæður heyrnarskerðingar

Öll missum við heyrn með vaxandi aldri. Hvenær heyrnarskerðing byrjar eða hversu hratt og mikil hún verður ræðst af eftirfarandi tveimur þáttum:

  • Erfðir - Hversu sterkar okkar heyrnarfrumur eru í grunninn er algjörlega háð því sem við erfum frá foreldrum okkar. Sumir einstaklingar eru með það veikbyggðar heyrnarfrumur að þær ná aldrei að sinna sínu starfi og fæðast þessir einstaklingar mjög heyrnarskertir eða heyrnalausir. Flestir missa þó ekki heyrnina fyrr en upp úr miðjum aldri.
  • Umhverfi - Hvað heyrnin er útsett fyrir í gegnum ævina. Þessir þættir geta m.a. verið hávaði, ýmsir sjúkdómar, sýkingar eða lyf. Með lyfjum er fyrst og fremst átt við lyf sem notuð eru í ákveðnum krabbameinslyfjameðferðum. Hvort að lyf eða ákveðnar sýkingar hafi áhrif á heyrnina er einstaklingsbundið.

Meðferð

Hvaða meðferð eða endurhæfing sem er í boði fyrir hvern og einn ræðst af tegund heyrnarskerðingarinnar. Ef um leiðnitap er að ræða þannig að hljóðið berst ekki frá umhverfinu og inn til kuðungsins er mikilvægt að meðhöndla undirliggjandi ástæðu, eins og hreinsa mergtappa eða meðhöndla sýkingu í hlust eða miðeyra. Ef heyrnarskerðing vegna skyntaugataps er um eftirfarandi meðferðir að ræða:

Heyrnartæki

Ef um skyntaugatap er að ræða, t.d. vegna hávaðaskemmdar, er vandamálið í kuðungi innra eyrans, þ.e. í heyrnarlíffærinu sjálfu, og til að magna upp utanaðkomandi umhverfishljóð þarf einstaklingurinn heyrnar-hjálpartæki til að heyra betur og eiga auðveldar með að fylgja samræðum.

Heyrnartæki eru til í mismunandi stærðum og gerðum en öll hafa þau sameiginlegt markmið að magna upp talmál svo notandinn geti greint það sem sagt er. Heyrnartækin nema hljóðin í umhverfinu og tölva, sem vinnur eins og magnari, magnar upp hljóðið og sendir það út um hátalara heyrnartækisins.

Heyrnartækin eru einnig til í mismunandi gæðaflokkum og verðflokkum. Þessar ólíku gerðir heyrnartækja henta einstaklingum misvel eftir tegund heyrnarskerðingar, ástand hlustar og fleiri atriði hafa áhrif á hvaða tæki er ráðlagt. Einnig skiptir máli hvað einstaklingur gerir dags daglega hvaða tæki henta. Fara þarf yfir með heyrnarfræðing/heyrnarráðgjafa hvaða útfærsla heyrnartækja henti hverjum og einum.

Kuðungsígræðsla

Kuðungsígræðsla eru ígrædd heyrnartæki fyrir þá sem misst hafa heyrn á báðum eyrum eða fæðst með verulega heyrnarskerðingu eða heyrnarleysi.

Kuðungsígræðsla skiptist í tvennt, innri og ytri búnað. Ytri búnaðurinn vinnur svipað og hefðbundin heyrnartæki sem nemur hljóðin í umhverfinu og vinnur úr þeim, þau eru svo send til innri búnaðarins. Innri búnaðurinn, þráður með rafskautum, liggur undir húð og er þræddur inn í kuðung innra eyrans þar sem rafskautin örva taugaendana, sem hárfrumurnar gera hjá heyrandi einstaklingum. Þessa örvun lærir heilinn að upplifa og túlka sem hljóð. Það tekur töluverða þjálfun að aðlagast kuðungsígræðslu. Allflestir nýta kuðungsígræðslutæki vel.

Hvað get ég gert?

Börn

Heyrnarskerðing vegna vökva í miðeyra er algeng hjá börnum í tengslum við kvefpestir og gengur oftast yfir af sjálfu sér en þó eiga börn oftar en fullorðnir erfiðara með að losa sig við vökvann eftir að kvefeinkennin minnka. Hversu mikilli heyrnarskerðingu vökvinn veldur er mismunandi, og mikilvægt er að gera heyrnarmælingu ef grunur er á að vökvi í miðeyra sé að hafa áhrif á heyrn barna til lengri tíma.

Helsta ráðið til að losna við vökva í miðeyranu er að:

  • Skola nef reglulega með saltvatni, sérstaklega meðan á kvefeinkennunum stendur. Saltvatn til að skola nefið fæst í apótekum.
  • Blása lofti út í eyrun með sérstakri blöðru (Otovent) sem fæst í apótekum

Ef staðfest er að vökvi, sem hefur áhrif á heyrn barns, sé til staðar í meiri en þrjá mánuði þarf að huga að því að setja rör í hljóðhimnuna.

Ef um varanlega heyrnarskerðingu er að ræða hjá barni má finna hér bækling um réttindi heyrnarskertra barna sem mikilvægt er að foreldrar kynni sér. Taka þarf sérstakt tillit til heyrnarskertra barna á skólaári og mikilvægt að upplýsa kennara og skólastjórnendur um heyrnarskerðinguna til að hljóðdempandi aðgerðum sé beitt í skólanum.

Heyrnarskertir nemendur og skólinn

Fullorðnir

Oft tekur einstaklingurinn sjálfur ekki eftir því að heyrnin sé að skerðast heldur tileinkar sér aðrar leiðir til að „fylla upp í eyðurnar“. Þær leiðir geta t.d. verið varalestur og ágiskanir. Algeng merki þess að einstaklingur sé að missa heyrn eru t.d. æ erfiðara er að heyra lág hljóð og hvað aðrir eru að segja, sérstaklega þegar fleiri tala í einu. Einstaklingurinn hváir oftar, hækkar óþarflega mikið í sjónvarpi og útvarpi. Sumir með heyrnarskerðingu finna fyrir suði í öðru eða báðum eyrum. Heyrnarskerðing getur leitt af sér einangrun þar sem sá heyrnarskerti fer að forðast umhverfi og aðstæður þar sem hann á erfitt með að heyra.

Að lifa með heyrnarskerðingu krefst mikillar aðlögunarhæfni og þolinmæði. Á vef Heyrnar- og talmeinastöðvar er að finna gagnleg ráð í því sambandi.

Góð ráð til hjóna

Forvarnir
  • Skimun nýbura - Skimun á heyrn er í boði fyrir alla nýbura. Ef barn hefur ekki verið mælt við útskrift af fæðingardeild eða í 5 daga skoðun geta foreldrar mætt með barnið sem fyrst í opinn tíma á Heyrnar-og talmeinastöðinni, á miðvikudagsmorgnum milli kl. 10 og 11.
  • Vernda heyrnina - Hávaði einn af stærstu áhættuþáttum heyrnarskerðingar. Mjög algengt er að suð fylgi heyrnarskerðingu vegna hávaða. Það skiptir miklu máli hversu mikill hávaðinn er og hversu lengi eyrun eru útsett fyrir hávaðanum. Ráð til að koma í veg fyrir hávaðaskemmdir í eyrum

Heyrnarskerðing sem verður vegna hávaðaskemmda er óafturkræf

Hvenær skal leita aðstoðar?

Leita til næstu heilsugæslu ef:

  • Ef grunur er á heyrnarskerðingu vegna sýkingar eða vökva í eyra skal leita til læknis.
  • Ef grunur er á uppsöfnuðum eyrnamerg sem fer ekki með því að nota dropa í eyru skal bóka tíma hjá hjúkrunarfræðing. 

Ef orsökin er af öðrum toga er framkvæmd heyrnarmæling og í framhaldinu vísað áfram til sérfræðings ef þarf. Hægt er að bóka tíma hjá heimilislækni eða beint hjá sérfræðingi í heyrnarmælingu.

Finna næstu heilsugæslu hér.