Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Mænusótt

Kaflar
Útgáfudagur

Mænusótt (polio) eða lömunarveiki er smitsjúkdómur af völdum veiru sem leggst getur á taugakerfi líkamans. Í flestum tilfellum eru einkenni sjúkdómsins væg en í sumum getur hann valdið lömun sem getur leitt til dauða. Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, ung börn og óbólusettir einstaklingar. Hættan á að lamast af völdum sjúkdómsins eykst með hækkuðum aldri.

Einkenni

Langflestir eða um 90-95% af þeim sem veikjast fá væg flensulík einkenni sem geta lýst sér sem:

  • Almennur slappleiki
  • Hiti
  • Minnkuð matarlyst
  • Ógleði
  • Uppköst
  • Særindi í hálsi
  • Hægðatregða
  • Magaverkir

Alvarlegri einkenni:

  • Verkir og minnkaður kraftur í stoðkerfi líkamans
  • Hnakkastífleiki
  • Vöðvarýrnun
  • Hæsi
  • Erfiðleikar við öndun og kyngingu.

Í alvarlegustu tilfellunum verður:

  • Vöðvalömun
  • Lömun á þvagblöðru 
  • Óróleiki
  • Ósjálfrátt slef
  • Þaninn kviður

Smitleiðir og meðgöngutími

Mænusóttarveiran er mjög smitandi og getur borist í menn með úðasmiti þ.e. með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra) en einnig með saurmengun í drykkjarvatni og mat. Veiran getur verið til staðar í margar vikur í hægðum þeirra sem eru smitaðir. Til að verjast smiti er hreinlæti mikilvægt og er þar góður handþvottur mikilvægastur.

Greining

Auk læknisskoðunar er hægt að greina mænusóttarveiruna með því að mæla mótefni gegn veirunni í blóði og í heila-og mænuvökva. Einnig er hægt að greina veiruna í saur- eða þvagsýni og/eða með stroki frá hálsi.

Meðferð

Engin meðferð eða lyf eru til sem lækna sjúkdóminn. Almennt beinist meðferð að því að draga úr einkennum.

Finna næstu heilsugæslustöð hér.

Forvarnir

Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja ung börn því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Mælt er með að fullorðnir láti bólusetja sig gegn mænusótt á 10 ára fresti ef þeir ferðast til landa þar sem hætta er á smiti.

Fyrirkomulag barnabólusetninga. 

Upplýsingar um bólusetningar barna. 

Bóluefni

Bólusetning gegn mænusótt er hluti af barnabólusetningu.

Bóluefni gegn barnaveiki, kíghósta, stífkrampa, mænusótt og haemophilus influenzae Hib (e. Diphtheria, Pertussis, Tetanus, Poliomyelitis, Haemophilus influenzae) er í einni og sömu sprautunni.

Hvenær gefið: Bóluefnið heitir Boostrix Polio eða Pentavac og er gefið við þriggja, fimm og tólf mánaða aldur.

Ráðlagt er að fá örvunarbólusetningu með bóluefninu Boostrix polio eða Repevax á 10 ára fresti eftir 14 ára aldur. 

Frábendingar: Bóluefnið á aðeins að gefa í samráði við lækni eða hjúkrunarfræðing ef: 

  • Grunur um ofnæmi fyrir bóluefninu eða einhverju innihaldsefni þess t.d. glútaraldehýði, neomycíni, streptomycíni eða polyxímíni B
  • Hár hiti eða bráðan sjúkdóm (t.d. eymsli í hálsi, hósta, kvef eða flensu)
  • Fólk er í ónæmisbælandi meðferð
  • Fólk hefur áður fengið alvarlegar aukaverkanir af bólusetningu 
  • Fólk er með virkan heilasjúkdóm
  • Skert ónæmiskerfi
  • Blóðflagnafæð eða blæðingarsjúkdómur er til staðar

Aukaverkanir: Almennt vægar. Börn geta í einstaka tilfellum fengið hita og jafnvel útbrot einhverjum dögum eftir bólusetningu. Þá getur stungustaður verið aumur og jafnvel rauður og þrútinn í nokkra daga.

Ef grunur um alvarleg ofnæmisviðbrögð skal leita tafarlaust til læknis.