Barnaveiki (e. Diphtheria) er sjúkdómur af völdum bakteríu sem er mjög smitandi og leggst í byrjun á efri öndunarveg. Sjúkdómurinn lýsir sér sem svæsin hálsbólga með skánum á slímhúðum í munni og nefi. Bakterían sjálf framleiðir eiturefni sem berst út í blóðið og er skaðlegt vefjum líkamans t.d. hjartavöðva, nýrum og taugakerfi. Sýklalyf drepa bakteríuna, en koma ekki í veg fyrir eituráhrifin. Barnaveiki getur orðið mjög alvarlegur sjúkdómur og leitt til dauða en 40-50% þeirra sem ekki fá meðferð við sjúkdómnum deyja af völdum hans.
Einkenni
Einkenni sjúkdómsins geta verið einstaklingsbundin. Algengustu einkennin eru mikil hálsbólga með grárri skán sem leggst yfir slímhúð í munni og koki með tilheyrandi kyngingar- og öndunarerfiðleikum. Við þetta bætist:
- Stækkaðir eitlar á hálsi
- Hæsi og óskýr rödd
- Hraður hjartsláttur
- Særindi í nefslímhúð
- Bólginn efrigómur
- Hitavella
- Tvísýni og ónot
Sjúkdómurinn getur orðið mjög alvarlegur. Þykk skán sem fylgir sjúkdómnum getur lagst yfir öndunarveginn og komið í veg fyrir að viðkomandi geti andað. Þá gefur bakterían frá sér eiturefni sem getur borist með blóði til hinna ýmsu líffæra þ.m.t. til nýrna, hjarta og taugakerfis og þannig skert starfsemi þeirra eða valdið varanlegum skaða jafnvel lömun.
Ef barnaveikisbakterían berst í líkamann gegnum húð eru einkennin yfirleitt vægari en til viðbótar öðrum einkennum geta myndast gulir blettir eða eymsli í húð.
Smitleiðir og meðgöngutími
Barnaveiki er mjög smitandi. Bakterían berst milli manna með dropa- eða úðasmiti frá öndunarfærum þ.e. með hósta, hnerra eða hlátri sem síðan berst með höndum í slímhúðir munns eða nefs. Það líða einungis 2-4 dagar frá smiti og þar til einkenni sjúkdómsins koma fram. Bakterían getur einnig borist í líkamann í gegnum sár á húð. Dæmi eru um að einkennalausir einstaklingar geti verið smitberar án þess að veikjast sjálfir.
Greining
Í byrjun þá líkjast einkenni barnaveiki slæmri hálsbólgu með hitaslæðingi og bólgnum eitlum. En það sem greinir barnaveiki frá öðrum áþekkum sjúkdómum er eiturefni sem bakterían gefur frá sér og myndar þykka gráa skán sem sest á slímhúðir í nefi, koki og öndunarvegum og getur valdið öndunar- og kyngingarörðuleikum.
Hægt er að greina sjúkdóminn með því að taka sýni frá hálsi og setja í ræktun.
Meðferð
Nær alltaf þarf að leggja þá sem veikjast af barnaveiki inn á sjúkrahús og eru þeir hafðir í einangrun. Þegar greining liggur fyrir er gefið mótefni gegn eituráhrifum bakteríunnar en einnig penicillin. Aðrar afleiðingar af völdum eiturs sem bakterían gefur frá sér s.s. á hjartavöðva og nýru eru meðhöndlaðar sérstaklega. Þegar sjúkdómurinn er mjög alvarlegur getur sjúklingurinn þurft að fara í öndunarvél.
Nauðsynlegt er að bólusetja alla í nánasta umhverfi þess sem sýktur er til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Þegar sjúklingur hefur náð sér eftir veikindin á 4-6 vikum þarf hann bólusetningu til að koma í veg fyrir að hann fái sjúkdóminn aftur síðar.
Finna næstu heilsugæslustöð eða bráðamóttöku hér.
Barnaveiki var mjög algengur sjúkdómur á árum áður en sjaldgæfur í dag vegna þess hve öflug og víðtæk bólusetningin gegn honum er. Síðast greindist barnaveiki á Íslandi á árinu 1953. Sjúkdómurinn smitast auðveldlega milli manna og sýnir reynsla margra Austur-Evrópuríkja að þessi sjúkdómur eins og aðrir sjúkdómar geta breiðst út ef slakað er á bólusetningum. Óbólusett börn undir 5 ára aldri og fullorðnir einstaklingar yfir 60 ára eru útsettastir fyrir smiti.
Bólusetning er eina vörnin gegn sjúkdómnum. Barnaveiki er mjög sjaldgæf nú á dögum vegna þess hve öflug og víðtæk bólusetningin er gegn henni. Endurtaka þarf bólusetningu gegn barnaveiki á 10 ára fresti ef hætta er á smiti. Hætta á smiti getur orðið við ferðalög til vanþróaðra landa eða svæða þar sem barnaveiki er landlæg.