Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Einhverfa og einhverfuróf

Kaflar
Útgáfudagur

Einhverfa (e. autism) kemur yfirleitt fram snemma í barnæsku. Einkennin birtast oft á ólíkan hátt hjá einstaklingum og geta verið mismörg og af mismiklum styrkleika. Til að lýsa þessum margbreytileika er notað hugtakið einhverfuróf (e. autism spectrum).

Algengi

Þegar allir með hamlandi einkenni á einhverfurófi eru taldir með er algengið 1-3%. Drengir eru mun líklegri til þess að greinast með einhverfu en stúlkur, um fjórir drengir á móti hverri stúlku. Hins vegar er talið að stúlkur á einhverfurófi séu mun fleiri en rannsóknir segja til um og þær greinast oft seinna á lífsleiðinni en drengir.  

Á undanförnum árum hefur greiningum á einhverfurófi fjölgað. Talið er að fjölgunin sé vegna:

  • Nýrra skilgreininga
  • Fleiri flokka á einhverfurófi 
  • Betri greiningaraðferða
  • Almennt betri þekkingar á einhverfurófinu og skyldum röskunum, meðal foreldra og fagfólks

Orsakir

Það er ekki vitað hvað veldur því að sumt fólk er á einhverfurófinu. Erfðir spila sennilega inn í. Óvenjuleg starfssemi heilans veldur því að skynjun fólks á einhverfurófi á umhverfinu getur verið önnur en hjá fólki sem ekki er á rófinu.

Vitað er að einhverfa verður ekki vegna umhverfisþátta hvorki uppeldis, lyfja eða sjúkdóma. Kannski má líta á einhverfu sem hluta af fjölbreytileika mannkyns. Við erum öll ólík á marga vegu. 

Einkenni

Einkenni birtast í hegðun og koma fram á eftirfarandi þremur sviðum:  

  • Í félagslegu samspili  
  • Í tjáskiptum 
  • Í sérkennilegri og/eða áráttukenndri hegðun 

Dæmi um þetta hjá börnum geta verið:

  • Seinkaður málþroski 
  • Sérkennileg máltjáning 
  • Svara ekki kalli, bregðast ekki við nafni 
  • Virðast stundum heyra en stundum ekki 
  • Búa til ný orð 
  • Formlegt tal 
  • Fylgja ekki fyrirmælum 
  • Benda ekki og/eða vinka ekki  
  • Nota ekki bros í samskiptum 
  • Sýna takmörkuð svipbrigði 
  • Virðist helst vilja leika ein
  • Biðja ekki um hjálp 
  • Taka ekki þátt í félagslegu spjalli
  • Eiga erfitt með að ná augnsambandi 
  • Eru í eigin heimi, loka sig af 
  • Hafa ekki áhuga á öðrum börnum 
  • Fá reiðiköst af litlu eða óskiljanlegu tilefni 
  • Eru ósamvinnuþýð 
  • Leika sér ekki í ímyndunarleikjum 
  • Endurtaka sama leikinn í sífellu 
  • Raða frekar leikföngum en að leika sér með þau 
  • Taka sjaldan þátt í hópleikjum 
  • Áköf áhugamál, vita t.d. allt um risaeðlur eða plánetur 
  • Mikil þörf fyrir rútínu og reglur 
  • Ofurnæmi fyrir hljóði, lykt eða lýsingu 
  • Endurteknar/óvenjulegar hreyfingar, t.d. blaka höndum

Ekkert ákveðið einkenni er nauðsynlegt til að greina eða útiloka einhverfu. 

Greining

Þó fólk á einhverfurófi sé ekki með sjúkdóm sem þarf að lækna getur verið mjög gagnlegt að hafa greiningu á vandanum því það hjálpar fólki að læra að lifa með sjálfu sér eins og við þurfum öll að gera. Það hjálpar líka foreldrum í uppeldishlutverkinu þar sem þeir geta þurft að beita sérstökum uppeldisaðferðum. 

Greining hjá börnum

Ef grunur vaknar um að barn sé á einhverfurófi er fyrsta skrefið gjarnan að fá ráðleggingar í nærumhverfinu. Ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða er best að leita til tengiliða farsældar. Viti foreldrar ekki hver tengiliðurinn er ætti skólinn að geta upplýst um það. Einnig má leita til kennara, skólastjóra, skólahjúkrunarfræðings eða sérfræðinga sem geta óskað eftir frumgreiningu hjá sérfræðiþjónustu leikskóla og grunnskóla í sveitarfélaginu. Einnig er hægt að leita til heimilis- eða barnalæknis.

Í frumgreiningu hjá börnum og unglingum er færni þeirra kortlögð, meðal annars með mati á vitsmunaþroska. Auk þess eru lagðir fyrir skimunarlistar.

Gefi frumgreining til kynna að nánari greiningar sé þörf er tilvísun send á einhverja af eftirfarandi stofnunum

Í nánari greiningu fer fram frekara mat á einkennum með greiningarviðtölum og stöðluðum matstækjum. Auk þess er farið vel yfir þroska-, heilsufars- og fjölskyldusögu. Fengnar eru upplýsingar frá leikskóla og/eða grunnskóla. Greining er unnin í þverfaglegum teymum þar sem starfsfólk hefur sérhæfða þekkingu á almennum þroska barna.

Einstaklingur getur fengið greininguna einhverfa, ódæmigerð einhverfa, Aspergers heilkenni eða röskun á einhverfurófi. Mismunandi fjöldi og styrkleiki einkenna ásamt því á hvaða aldri einkenni koma fram ráða því hvaða greiningu einstaklingur fær. 

Greining hjá fullorðnum

Fullorðinn einstaklingur sem telur sig á einhverfurófi og vill láta kanna það getur fengið úr því skorið hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Gott er að byrja á að hafa samband við heimilislækni sem getur leiðbeint um áframhaldið.

Einstaklingur getur fengið greininguna einhverfa, ódæmigerð einhverfa, Aspergers heilkenni eða röskun á einhverfurófi. Mismunandi fjöldi og styrkleiki einkenna ásamt því á hvaða aldri einkenni koma fram ráða því hvaða greiningu einstaklingur fær. 

Hvað get ég gert?

Fjölmargt hefur áhrif á möguleika fólks til að lifa farsælu lífi á einhverfurófinu.

Eftir greiningu er fólki boðin fræðsla sem gagnlegt og mikilvægt er að þiggja. Þegar um börn er að ræða koma uppalendur sterkir inn og geta meðal annars:

Ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða er mikilvægt að samvinna milli heimilis og skóla sé góð og stofnað sé til þjónustuteymis ef slíkt er ekki til staðar.  

Ýmiss stuðningsúrræði eru í boði á vegum félagsþjónustunnar og sveitarfélaga og er gott að kynna sér þau vel. 

Fylgiraskanir

Fólk á einhverfurófi getur þurft að takast á við fleiri áskoranir sem fylgt geta einhverfunni. Stundum getur verið erfitt að greina á milli hvort um sé að ræða einhverfueinkenni eða einkenni annarrar röskunar eða sjúkdóms. Hér má nefna: