Eitt af því sem ungbarn þarf að takast á við er að móta svefn- og vökuhrynjandi eða dægursveiflu. Börnum gengur þetta misvel. Sum börn virðast sjálfkrafa sofa meira á næturnar og vaka á daginn, en öðrum börnum eiga foreldrar erfitt með að kenna mun á nóttu og degi. Ung börn geta þróað með sér svefnvandamál sem mikilvægt er að hjálpa þeim að leysa.
Það er mikilvægt að huga að öryggi í svefnumhverfi þegar börn eru lögð til svefns. Flest nýfædd börn sofa í nokkuð jöfnum lúrum allan sólarhringinn. Smám saman breytist þetta og um 6 mánaða aldur er nætursvefninn kominn í 10 til 12 klukkutíma. Svefntíminn að nóttu helst í þeirri lengd með litlum breytingum til 2-3 ára. Mun meiri einstaklingsmunur er milli barna á lengd daglúra en lengd nætursvefns. Fjöldi daglúra er oftast þrír á dag til 4-6 mánaða aldurs, eftir það fækkar þeim í tvo. Um 1 árs aldur (frá ca. 9 til 14 mánaða) fer barn síðan að sofa 1 daglúr. Börn eru mjög mis gömul þegar þau hætta að sofa á daginn eða á bilinu 18 mánaða til 5 ára.
Allir foreldrar bera þá ósk í brjósti að börn þeirra fái að vaxa og dafna. Flestir hafa einhvern kvíða í brjósti um að eitthvað komi fyrir barnið þeirra og vilja gera allt sem þeir geta til að draga úr líkum á því. Til að koma í veg fyrir slys og óhöpp þarf að kynna sér vel slysavarnir barna. Látið fylgjast vel með heilbrigði ungbarna og notfærið ykkur þá ungbarnavernd sem í boði er. Hún er gjaldfrjáls og í boði á öllum heilsugæslustöðvum.
Skyndidauði ungbarna öðru nafni vöggudauði er annað sem foreldrar óttast. Vöggudauði er það þegar barn, oftast á aldrinum 2 - 4 mánaða, deyr í svefni, án þess að hafa verði veikt, og í vandaðri krufningu finnst ekki dánarorsök. Orsakir vöggudauða eru ekki þekktar en þó er vitað um nokkra þætti sem hafa áhrif.
Hér er samantekt á helstu þáttum sem auka öryggi barna þegar þau sofa bæði til að koma í veg fyrir slys og draga úr líkum á vöggudauða.
- Látið ungbörn sofa í eigin rúmi í herbergi foreldra fyrstu mánuðina.
Sérstaklega er varhugavert að börn deili rúmi með þeim sem:- Reykja
- Eru undir áhrifum áfengs eða vímuefna
- Nota lyf sem hafa þau áhrif að svefn er dýpri
- Eru mjög þreyttir
- Leggið heilbrigð ungbörn til svefns þannig að þau liggi á baki. Ef hliðarlega er valin verður að gæta þess að þau geti ekki oltið yfir á grúfu þar sem þeirri legu hefur fylgt aukin áhætta á vöggudauða. Þegar um er að ræða fyrirbura eða ungbörn sem hafa verið veik eða hafa meðfæddan galla af einhverju tagi skal fylgja sérstökum ráðleggingum læknis.
- Ungbörn eiga aldrei að vera í tóbaksreyk hvorki vakandi né sofandi.
- Notið ekki kodda undir höfuð ungbarna þegar þau eru lögð til svefns og forðist mjúkar dýnur og mjúk leikföng í rúmum þeirra. Gætið þess að gæludýr á heimilinu komist ekki í rúm barnanna.
- Forðist ofdúðun ungbarna. Fylgist með því að þeim sé ekki of heitt, t.d. hvort þau svitna, og minnkið klæðnað og annan umbúnað ef svo er.
- Mælt er með snuðnotkun á svefntíma þegar brjóstagjöf er komin vel á veg þar sem rannsóknir benda til að það dragi úr líkum á vöggudauða.
- Látið börn ekki sofa með skartgripi eða snuðkeðju.
- Látið rúm barna ekki standa upp við miðstöðvarofna þannig að hendur eða fætur geti legið að ofninum. Ofnar geta orðið mjög heitir og litlar hendur eða fætur sem liggja upp við heitan ofn geta brunnið illa.
- Sofi barnið úti ætti að nota öryggisólar frá fyrsta degi.
Hægt er að nota mismunandi huggunaraðferðir til að róa barn. Eftirfarandi aðferð hefur reynst vel til að róa barn með ungbarnakveisu eða órólegt grátandi barn.
- Takið um hendur barns og flytja rólega í miðlínu
- Haldið á barninu í hliðalegu
- Líkið eftir hljóðum í móðurkviði en mörg börn róast við ssshhh hljóð eða annað ákveðið róandi hljóð
- Líkið eftir smáum vaggandi hreyfingum. Setjið er með barnið og því haldið í hliðalegu á fótleggjum foreldris og höfuð barnsins hvílir í höndum foreldris. Fótum foreldris er vaggað til hliðanna með rólegum taktföstum hreyfingum
- Líkið eftir rólandi hreyfingum, fram og til baka. Rólegar taktfastar hreyfingar róa barnið
- Leyfið barninu að sjúga snuð, noti það snuð
- Ungbarnið er sveipað. Best er að nota teppi sem er hvorki of þykkt né teygjanlegt og er um 1 x 1 m eða stærra (t.d. flónel). Þess skal gæta þegar barn er sveipað að fríar hreyfingar séu um mjaðmaliði. Sveipa má barn með hendurnar beint niður eða uppúr þannig að það nái að snerta andlit sitt eða munn. Þá nær barnið að nýta sér meðfæddar huggunarleiðir til að róa sig, til dæmis með því að sjúga fingur.
- Kengúrumeðferð (húð við húð) stuðlar að betri líðan barna. Sýnt hefur verið fram á að þetta stuðlar að betri súrefnismettun, jafnari öndun, jafnari hjartslætti og betri hitastjórnun hjá barninu. Ungbarnið er lagt bert en í bleiu á bringu foreldris. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrstu dagana og þegar barnið er óvært
- Hægt er að nota burðarpoka og sjöl til að róa ungbörn og veita þeim öryggistilfinningu
Svefn- og vökustig barns eru sex:
1. Djúpur svefn
- Erfitt að vekja barnið
- Barnið dreymir ekki
- Öndun er djúp og regluleg
- Hjartsláttur er rólegur
- Augu eru kyrr
- Soghreyfingar öðru hvoru
2. Léttur svefn
- Miklar augnhreyfingar
- Líkaminn er á iði
- Soghreyfingar og brosvirpur
- Hjartsláttur og öndun eru hröð
- Barnið vaknar auðveldlega
- Barnið dreymir
3. Syfjað/mókir
- Óregluleg öndun
- Hreyfir sig af og til
- Opnar og lokar augunum
- Lengi að vakna
4. Vakandi rólegt
- Hreyfir sig lítið
- Augu eru vel opin og öndun regluleg
- Veitir umhverfinu athygli
- Best að hafa samskipti við barnið á þessu stigi
- Tilbúið að drekka
5. Vakandi og virkt
- Hreyfir sig mikið
- Óregluleg öndun
- Miklar andlitshreyfingar
- Augu opin
- Jafnvel pirringur
6. Grátur
- Grettir sig
- Óregluleg öndun
- Roðnar í framan
- Viðkvæmt fyrir áreiti
Góðar svefnvenjur eru gulls ígildi bæði fyrir foreldra og börn. Flest börn þurfa aðstoð frá foreldrum sínum til að þróa með sér góðar svefnvenjur. Gott er að hafa í huga að nýfætt barn hefur þann hæfileika að sofna sjálft. Ef foreldrum tekst að viðhalda þessum hæfileika barnsins þá eru góðar líkur á að því takist að sofna sjálfu þegar það eldist.
Algengustu orsakir þess að barn tapar hæfileikanum að sofna sjálft eru tvær:
- Grátur, veikindi eða verkir sem barnið glímir við
- Foreldrarnir sinna barninu of fljótt og gefa því ekki frið til að sofna sjálft. Börn rumska oft í svefni og umla og sofna svo aftur. Ef þau eru trufluð þegar á þessu stendur eru þau í raun vakin og tekinn frá þeim möguleikinn á að halda áfram að sofa.
Þegar koma á börnum í ró fyrir nóttina eru nokkrir þættir sem hafa ber í huga:
- Búa til fastar venjur sem alltaf eru gerðar eins. Þessar venjur taka mis langan tíma eftir aldri barnsins og verkefnin eru einnig ólík eftir aldri. Í byrjun gæti þetta verið að þvo sér, fá nýja bleiu, fara í náttfötin, fá síðustu mjólkurgjöf fyrir nóttina, raula eina vögguvísu og bjóða góða nótt. Þegar fyrsta tönnin kemur bætist tannburstun við. Snemma er einnig gott að bæta við að skoða litla bók og lesa stutta sögu. Leyfa barninu að segja góða nótt við aðra í fjölskyldunni þegar það hefur þroska til. Þegar bleiutímabilinu sleppir bætist við að fara á klósettið. Aðalatriðið er að eiga þessa stund með barninu og með venjubundnum hætti aðstoða það að koma sér í ró og sofna. Mikilvægt er að temja sér að tala rólega til barnsins á meðan verið er að koma því í ró. Rólegar sefandi setningar um að það sé svo gott að kúra sig í bólinu sínu með bangsa sinn og hvíla sig eftir daginn.
- Látið barnið sofna í því rúmi sem það á að sofa í um nóttina. Mörg börn bregðast illa við því að vakna á öðrum stað þó það sé ekki algilt.
- Hafið þjónustu á nóttunni í lágmarki. Börn þurfa flest að drekka á nóttunni fyrstu 4 til 6 mánuðina en þau sofna flest fljótt eftir gjöfina. Á nóttinni er mikilvægt að halda öllu lágstemmdu, hafa ljós í lágmarki og hafa hljótt.
Almenn skilgreining á ungbarnakveisu er „grátur hjá heilbrigðu barni sem varir minnst í 3 klst á dag í a.m.k. 3 daga vikunnar og stendur yfir í a.m.k. 3 vikur samfellt.“ Einkenni ungbarnakveisu byrja gjarnan við 2 vikna aldur, nær hámarki við 6-8 vikna aldur og gengur oftast yfir af sjálfu sér við 3-4 mánaða aldur. Orsök er óþekkt og ýmsir þættir hafa verið nefndir, s.s. óþroskaður meltingarvegur, óþroskað miðtaugakerfi og sálfélagslegir þættir. Börn geta brugðist ólíkt við ýmsum áreitum sem valda gráti/óværð og einnig huggunaraðferðum sem róa þau og hjálpa þeim að ná jafnvægi á ný.