Börn 0 til 5 mánaða valda ekki slysum sjálf heldur verða slysin þegar að foreldrar og umönnunaraðilar eru ekki vakandi fyrir þeim hættum sem þessum aldri fylgir. Gott er að nota gátlistann til að bæta úr slysavörnum á heimilinu. Hér er að finna helstu slysavarnir fyrir ungabörn.
Fall
Höfuð ungbarna eru hlutfallslega stór og þung, því er meiri hætta á að þau lendi á höfðinu ef þau falla.
- Hafið ávallt eftirlit með börnum á skiptiborði, hjónarúmi og sófum.
- Notið öryggisólar, s.s. í barnavagni og barnastólum.
Bruni
Húð ungbarna er 15% þynnri en húð fullorðinna, því eru þau viðkvæmari fyrir bruna.
Helstu hættur:
- Heitir drykkir, ef haldið er á barni meðan drukkið er.
- Heitar matarslettur, ef haldið er á barni meðan eldað er við eldavél.
- Hitaður matur, athugið hitastigið þarf að vera 37°til að barnið brenni sig ekki.
- Baðvatn, kjörhitastig fyrir lítil börn er 37°
- Miðstöðvarofnar, ef rúm barns liggur upp við ofn, geta fætur/hendur rekist í hann.
Köfnun
- Notið léttar sængur og engan kodda fyrsta árið.
- Leggið barn til svefns á bakinu.
- Rúm og sængurföt fullorðinna og það að sofa við hlið fullorðinna eykur hættu á köfnun.
- Skiljið barn aldrei eftir á grjónapúða, í vatnsrúmi eða á brjóstagjafapúða.
- Skiljið ungbarn aldrei eitt eftir með pela.
- Fjarlægið reimar og bönd úr fatnaði svo þrengi ekki að hálsi barns.
- Barn má aldrei sofa með snuðkeðju né skartgripi.
- Gætið þess að gæludýr komist ekki í rúm barns.
Útivera
- Hafið barnið í beisli frá fyrsta degi í barnavagninum. Setjið endurskinsmerki á vagninn.
- Ekki er mælt með því að börn sofi úti í frosti eða roki.
- Notið hlífðarnet til að hindra að kettir og skordýr komist að barninu. Forðist þykk, lokuð teppi yfir vagnopið sem geta hindrað eðlileg loftskipti.
- Fylgist reglulega með barninu meðan á útisvefni stendur.
- Ef notaður er magapoki gangið úr skugga um að hann sé rétt festur, þannig að engin hætta sé á að hann losni.
Drukknun
- Víkið aldrei frá barni í baði, ekki eitt augnablik.
- Gott er að setja stama mottu í botn baðsins.
- Treystið aldrei barni undir 12 ára aldri til þess að gæta kornabarns í baði. Þau hafa ekki þroska til að bera þá ábyrgð.
- Baðsæti eru ekki öryggisbúnaður og því má aldrei líta af barni í slíkum búnaði. Þau má ekki nota fyrr en barnið hefur náð 6 mánaða aldri. Fylgjið leiðbeiningum framleiðanda um rétta notkun.
Barnabílstóll
- Barn yngra en 1 árs skal snúa frá akstursstefnu (afturábak) því höfuð þess er þungt og hálsliðir viðkvæmir.
- Kannið áður en stóllinn er keyptur að hann passi í þá bíla sem á að nota hann í. Notið einungis öryggisbúnað sem er viðurkenndur í Evrópu.
- Ungbarnabílstóll má ekki vera eldri en 5 ára og ekki mega fleiri en tvö börn hafa notað hann því þá er spennan á beislinu ekki örugg. Ekki kaupa notaðan barnabílstól af ókunnugum.
- Forðist að láta barn yngra en 6 mánaða sitja lengi í barnabílstól. Það reynir mikið á bak barnsins og getur í sumum tilfellum haft áhrif á öndunina.
- Hafið barn í fatnaði sem fellur þétt að líkamanum, forðist fyrirferðamikla galla og gætið þess að einungis sé hægt að koma 2 fingrum fyrir á milli barns og beltis.
- Barn á aldrei að skilja eftir eitt í bíl.
Vagga og rúm
- Bil á milli rimlanna má ekki vera meira en 6 cm.
- Botnplata rúms þarf að vera vel fest og falla að rúmgrindinni.
- Ef hjól eru undir rúmfótum þarf að vera hægt að læsa þeim.
- Dýnan á að vera hæfilega stíf og passa vel í rúmið. Ekki á vera hægt að setja fleiri en tvo fingur milli dýnunnar og hliða vöggunnar.
- Tempur-dýnur og vatnsdýnur eru alls ekki ætlaðar ungum börnum. Þær gefa of mikið eftir svo hætta skapast á að barnið sökkvi ofan í dýnuna og slíkt getur valdið köfnun.
- Til að hlífa dýnunni við bleytu á ekki að nota plast heldur þar til gerð lök (pissulök).
- Ungbarnavöggu á ekki að nota nema í stuttan tíma.
- Fylgið nákvæmlega leiðbeiningum framleiðanda um samsetningu, notkun og viðhald.