Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Svefn 13-18 ára

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Góður svefn er nauðsynlegur til að geta tekist á við viðfangsefni dagsins.
Svefnþörf unglinga er einstaklingsbundin en þeir þurfa 8 til 10 klukkustunda svefn yfir nóttina. Algengt er að svefnþörf unglinga aukist um klukkustund á nóttu frá því sem var þegar þeir voru yngri. Talið er að þetta gerist vegna aukins álags sem fylgir kyþroskaatímabilinu. Reyndin er þó sú að stór hluti unglinga styttir svefntíma sinn í stað þess að lengja hann. Við lifum á erilsömum tímum og það er margt sem getur haft neikvæð áhrif á svefninn. Fyrir utan að sinna heimalærdómi og áhugamálum tekur sjónvarpið, internetið og snjalltækin sífellt meiri tíma barna og unglinga.

Góður svefn

Þeir unglingar sem hafa góðar svefnvenjur og sofa nóg eru hamingjusamari, taka frekar ábyrgð á heilsunni, borða hollari mat, eru hæfari að takast á við streitu og ástunda frekar reglulega hreyfingu en þeir unglingar sem sofa ekki nóg.

Góður svefn

 • Hefur jákvæð áhrif á námsgetu, einbeitingu og minni.
 • Hjálpar til við upprifjun og úrvinnslu úr þeim upplýsingum sem við höfum fengið yfir daginn og þær upplýsingar festast í minninu.
 • Eflir ónæmiskerfið og eykur mótstöðu gegn veikindum.
 • Er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska unglingsins. Á unglingsárunum eiga sér stað miklar hormónabreytingar í líkamanum. Mikill hluti þeirra hormóna framleiðist á nóttunni og er sú framleiðsla háð góðum nætursvefni. Að sofa á daginn kemur því ekki í staðinn fyrir tapaðan nætursvefn.

Svefnráð

Hér eru nokkur einföld ráð fyrir foreldra sem komið geta að notum til að hjálpa unglingum að ná betri nætursvefni.

 • Hvetjið unglinginn til að fara að sofa og vakna á svipuðum tíma á hverjum degi. Ef unglingurinn fær nægjanlegan svefn á virkum dögum þarf hann ekki að sofa lengur um helgar. Óreglulegar svefnvenjur geta valdið ójafnvægi í líkamanum.
 • Ef unglingurinn er oft þreyttur á daginn þá getur hjálpað að fá sér smá kríu til að hlaða batteríin. Varast skal að sofa lengur en klukkustund því þá getur lúrinn haft öfug áhrif og valdið því að erfiðara verður að sofna um kvöldið.
 • Áhyggjur og streita geta valdið því að erfitt er að slappa af og sofa vel. Verið í góðu sambandi og næm fyrir hvernig unglingnum líður. Það er ekki alltaf létt að fá ungling að tala um hvernig honum líður. Stundum getur hjálpað að skrifa hugsanir og tilfinningar í dagbók.
 • Óæskilegt er að unglingar sitji fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna seint á kvöldin. Bæði sjónvarp og tölvuleikir örva heilann og trufla þannig svefn. Síminn og spjaldtölvan eiga ekkert erindi í rúmið með unglingnum. Gott getur verið að koma sér upp þeirri reglu að allir heimilismenn skilji snjalltækin eftir utan svefnherbergja á nóttunni. Hér má finna góð ráð við sjá-uppeldi barna.
 • Dagleg hreyfing er góð bæði fyrir svefninn og heilsuna. Hvettu unglinginn til að stunda íþróttir eða daglega hreyfingu í frítímanum.
 • Ekki er gott að borða eða drekka mikið fyrir svefninn. Kenndu barninu frekar að slappa af með því að fá sér smávegis heitt að drekka. Heitt bað eða sturta getur einnig verið róandi fyrir svefninn. Koffein í drykkjum geta truflað svefninn allt að 6 tímum eftir neyslu þeirra.
 • Hjálpaðu unglingnum að stilla hitastigið í svefnherberginu hæfilega svalt og gott er að sofa við opinn glugga og vera með dökk gluggatjöld fyrir glugganum.
 • Margir byrja á unglingsárunum að vera lengur úti á kvöldin. Fylgið útivistareglum alla daga vikunnar. Gott er einnig að unglingurinn hafi tíma til að komast í ró áður en hann fer í rúmið.

Gott fordæmi eykur áhrif góðra ráð