Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Líkamlegar breytingar

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur
Bragð og lyktarskyn

Bragðlaukar sem skynja bragð eru staðsettir á tungunni og lyktarsvæðið sem skynjar lykt er efst í nefholinu.

Með hækkandi aldri getur lystarleysi aukist því að:

 • Bragðlaukum fækkar og þeir rýrna og þar með getan til að finna bragð
 • Lyktarskyn dofnar
 • Munnvatnsframleiðsla minnkar

Aðrar ástæður fyrir skertu bragð- og lyktarskyni eru t.d. ofnæmi og veirusýkingar.

Heyrn


Með hækkandi aldri verður bæði breyting á byggingu og virkni eyrans. Sveigjanleiki brjósks á ytra eyra minnkar og þá lengist eyrað og sígur. Eyrnamergur verður líka þykkari því kirtlarnir í eyranu rýrna.

Heyrn fólks versnar með hækkandi aldri. Vegna aukinnar kalkmyndunar á liðamótum milli hamars og ístaðs í miðeyra verður minni titringur á milli þessara beina. Afleiðingin er að minna hljóð berst niður heyrnartaugina og færri hljóðbylgjur berast til heila. Þessi heyrnarskerðing kallast leiðniheyrnartap.  

Önnur tegund heyrnarskerðingar er skyntaugatap sem einnig er aldurstengd breyting. Þá rýrna skyntaugar í innra eyra og skerðing verður á heyrn.

Einkenni heyrnarskerðingar  

•    Erfiðleikar við að skilja einstök orð, sérstaklega hljóð sem eru í bakgrunni eða í margmenni 
•    Erfiðleikar við að greina samhljóða 
•    Biðja fólk ítrekað að tala hægar, skýrar eða hærra 
•    Hækka hljóð í útvarpi og sjónvarpi 
•    Draga sig úr samræðum 
•    Forðast félagslegar athafnir 

Frekari upplýsingar um heyrnarskerðingu.

Jafnvægi

Aukin byltuhætta getur verið með hækkandi aldri vegna hrörnun líkamans:

 • Skynviðtakar í jafnvægiskerfi innra eyra og taugaþræðir sem bera boð frá þeim fækka með aldrinum. Þessar hrörnunarbreytingar geta gerst ójafnt á milli hægra og vinstra eyra sem veldur ósamhverfu og skilaboð frá jafnvægiskerfinu truflast. Þetta leiðir af sér ómarkvissari fallviðbrögð.
 • Vöðvarýrnun á sér stað með hækkandi aldri, einnig minnkar viðbragðshraði vöðva og samhæfing með aldrinum.
 • Sjónskerðing eykst með hækkandi aldri. 

Einnig geta ýmsir sjúkdómar, sum lyf og neysla áfengis haft áhrif á stjórnun jafnvægis.

Mikilvægt er að greina hvað orsakar skert jafnvægi og finna út hvaða meðferð á best við. Finna næstu heilsugæslu hér.

Hvað get ég gert?

 • Stunda reglubundna hreyfingu
 • Styrktaræfingar
 • Jafnvægisæfingar
 • samhæfingarþjálfun
Næring

Orkuþörfin minnkar með aldrinum, aðallega vegna vöðvarýrnunar og minni hreyfingar. Þörfin fyrir vítamín og steinefni minnkar hins vegar ekki með aldrinum og þörfin fyrir prótein eykst. 

Erfiðleikar við að borða og vannæring eru stærstu næringartengdu áskoranirnar eldra fólks. Þó að orkuþörfin minnki með aldrinum er algengt að þeir sem eldri eru fái of litla orku.

Orsök fyrir minni matarlyst getur verið:

 • Breytingar í bragðupplifun
 • Ýmsir sjúkdómar 
 • Aukaverkanir af lyfjum
 • Hrakandi munnheilsa
 • Færniskerðing
 • Þreyta og depurð
 • Félagsleg einangrun 

Ráðleggingar um mataræði eldra fólks sem er við góða heilsu.

Ráðleggingar um mataræði fyrir hrumt eða veikt eldra fólk. 

Hvað get ég gert?

 • Eiga tilbúnar máltíðir í umbúðum sem auðvelt er að opna
 • Velja mat sem auðvelt er að tyggja og kyngja
 • Borða reglulega yfir daginn, þrátt fyrir litla matarlyst
 • Borða próteinríkar máltíðir 3-4 sinnum á dag
 • Velja fullfeitar og orkuríkar vörur
Munnheilsa

Ýmsar breytingar eiga sér stað í munninum með hækkandi aldri: 

 • Munnvatnsframleiðsla minnkar sem getur valdið því að slímhúðin verður þurr en það eykur líkur á sjúkdómum í munni.
 • Gómar rýrna og því verða tennur viðkvæmari. Þessi rýrnun valdið því að þær færast til og slíkt getur valdið sársauka
 • Glerungur eyðist og það eykur líkur á tannskemmdum.
 • Rýrnun verður á vef í munni sem getur valdið því að falskar tennur verða of stórar og passa illa og geta sært munnholdið.  

Slæm munnheilsa eykur líkur á tannskemmdum, sjúkdómum í gómum og sveppasýkingum sem geta valdið miklum óþægindum. 

Vönduð tannhirða er lykillinn að því að tennurnar endist ævina út. Frekari upplýsingar um tannhirðu fullorðinna.

Ónæmiskerfi

Mikilvægur þáttur öldrunar er breyting á virkni ónæmiskerfisins:

 • Skert hæfni til að berjast við sýkingar
 • Skert svörun við bólusetningum
 • Aukin tíðni krabbameins
 • Hærra algengi sjálfsofnæmis
 • Bólgur koma oftar fram 
Styrkur

Aldurstengdar breytingar tengdar stoðkerfinu eru sjáanlegar þar sem líkamsstaða breytist.

Beinþynning fylgir hækkandi aldri en ástæðan er sú að líkaminn tekur minna upp af kalki úr fæðunni en hann gerði áður. Við það verða bein stökk og aukin hætta er á beinbroti

Stirðleiki eykst vegna þess að sveigjanleiki í liðum og sinum minnkar.

Vöðvarýrnun á sér stað með hækkandi aldri en reglulegri styrktarþjálfun og næringarríku mataræði má bæði hægja á þessu ferli og jafnframt byggja upp vöðvamassa.  

Hvað get ég gert?

 • Styrktarþjálfun. Með því að styrkja vöðva og bein minnka líkur á byltu og beinbrotum.  
 • Borða próteinríka fæðu.
 • Borða kalkríka fæðu og taka inn D-vítamín. 

Ráðleggingar um hreyfingu 60+

Sjón

Með hækkandi aldri verða ýmsar lífeðlisfræðilegar breytingar á sjón og augum fólks:

 • Fjarsýni hrjáir flest fólk eftir 65 ára aldurinn því augnlinsan verður stífari og þéttari sem gerir það að verkum að fólk sér verr það sem nær þeim er. Það er algengt að fólk byrji að notast við lesgleraugu á fimmtugsaldri.  
 • Augnþurrkur eykst þar sem virkni slímkirtla í augum dregst saman hjá eldra fólki og táraframleiðsla minnkar. Slíkt getur valdið augnþurrki sem veldur því að auga er óvarið og viðkvæmt og hætta á augnsýkingu eykst.
 • Aukin birtuþörf verður eftir því sem árin færast og eldra fólk sér verr í myrkri. 

Aðrar breytingar á auga sem eru aldurstengdar. Hornhimna augans verður flatari, hún þykknar og teygjanleiki hennar dregst saman. Þá þykknar einnig augasteinninn og gulnar. Hækkandi aldur er einnig áhættuþáttur fyrir gláku.

Aksturshæfni tapast ekki sjálfkrafa með hækkandi aldri, hægt er að lesa um akstur á efri árum hér

Hvað get ég gert ?

 • Mæta reglulega til augnlæknis
 • Fólk sem eru í aukinni áhættu, t.d. einstaklingar með sykursýki eða eiga náinn ættingja með augnsjúkdóm er bent á að fara á 1-2 ára fresti óháð aldri.