Ráðleggingar - eldra fólk

Þegar komið er á efri ár er eðlilegt að smám saman dragi úr líkamlegri og andlegri getu. Regluleg hreyfing hægir á einkennum og áhrifum öldrunar og veitir líkamlegan og andlegan styrk. Og það sem mikilvægt er, að með reglulegri hreyfingu eykst færni til að takast á við verkefni daglegs lífs og þá um leið getan til sjálfsbjargar og sjálfstæðis. Þeir sem ekki hafa stundað hreyfingu lengi eða eiga erfitt með hana einhverra hluta vegna ættu að kynna sér möguleika hreyfiseðilsins eða leita ráðlegginga hjá fagfólki. Almennt er mikilvægt að fara rólega af stað og auka síðan smám saman við álagið eftir því sem getan eykst.  

  • Samanber opinberar ráðleggingar um hreyfingu ætti eldra fólk að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Heildartímanum má skipta í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn. 
  • Með því að hreyfa sig lengur eða af meiri ákefð er mögulegt að bæta heilsuna enn frekar. Til viðbótar er því æskilegt að eldra fólk stundi erfiða hreyfingu að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku (20 – 30 mínútur í senn). 
  • Styrktarþjálfun er sérstaklega gagnleg rosknu fólki, meðal annars til að viðhalda hreyfifærni og stuðla að auknu gönguöryggi.

Þegar fólk hættir að stunda launaða vinnu skapast svigrúm í tíma sem tilvalið er að nota til að koma sér upp venjum sem fela í sér meiri hreyfingu. Með því móti er hægt að bæta bæði heilsu og góðum árum við lífið. Ekki er verra ef það er gert í góðum félagsskap og hlúa þannig einnig að félagslegri virkni og vellíðan.