Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Gláka

Kaflar
Útgáfudagur

Gláka (e. glaucoma) er hrörnunarsjúkdómur í sjóntaug augans. Einstaklingar geta verið einkennalausir í mjög langan tíma en hægfara breytingar á sjónsviði eru oft fyrstu einkenni sjúkdómsins. Reglulegar heimsóknir til augnlæknis eru því mikilvægar svo unnt sé að greina og meðhöndla sjúkdóminn áður en hann veldur varanlegri sjónskerðingu. Meðferð felst aðallega í að lækka augnþrýsting og hægja á þróun sjónskerðingar.

Einkenni

Fyrstu einkenni eru tap á sjónsviði sem oftast verður í hliðarsjón. Það getur verið erfitt að gera sér grein fyrir fyrstu einkennum gláku og því er sjúkdómurinn oft uppgötvaður í reglubundnu eftirliti hjá augnlækni. Einkenni geta komið fram í öðru eða báðum augum samtímis en þau helstu eru:

 • Sjónsviðið þrengist svo það dregur úr hliðarsjón
 • Rörsýni
 • Sjóntruflanir með lituðum hringjum kringum björt ljós
 • Þokusjón

Orsakir

Hvað veldur gláku er enn ekki að fullu vitað en áhættuþættir sjúkdómsins eru:

 • Hækkaður augnþrýstingur
 • Hækkaður aldur
 • Sykursýki
 • Mikil nær/fjærsýni
 • Fjölskyldusaga um gláku

Þekkt orsök fyrir hækkuðum augnþrýstingi er skert flæði á augnvökva sem safnast upp í auganu. Þegar þrýstingur hækkar í auganu skemmast taugafrumur sjóntaugarinnar smám saman sem getur valdið sjónskerðingu og blindu. Taugafrumur líkamans endurnýja sig ekki og því eru skemmdir á sjóntaug varanlegar.

Greining

Ef grunur vaknar um gláku er heilsufarssaga og fjölskyldusaga skoðuð með tilliti til gláku og annarra sjúkdóma. Greining byggist einnig á eftirfarandi þáttum:

 • Sjónprófum
 • Þrýstingsprófi á augum
 • Sjónsviðsrannsóknum
 • Myndgreiningum

Það eru til nokkrar mismunandi tegundir gláku en þær þekktustu eru:

 • Gleiðhornsgláka (hægfara gláka og sú algengasta): Það hægist smá saman á flæði augnvökvans sem veldur hærri augnþrýstingi
 • Þrönghornsgláka (bráðagláka): Fráflæði augnvökvans stöðvast alveg og augnþrýstingur hækkar skyndilega
 • Fylgigláka: Augnþrýstingur hækkar af völdum annars sjúkdóms. Algengasta glákan af þessum toga er flögnunargláka þar sem trefjaagnir safnast upp og stífla frárennsliskerfi augnvökvans
 • Meðfædd gláka: Þetta er sjaldgæf tegund gláku sem orsakast af meðfæddum galla í augum

Meðferð

Miklar framfarir hafa orðið á undanförnum áratugum í greiningu og meðferð gláku. Með reglulegum augnskoðunum hjá augnlækni má greina sjúkdóminn tímanlega og koma í veg fyrir alvarlegar skemmdir og þar með sjónskerðingu. Markmið meðferðar byggist á því að lækka augnþrýsting og hægja þannig á eða stöðva frekari skerðingu á sjónsviði.

Lyfjameðferð er yfirleitt fyrsta úrræði og þá oftast í formi augndropa. Til eru ýmsar tegundir glákudropa sem draga úr augnþrýstingi. Annars vegar eru það dropar sem minnka vökvamagnið er myndast í auganu og safnast upp og hins vegar dropar er stuðla að því að umframvökvi geti runnið úr auganu.

Þegar lyf duga ekki sem skyldi eða sjúkdómurinn það langt genginn getur þurft að beita lasermeðferð til að auka útflæði augnvökvans. Þá getur í undantekningartilfellum þurft að framkvæma skurðaðgerð þar sem búin er til sérstök göng fyrir augnvökvann.

Mikilvægt er að fara nákvæmlega eftir fyrirmælum frá lækni bæði hvað varðar dropafjölda og hversu oft á dag setja á dropa í augun. Stundum þarf að prófa nokkrar gerðir af dropum til að finna þá sem henta best og í sumum tilfellum þarf að nota fleiri en eina tegund í einu.

Leiðbeiningar um notkun augndropa:

 • Þvo hendur áður en dropar eru settir í augu
 • Nota fingur til að draga varlega niður neðra augnlok út á við
 • Halla höfðinu aftur 
 • Halda lyfjaglasi yfir auga, forðast að snerta stút á lyfjaglasi
 • Láta tilætlaðan dropafjölda drjúpa í augað 
 • Þrýsta létt með fingri á innri augnkrók eftir að augndropar eru komnir í augað til að draga úr frárennsli og auka þannig virkni lyfsins
 • Láta líða 5 mínútur hið minnsta ef nota á mismunandi tegundir af dropum

Hvað get ég gert?

Ekki er enn vitað hvort hægt sé að fyrirbyggja gláku en með því að fara reglulega í augnskoðun má greina sjúkdóminn snemma og bregðast við áður en hann hefur áhrif á sjón. Það er því afar mikilvægt að fólk á öllum aldri mæti reglulega til augnlæknis og þeir sem eru í aukinni áhættu eða eiga náinn ættingja með gláku er bent á að fara á 1-2 ára fresti óháð aldri. 

Eftirfarandi tafla sýnir ráðleggingar um tíðni skoðana: 

Aldur (ár) 

Tíðni skoðana  

65 og eldri  

Á 1-2 ára fresti  

55-64 

Á 1-3 ára fresti 

40-54 

Á 2-4 ára fresti 

Undir 40  

Á 5-10 ára fresti  

 

Hvernig á að bregðast við í neyðarástandi?

Eftirfarandi einkenni geta verið merki um bráðagláku sem nauðsynlegt er að bregðast strax við. Í þeim tilfellum skal leita til augnlæknis eða á bráðamóttöku:

 • Mikill sársauki í augum
 • Roði í augum
 • Þrýstingur í kringum augnsvæði
 • Óskýr sjón
 • Höfuðverkur
 • Ógleði og uppköst

Hér finnur þú næstu heilsugæslustöð og bráðamóttöku.