Fara á efnissvæði
Fara á efnissvæði

Kvenheilsan í eigin höndum

Kaflar
Flokkur
Útgáfudagur

Eftir tíðahvörf lækkar magn kvenhormóna verulega. Þar sem estrógen er verndandi fyrir mörg líffæri og líkamskerfi hefur lækkun þess áhrif á heilsu kvenna í nútíð og  framtíð. Eftir tíðahvörf eykst  hætta á beinþynningu, hjarta- og æðasjúkdómum og vandamálum tengdum þvag- og kynfærasvæði. Efnaskipti líkamans hægjast og stjórnun blóðsykurs getur truflast og þyngdaraukning er algeng. Það er ýmislegt sem konur geta gert  til að draga úr líkum á sjúkdómum og langtímaáhrifum tíðahvarfa. 

Beinþynning

Kvenhormónið estrógen er beinverndandi. Við tíðahvörf lækkar magn estrógens í líkamanum sem veldur því að þéttleiki beina minnkar. Konur eru þrefalt líklegri en karlar til að fá beinþynningu og þar með beinbrot sem geta haft alvarlegar afleiðingar. 

Auk tíðahvarfa og hækkandi aldurs eru erfðir stór áhættuþáttur í þróun beinþynningar. Mæla má þéttni beina með sértækri röntgenrannsókn. Ef ættarsaga er um beinþynningu er hægt að fara í beinþéttnimælingu. Hana er hægt að fá án tilvísunar frá lækni.

Regluleg hreyfing styrkir beinin og minnkar líkur á beinþynningu. Mikilvægt er að vernda beinheilsu með nægilegri neyslu kalkríkrar fæðu og D-vítamíns. Ef ekki fæst nægilegt magn úr fæðu er mælt með bætiefnum.

Umfjöllun um uppsprettu næringarefna.

Hormónameðferð með estrógeni (og prógesteróni ef konur eru með leg) getur dregið úr þróun beinþynningar. 

Hjarta- og æðasjúkdómar

Með hækkandi aldri eykst tíðni hjarta- og æðasjúkdóma. Hjartasjúkómar eru algengasta dánarorsök íslenskra kvenna líkt og annars staðar í heiminum. Kvenhormónið estrógen á þátt í að halda æðum heilbrigðum og blóðfitum í jafnvægi. Lækkun estrógens við tíðahvörf veldur aukinni áhættu á  sjúkdómum eins og kransæðasjúkdómum, heilablóðfalli og hjartaáfalli.

Aðrir þættir sem auka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum eru háþrýstingur, sykursýki, offita, reykingar og áfengisneysla. Með heilsusamlegum lífsstíl má minnka líkur á hjarta- og æðasjúkómum. Hormónameðferð eftir tíðahvörf getur minnkað líkur á ýmsum hjarta- og æðasjúkdómum.

Viltu breyta venjum þínum?

Þyngdaraukning

Margar konur á breytingaskeiði verða varar við þyngdaraukningu og breytingu á fitudreifingu og erfiðara getur reynst að losa sig við aukakílóin en áður.

Hvað veldur þyngdaraukningu á breytingaskeiði?

  • Hormónabreytingar. Þegar eggjastokkar mynda minna magn estrogens breytist samsetning blóðfitu í líkamanum. Óheppilegri blóðfitur hækka sem geta valdið því að fitusöfnun eykst og verður meira áberandi um miðjuna.
  • Hægari efnaskipti. Aðallega er það rýrnun á vöðvamassa sem veldur hægari grunnefnaskiptum og orkuþörf verður því minni. Ef konur halda áfram að borða líkt og áður eru því líkur á því að þær þyngist.
  • Verkir í liðum og vöðvum valda því að konur hreyfa sig síður.
  • Streita. Hormónabreytingar gera konur útsettari fyrir streitu og aukin losun streituhormóna hefur áhrif á blóðsykur og uppsöfnun fitu.  
  • Svefnvandamál og megrunarkúrar geta truflað starfsemi hormóna sem stjórna hungri og seddu. Aukin hungurtifinningu og minni seddutilfinning veldur því að konur borða meira en líkaminn hefur þörf fyrir.
  • Vökvasöfnun/bjúgur . Hormónabreytingar og minni hreyfing getur stuðlað að bjúgmyndun í líkamanum.

Hvað get ég gert til að draga þyngdaraukningu?

Heilsubrú bíður upp á námskeið í þyngdarstjórnun

Þvag- og kynfæri

Á breytingaskeiði og eftir tíðahvörf geta komið upp vandamál tengd þvag- og kynfærum. Kvenhormónið estrogen viðheldur heilbrigði slímhúðar í þessum líffærakerfum og þegar estrógen lækkar þynnist slímhúðin og missir teygjanleika sinn og raka. 
Helstu einkenni eru:

Hvað er til ráða? 
Staðbundin hormónameðferð með estrógeni í leggöngin minnkar ofangreind einkenni. Hægt er að velja töflur, stíla, krem eða forðahring sem settur er upp í leggöng. Rakagefandi krem geta einnig hjálpað og sleipiefni hjálpar þeim sem finna sársauka við samfarir. Þessi efni fást án lyfseðils. Til að viðhalda styrk í grindarbotni og draga úr þvagleka er æskilegt að gera grindabotnsæfingar reglulega. 

Bjargráð á breytingaskeiði

Til eru ýmis bjargráð til að bæta líðan og draga úr einkennum breytingaskeiðs. 

Gott er að þekkja ólíkar leiðir sem eru í boði til að geta tekið upplýsta ákvörðun. 

Hormónameðferð

Hormónameðferð getur verið gagnleg og er oft áhrifaríkasta meðferðin gegn einkennum breytingarskeiðsins. Ítarlega umfjöllun um hormónameðferð

Lífsstíll

Heilbrigður lífsstíll getur dregið úr einkennum á breytingaskeiði og verndað konur fyrir sjúkdómum sem aukin hætta er á með hækkandi aldri og lækkuðu magni kvenhormóna.

  • Holt mataræði og D-vítamín er nauðsynlegt allann ársins hring.
  • Magn þarmavænna baktería getur minnkað eftir tíðahvörf sem getur leitt til einkenna frá  meltingarvegi. Þarmaflóran hefur ekki einungis áhrif á líkamlega heilsu heldur einnig andlega líðan.
  • Neysla áfengis getur aukið ýmis einkenni á  breytingaskeiði. Hitakóf geta versnað og svefngæði minnnka. Auk þess getur óhófleg neysla áfengis aukið áhættu á beinþynningu, hjartasjúkdómum og sumum tegundum krabbameina, eins og brjóstakrabbameini. Ekki má gleyma að áfengi er hitaeiningaríkt. Viltu hætta eða draga úr áfengisneyslu?
  • Regluleg hreyfing á breytingaskeiði er mikilvæg leið til að minnka áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum og beinþynningu. Hófleg hreyfing bætir svefninn og getur dregið úr kvíða og streitu.
  • Svefninn breytist gjarnan á breytingaskeiðinu og svefngæði versni. Mikilvægt er að skapa sér góða svefnrútínu og tileinka sér leiðir til að bæta svefninn.

Heilsubrú bíður upp á námskeiðið Lifðu vel og lengi Námskeið lifðu vel og lengi

Hugræn atferlismeðferð

Hugræn atferilsmeðferð (HAM) getur bætt svefngæði og dregið úr tilfinningum eins og kvíða. Einnig eru vísbendingar um að meðferðin geti verið gagnaleg til að draga úr tíðni og lengd hitakófa.

Námskeið eru í boði hjá Heilsubrú.

Dáleiðsla

Vísbendingar eru um að dáleiðsla geti dregið úr hita- og svitakófum hjá konum á breytingaskeiði.

Náttúruvörur

Mikið framboð er á náttúruvörum  sem ætlaðar eru til að draga úr einkennum breytingaskeiðs. Engar kröfur eru gerðar um rannsóknir á slíkum efnum eða að þau virki við ákveðnum einkennum. Auk þess er ekki hægt að tryggja öryggi né framleiðslugæði svo sem hreinleika eða innihald fæðubótarefna.

Þó skortur sé á sönnunum fyrir gagnsemi fæðubótarefna við einkennum breytingaskeiðs þýðir það ekki að þau virki ekki, heldur frekar að það skorti rannsóknir. Mikilvægt er að ræða við lækni þegar ákvörðun er tekin um fæðubótaefni, þar sem sum þeirra geta haft milliverkanir við lyf.

Sumar konur finna fyrir minni einkennum og aukinni vellíðan þegar þær nota náttúruvörur. Plöntuestrógen hafa væga estrógenlíka verkun og geta sýnt virkni við hitakófum til skamms tíma. Þau má meðal annars að finna í matvörum sem innihalda soja, hörfræ, rauðsmára og hafra.

Takmarkaðar sannanir eru fyrir gagnsemi annarra náttúruvara við einkennum á breytingaskeiði og sumar jafnvel óheppilegar. 

Lyf án hormóna

Sum þunglyndislyf og önnur lyf geta dregið úr hita- og svitakófum. Þau eru stundum notuð þegar konur geta ekki eða vilja ekki taka hormóna. Eins og með öll lyf geta þau valdið aukaverkunum