Fara á efnissvæði
IS
EN
PL

Kynlífsraskanir

Kaflar
Útgáfudagur

Kynlíf er hluti af mannlegri hegðun. Fólk stundar kynlíf bæði til að eignast börn og til ánægju. Flestir hafa áhuga á kynlífi og hefst hann oftast á kynþroskaaldri og helst fram til dauðadags. Þegar kynlíf veldur fólki verulegri truflun nefnist það kynlífsröskun. Kynlífsraskanir eru misleitur flokkur raskana sem valda truflun í löngun, örvun, getu til kynlífs eða sársauki fylgir kynlífi. Hægt er að hafa fleiri en eina kynlífsröskun á sama tíma.

Tegundir/flokkar kynlífsraskana

Kynlífsraskanir eru flokkaðar eftir þeim áhrifum sem þær hafa á kynlífið.

Missir eða skortur á kynlöngun

Missir eða skortur á kynlöngun lýsir sér í verulegri minnkun eða algerum skorti á löngun eða áhuga á að stunda kynlíf. Einkenni eru:

 • Minnkaður eða engin sjálfsprottinn áhugi á kynlífi, fantasíum eða kynferðislegum hugsunum.
 • Skortur á kynferðislegri svörun eða löngun þrátt fyrir erótísk áreiti eða örvun.
 • Minnkuð eða engin geta til að viðhalda löngun eftir að kynlíf hefst.

Þessu ástandi er oft lýst sem áhugaleysi eða kyndeyfð. Skortur á kynlöngun getur haft verulega neikvæð áhrif á parsambönd en truflar síður fólk sem er einhleypt. Þau sem upplifa skort á kynlöngun glíma oftar en ekki við kvíða tengdan því að standa sig ekki eða geta ekki uppfyllt væntingar maka síns í kynlífi.

Röskun á kynferðislegri örvun

Röskun á kynferðislegri örvun nær yfir líffræðilega svörun og huglæga svörun í kynlífi.

Örvunarvandi kvenna lýsir sér í verulegri minnkun eða algerum skorti á líkamlegri kynsvörun við kynferðislega örvun.

Einkenni eru:

 • Skortur eða veruleg minnkun á kynsvörun kynfæra s.s. að blotna, kynfæri þrútna og verða næmari.
 • Skortur eða veruleg minnkun á kynsvörun annarra líffæra en kynfæra s.s. hörðnun geirvarta, roði í húð, aukin blóðþrýstingur og hraðari öndun.
 • Skortur eða veruleg minnkun á upplifaðri kynsvörun (spennu og ánægju) þrátt fyrir kynferðislega örvun. Örvunarvandinn er til staðar þrátt fyrir kynferðislega löngun og viðeigandi örvun.

Örvunarvandi karla er nefndur risvandi og lýsir sér í minnkaðri getu eða algerri vangetu til að fá eða viðhalda risi getnaðarlims til þess að stunda kynlíf. Risvandinn er til staðar þrátt fyrir að kynferðisleg löngun sé fyrir hendi og viðeigandi örvun hafi átt sér stað.

Fullnægingarvandi

Fullnægingarvandi nær til huglægrar upplifunar af fullnægingu.

Fullnægingarvandi lýsir sér sem skorti á fullnægingum. Sum upplifa að þau fái sjaldan fullnægingu eða þær séu verulega veikar.

Konur upplifa fullnægingarvanda sem verulega seinkaða fullnægingu.

Sama röskun heitir seinkað sáðlát hjá körlum.

Fullnægingarvandinn á við þrátt fyrir viðeigandi kynferðislega örvun og að löngun sé til staðar. Sama hvort þú hefur aldrei fengið fullnægingu eða eigir erfitt með að fá þær eða þær eru veikar.

Sáðlátsvandi

Sáðlátsvandi vísar í sáðlát hjá karlmönnum, bæði brátt og seinkað.

Brátt sáðlát lýsir sér sem sáðláti sem gerist áður en til samfara kemur eða eftir verulega stuttar samfarir eða aðra kynferðislega örvun.

Seinkað sáðlát lýsir sér sem vangetu til að fá sáðlát eða verulega seinkun á sáðláti þrátt fyrir viðeigandi kynferðislega örvun og löngun til að fá sáðlát.  

Maðurinn upplifir litla eða enga stjórn á sáðlátinu.

Sársauki í kynlífi

Með sársauka í kynlífi er átt við verulegan sársauka sem er alltaf eða endurtekið til staðar í tengslum við kynferðislega virkni.

Skýringar á þessum sársauka er þá ekki hægt að finna í undirliggjandi veikindum eða sjúkdómum, skorti á að konan blotni, aldurstengdum breytingum eða breytingum tengdum tíðarhvörfum.

Sársauki við samfarir hefur að minnsta kosti eitt af eftirfarandi einkennum:

 • Verulegir erfiðleikar við samfarir sem eru endurteknir eða alltaf til staðar. Einnig þegar orsökin er ósjálfráðir vöðvakrampar í grindarbotni eða spenna í grindarbotni þegar reynt er að hafa samfarir.
 • Verulegur, viðvarandi eða endurtekinn sársauki í kynfærum eða grindarholi við samfarir.
 • Verulegur, viðvarandi eða endurtekinn ótti eða kvíði fyrir sársauka þegar samfarir eru reyndar, þær standa yfir eða í kjölfar þeirra.

Einkennin koma endurtekið fram þegar kynlíf með samförum er reynt eða jafnvel tilhugsun um samfarir þrátt fyrir að kynferðisleg löngun og örvun séu til staðar.

Helstu ástæður kynlífsraskana

Í flestum tilvikum er um flókið samspil að ræða og jafnvel talað um að ákveðnir þættir leggi til kynlífsvandans frekar en að valda honum. Orsakir kynlífsvanda geta verið sálrænar eða líkamlegar t.d. líkamleg veikindi, skurðaðgerð eða lyfjataka. Breytingaskeið kvenna getur haft áhrif á kynlöngun og valdið leggangaþurrki og sársauka við samfarir sem leitt getur til kynlífsvanda.

Ástæðum kynlífsvanda má einnig skipt upp í: 

 • Bakgrunnsþætti: Fyrri reynsla sem gerir okkur útsettari fyrir kynlífsvanda.
 • Kveikjur: Atburðir sem kveikja vandann.
 • Viðhaldsþættir: Atburðir, aðstæður eða hugsanir sem viðhalda vandanum.

Greining

Kynfræðingar með sérmenntun í kynlífsráðgjöf greina kynlífsraskanir með viðtölum og spurningalistum. Geðheilbrigðisstarfsfólk getur einnig metið vandann og vísað í viðeigandi greiningu og meðferð hjá kynfræðingi. Upplýsingar eru fengnar frá einstaklingnum sjálfum og líka stundum frá maka. Til þess að greinast með kynlífsröskun þarf viðkomandi að upplifa endurtekið ákveðinn kynlífsvanda. Vandinn þarf að hafa hamlandi áhrif og vera viðvarandi í lengri tíma.

Meðferð

Kynlífsráðgjöf er sérhæfð viðtalsmeðferð sem kynfræðingar eða sérmenntaðir sálfræðingar veita. Í kynlífsráðgjöf eru notaðar aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og fjölskyldumeðferðar. Viðtalsmeðferðin getur verið einstaklingsmeðferð eða meðferð fyrir par. Sumstaðar er boðið uppá hópmeðferð fyrir pör eða einstaklinga til að takast á við kynlífsvanda.

Aðrar leiðir eru lyfjameðferðir og fræðsla.

Hvað get ég gert?

Það er ýmislegt sem þú getur gert til að takast á við kynlífsvanda heima:

 • Aflaðu þér upplýsinga um kynheilbrigði, s.s. eðlilegar aldurstengdar breytingar.
 • Ræddu væntingar þínar í kynlífi við þá sem þú stundar kynlíf með.
 • Sinntu almennu heilbrigði þínu, hreyfðu þig reglulega, borðaðu góðan og hollan mat og gættu hugsana þinna. Almennt heilbrigði okkar ræður mestu um kynheilbrigði okkar.
 • Góð samskipti um kynlíf er besta leiðin til að takast á við kynlífsvanda. Tala saman og ræða hvað þú vilt og vilt ekki. 
 • Gefðu þér tíma til að kanna þínar eigin langanir og hugsaðu hvernig þú virkjar öll fimm skynfæri líkamans í kynlífi.

Hvar er hjálp að fá?

Fyrsta stopp í heilbrigðiskerfinu er heilsugæslan. Ræddu við heimilislækni eða hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni hvað er til ráða ef þú glímir við kynlífsvanda. Heimilislæknar ávísa lyfjum ef þarf. Bæði læknar og hjúkrunarfræðingar geta vísað þér í kynlífsráðgjöf hjá sjálfstætt starfandi kynlífsráðgjöfum og í kynlífsráðgjöf hjá Landspítalanum. 

Þú getur leitað beint til sjálfstætt starfandi kynlífsráðgjafa og sérmenntaðra sálfræðinga vegna kynlífsvanda.

Finna næstu heilsugæslustöð.